Um leið og ég opnaði dyrnar inn til mín þegar ég kom heim eftir vinnu á sunnudagskvöldið ruddust tvær kisur framhjá mér og fram á stigaganginn. Það kom mér ekkert á óvart hvað snertir Hrafnhildi ofurkisu, en litla systir hennar vildi skyndilega taka þátt í gamninu og fara út líka. Tárhildur hljóp niður stigana og sá þá til einnar nágrannakonunnar og flúði vælandiupp aftur og beint í fangið á mér sem ákvað að lofa henni að vera úti í smástund eftir að hafa vart þorað út fyrir hússins dyr allan veturinn.
Eftir að hafa sleppt henni lausri út í garð naut ég þess að vera ein og kattalaus heima um stund. Tveimur tímum síðar fór ég niður og kallaði í kisurnar. Ofurkisan kom strax að venju, en Tárhildur hafði hitt fyrir nokkra fressketti úti í garði og var á fullu að ögra þeim.
Klukkutíma síðar tókst mér loks að ná Tárhildi inn með því að draga athygli fresskattanna að harðfiski sem ég átti til. Nú er hún komin inn í rúm alsæl með að hún, minnsta kisan í hverfinu, hafði skorað þrjá verstu fressi hverfisins á hólm og komist heil heim frá þeim.
mánudagur, mars 31, 2008
31. mars 2008 - Eins og kálfur að vori
laugardagur, mars 29, 2008
30. mars 2008 - Útkrotuð miðborg
Undanfarna daga hafa birst myndir að útkrotuðum veggjum víða í miðbænum, ekki bara einu sinni heldur hafa sömu krotin verið sýnd margoft í hinum ýmsu fjölmiðlum. Af hverju er ekki búið að mála yfir þetta í stað þess að væla yfir örfáum verktökum sem láta hús sín fara í niðurníðslu. Ég trúi því ekki að þeir læðist um á nóttunni og kroti á húsveggi.
Unglingarnir sem standa í þessu finna sér upphefð í að fá myndir af verkum sínum í blöðum og því lengur sem þau standa, því meiri finnst þeim upphefðin. Því er mikilvægt að reyna að standa drengina að verki auk þess sem þrífa þarf og mála yfir ekki síðar en daginn eftir að krotið uppgötvast. Ég veit að þetta kostar peninga, en þetta er það eina sem dugir.
Ef íbúar í miðbænum, verslunarfólk og borgaryfirvöld tækju sig saman um eftirlit og aðgerðir til að koma í veg fyrir krotið myndi vandamálið minnka stórlega á skömmum tíma.
29. mars 2008 - Há dú jú læk Æsland?
Þessi sögufræga spurning kom upp í huga mér á fimmtudag þegar íþróttafréttamaður útvarpsins var að segja frá skíðalandsmótinu á Íslandi, ræddi við stúlku sem var nýkjörinn Íslandsmeistari í íþróttinni og lagði fyrir hana eftirfarandi spurningu:
“Hvernig er að vera Íslandsmeistari?”
fimmtudagur, mars 27, 2008
28. mars 2008 - Ég hélt að ég myndi aldrei styðja tollinn, en nú er ástæða til þess!
Ég eyddi tveimur áratugum á sjó þar af mörgum árum í millilandasiglingar. Á þessum árum kynntist ég lítillega fjölmörgum tollvörðum og átti nokkur samskipti við þá þegar skipið kom til hafnar á Íslandi og þá aðallega í Reykjavík. Yfirleitt voru samskiptin góð, í versta falli hlutlaus þótt stöku sinnum hafi mönnum hitnað í hamsi eins og þegar tollverðir voru látnir telja sígaretturnar í pökkunum þegar komið var til Reykjavíkur.
Svo hætti ég á sjó 1987 og flutti nokkru síðar til Svíþjóðar og dvaldi þar í nokkur ár. Eftir að ég flutti heim aftur hefi ég oft átt erindi til útlanda og verð ég að játa að í fyrstu var ég hissa á að sjá gömlu “andstæðingana” á Keflavíkurflugvelli þegar ég var að koma heim frá útlöndum. Ég spurði einn gamlan félaga hvað hann væri að þvælast suður í Keflavík í stað sælunnar hjá Tollgæslunni í Reykjavík og svaraði hann því til að vegna ofstjórnunar í Reykjavík hefðu sumir kosið að færa sig um set á öllu manneskjulegri vinnustað.
Ég vil skoða mótmælafund tollvarða á Keflavíkurflugvelli í þessu ljósi. Tollgæslan í Reykjavík og Tollgæslan á Keflavíkurflugvelli heyrðu undir sitthvort ráðuneytið, en Tollgæslan í Reykjavík heyrir undir Fjármálaráðuneytið. Á móti kemur að Tollgæslan á Keflavíkurflugvelli hefur starfað undir stjórn sýslumannsins sem áður tilheyrði Utanríkisráðuneyti og síðar Dómsmálaráðuneyti. Mér sýnist það vera hinn raunverulegi tilgangur með breytingunum, að samræma stjórn allra tollgæslumála undir einn hatt, þ.e. Fjármálaráðuneyti.
Þá verður líka ástæða fyrir hinn almenna ferðamann að óttast því ef þarf að hugsa um hag ríkissjóðs í fyrsta lagi og að tollverðir verði látnir eyða öllum tímanum í að reikna innkaup ferðafólks upp úr töskunum til tekjuauka fyrir ríkiskassann, er hætta á að fíkniefnaeftirlitið mæti afgangi.
Því eiga tollverðirnir suðurfrá minn fyllsta stuðning í baráttu sinni fyrir áframhaldi starfi undir stjórn sýslumannsins á Keflavíkurflugvelli.
http://mbl.is/mm/frettir/innlent/2008/03/27/tollverdir_motmaela/
27. mars 2008 - Vesalings Skeggi!
Þegar ég kom til Reykjavíkur haustið 1963 lenti ég í 12 ára bekk hjá Skeggja Ásbarnarsyni (1911-1981), hinum mætasta kennara, barnabókaþýðanda og útvarpsmanni sem sá um barnatíma útvarpsins um margra ára skeið og hlaut mikið lof fyrir. Eftir að hafa setið í bekk hjá honum í þrjár vikur, taldi hann sig ekki geta kennt mér neitt meira enda var ég þá þegar úttroðin af visku eftir þá ágætu kennara Lárus Halldórsson, Klöru Klængsdóttur og Birgi Sveinsson í Brúarlandsskóla/Varmárskóla. Var ég þá snarlega flutt um bekk og komið fyrir í A-bekk, en nemendum var raðað í bekki eftir gáfum og glæsileika í stærri skólum á þessum árum.
Nú les ég í 24 stundum í dag að þeir félagar Jón Baldvin Hannibalsson og Styrmir Gunnarsson þurftu að sitja heilan vetur og kannski lengur hjá Skeggja svo einhver hefur tregðan verið hjá þeim félögum að móttaka kennsluna.
Það má því ljóst vera að ýmis og erfið var byrðin sem lögð var á Skeggja heitinn að koma sumum til manns þegar hann sinnti lífsstarfi sínu kennslunni. :D
þriðjudagur, mars 25, 2008
26. mars 2008 - Djöfullinn danskur!
Ef minnið svíkur mig ekki, þá var stöðugt hamrað á því við mig meðan ég var barn að ef ég færi ekki með bænirnar mínar og ef ég hegðaði mér ekki skikkanlega færi ég beinustu leið til Helvítis eftir þessa jarðvist. Þessu trúði ég mátulega og hefi ávallt hegðað mér óaðfinnanlega í öllu sem ég tek mér fyrir hendi í von um að lenda ekki í neðra á efsta degi.
Þær slæmu fréttir bárust okkur frá Danmörku um páskana að biskupinn þar í landi hefði lagt til að leggja Helvíti niður. Þetta er auðvitað hið versta mál og erfitt að sjá fyrir hvað eigi að gera við allt það fólk sem hefur ekki hegðað sér vel í lífinu.
Ég hugsa með hryllingi til þess hvert á að senda einhvern sem maður vill að fari til Fjandans. Ekki er hægt að senda hann til Bandaríkjanna því það er Guðs eigið ríki og þar finnst bara einn maður sem ekki á heimilisfesti hjá Almættinu. Sá hinn sami verður einnig að fá hæli á vísum stað þegar hann kveður þetta jarðlíf því vart fer hann til himna eftir allt það sem hann hefur á samviskunni.
Því tel ég það mjög varhugavert að leggja niður Helvíti, en þá kemur líka önnur spurning sem vert er að huga að. Hvað á að gera við Fjandann?
Einhversstaðar eiga vondir að vera, líka Djöfsi. Sjálf veit ég ekki um nema einn stað sem kemur til greina sem hæli fyrir þann gamla þar sem hann er á meðal sinna líka því eins og við fengum að vita sem ólumst upp á Íslandi á síðustu öld, þá er djöfullinn danskur sbr blótsyrðið góða.
Það eru kannski afskipti af dönskum innanríkismálum að fetta fingur út í orð danska biskupsins.
25. mars 2008 - 4000 eða 4306 eða 4488 eða 4796 eða....
Bandaríkjamenn hafa gefið það út að 4000 bandarískir hermenn hafi fallið í Írak frá því innrásin hófst þar fyrir fimm árum. Ekki ætla ég að rengja þessa tölu, enda eru Bandaríkjamenn bestir við að telja sín eigin lík, þ.e. þau lík sem hafa fundist og verið skilað í bandaríska kirkjugarða. En þessi tala miðast bara við bandaríska hermenn í Írak og sem hafa látist innan viss tíma frá því sumir særðust. Þeir sem létust síðar af völdum sára sinna eru ekki taldir með, ekki frekar en þeir Íslendingar sem látast meira en mánuði eftir bílslys.
Í reynd hafa 4306 vestrænir hermenn fallið í Írak ef hermenn þeir sem sendir hafa verið á vegum húskarla Búsh eru taldir með, Bretar, Danir, Ítalir og fleiri sem áttu ekkert vantalað við írösku þjóðina, en var samt fyrirskipað að taka þátt í innrásinni í Írak. Ekki veit ég hversu margir vestrænir hermenn hafa að auki fallið í Afganistan, en tala bandarískra hermanna sem fallið hafa þar nemur nú 488 hermönnum.
Ofan á þetta má bæta við 29.451 bandarískum hermanni sem samkvæmt opinberum tölum hefur særst í Írak á síðustu fimm árum. Talið er að sú tala sé mun hærri.
Þessar tölur eru þó smáræði við þær hörmungar sem Íraska þjóðin hefur mátt þola í tilraunum Bandaríkjamanna og leppa þeirra til að frelsa þjóðina frá sjálfri sér og Saddam sáluga Hussein. Samkvæmt Iraqian Body Count eru skráð dauðsföll orðin nærri 90.000, en aðrar tölur sem telja ekki einungis þá sem fallið hafa beint af völdum styrjaldarinnar, heldur einnig þá sem fallið hafa af óbeinum völdum stríðsins, eru komnar upp í 1.191.216.
Það eru enn til menn sem reyna að réttlæta þessa slátrun á fólki.
http://antiwar.com/casualties/
mánudagur, mars 24, 2008
24. mars 2008 - Leikur að tölum á Moggabloggi
Stundum þegar ég hefi skrifað einhverja gáfulega færslu á Moggablogginu, ímynda ég mér að nú muni ég uppskera aðdáun þeirra sem hafa gaman af heimspekilegum færslum mínum og að mikill fjöldi fólks muni þyrpast að til að lesa bloggið mitt. Því miður bregðast vonir mínar jafnoft og áhugi fólks fyrir gáfulegum færslum mínum veldur mér vonbrigðum.
Ekki er þetta alltaf svona. Stundum skrifa ég tóma steypu og aðsóknarfjöldinn fer í hæstu hæðir. Gott dæmi var í gær, páskadag. Þá skrifaði ég eitthvað ógáfulegt um litháíska innflytjendur og slíkar urðu aðsóknartölurnar, að fjórum tímum síðar höfðu fjögur hundruð manns lesið bloggið mitt þótt um miðja helga nótt væri og gjörvallt hið kristna mannkyn sat við hellismunna trúar sinnar og beið upprisu frelsarans. Ekki dró úr aðsókninni þegar kom að fótaferðatíma fólks og svo virtist sem að sumir tækju vísdóm minn framyfir páskahugvekju prestsins. Þegar leið svo að kvöldbænum Moggabloggara töldust innlitin á síðuna hjá mér hafa náð 2647 flettingum.
Ekki er ég sannfærð um áhrifamátt orða minna, heldur tel ég líklegra að ritstýrur Moggabloggsins eigi fremur hlut að máli, ekki síst í ljósi þess að engin óeðlileg fjölgun varð á innliti inn á hitt bloggið mitt á blogspot púnktur com, en þar hefi ég haldið úti fátæklegu bloggi árinu lengur en á Moggabloggi.
Ég viðurkenni þó að hinar himinháu aðsóknartölur kitla hégómagirnd mína og athyglissýki.
sunnudagur, mars 23, 2008
23. mars 2008 - Hvað eru eiginlega margir Litháar á Íslandi?
Allir sem kynnst hafa Pólverjum vita að flestir þeirra eru hið ágætasta fólk þótt vissulega finnist rotin epli innanum eins og reyndar á meðal annarra þjóða. Þó hafa þeir átt undir högg að sækja á Íslandi vegna fordóma íslensku þjóðarinnar í garð þeirra.
Þetta er kannski eðlilegt. Í mörgum ríkjum finnast innflutt þjóðarbrot sem hafa fengið á sig stimpil fyrir lögbrot af ýmsu tagi, oft fyrir litlar sakir, fólk sem er illa þokkað víða um heim fólk eins og sígaunar. Lítið hefur heyrst af sígaunum á Íslandi, en nú er nýr hópur orðinn alræmdur á Íslandi rétt eins og sígaunar annarsstaðar, reyndar nágrannar þeirra fyrstnefndu. Þar er ég að tala um Litháa.
Þjóðirnar þrjár við austanvert Eystrasaltið hafa löngum verið spyrtar saman í einn hóp og sjálf hefi ég ágætis reynslu af bæði Eistlendingum og Lettum, hefi heimsótt bæði löndin og kynnst fólki þaðan. Litháum hefi ég hinsvegar aldrei kynnst. Ég efa þó ekki að flestir þeirra séu hið ágætasta fólk, en nú veit ég ekki lengur hvað skal segja. Daglega berast fréttir af hinum ýmsu óknyttum sem fólk þaðan hefur framið, oft alvarleg fíkniefnabrot og slagsmál auk líkfundarmálsins fræga.
En nú er eins og allt sé að fara til fjandans í þeirra hópi. Það er ráðist af tilefnislausu á lögregluþjóna við skyldustörf en þrátt fyrir sýknu fyrir dómi, eru þeir svo hirtir nokkrum dögum síðar með hnefafylli af E-pillum , hópur Litháa ræðst á annan hóp landsmanna sinna í Breiðholti og fleiri lenda í slagsmálum á Miklubraut ef marka má http://vísir.is/.
Í sakleysi mínu spyr ég bara. Hvað eru margir Litháar á Íslandi og hversu stórt hlutfall þeirra situr á bak við lás og slá? Þarf ekki að beita meiri hörku við þá brotlegu, t.d. með því að senda þá alla til afplánunar í sínu heimalandi? Það er að vísu kominn vísir að slíku með nýlegu samkomulagi íslenskra og litháískra stjórnvalda, en samt. Það yrði alvöru refsing!
http://visir.is/article/20080322/FRETTIR01/80322057
P.s.( kl 14.45). Samkvæmt nýjustu fréttum eru Litháar saklausir af þessum verknaði í Keilufellinu, heldur eru þar Pólverjar á ferð. Spurningin er bara hvenær verða þeir sómakærir Íslendingar?
http://www.visir.is/article/20080323/FRETTIR01/80323024
laugardagur, mars 22, 2008
22. mars 2008 - Þú átt nóg af peningum
Það þykir góður siður að grípa í bók á aðfangadagskvöld jóla þegar ekkert er hægt að gera af sér nema að éta yfir sig. Sama gildir um föstudaginn langa og páskadag þegar ekkert má gera annað en að brjóta á sér lappirnar á tunnustöfum í Bláfjöllum eða í Böggvistaðafjalli.
Ég er svo heppin þessa páskana að ég er að vakt alla hátíðina. Þar sem tunnustafareið er ómöguleg á vaktinni, valdi ég hinn kostinn og greip með mér bók til að lesa á vaktinni. Þegar svanasöngur hins íslenska fjármálakerfis er hafður í huga þótti mér eðlilegast að grípa með mér eina bjartsýnisbók til að lesa eftir hlustun á félaga minn glæpasöguhöfundinn koma með spurningar í útvarpinu. Næst hendinni varð bókin „Þú átt nóg af peningum“ eftir Ingólf H. Ingólfsson sem ég fékk einhverju sinni úr bókaklúbbnum, fann sitthvað athyglisvert þá í henni og lagði síðan til hliðar.
Nú las ég hana alla í gær og í dag. Niðurstaðan er eiginlega hin sama og áður. Ég get alveg sparað. Það vissi ég reyndar áður því ég greiði nú 6% af launum í hina ýmsu séreignarsjóði. Ég finn ekkert fyrir þessum sparnaði, en gleðst á hverju ári þegar ég fæ yfirlitið yfir hinar ýmsu inneignir, þó kannski mest nú rúmu ári eftir að ég breytti opinberu sjóðunum úr hlutabréfasjóðum í verðtryggða sjóði.
Það sem þó skiptir mestu máli í sambandi við sparnað er sálfræðin í tengslum við sparnaðinn. Hvað ætli ég sé til dæmis að greiða mikið í vexti á mánuði af lánum, yfirdrætti og Visa raðgreiðslum?
Fólki kemur það auðvitað ekkert við, enda á hver að svara fyrir sig. En ég fullyrði að mánaðarvextirnir mínir myndu duga fyrir afborgunum af nýjum smábíl þótt ég þurfi ekkert á slíkum að halda á meðan skuldlausi eðalvagninn endist mér.
Höfundur bókarinnar mætti hinsvegar alveg gefa út lítið kver með stuttum og hnitmiðuðum texta til að auðvelda sparnaðinn í stað þess að teygja lopann eins og gert er í þessari annars ágætu bók.
föstudagur, mars 21, 2008
21. mars 2008 - Um óskoðaða bíla
Í tilefni af frétt í fimmtudagsmogganum um reglugerðarbreytingu svo unnt verði að sekta þá sem ekki færa bíla sína til skoðunar fór ég að velta þessu máli fyrir mér, því eins og fréttin ber með sér, er um tíundi hver bíll á götunum óskoðaður.
Hverjir eru þeir sem ekki færa bíla sína til skoðunar á réttum tíma? Jú, það er fólkið sem gleymir að kíkja á bílnúmerið hjá sér og svo hitt fólkið sem á ekki peninga fyrir skoðun og viðgerð. Það er því bjarnargreiði fyrir báða þessa hópa að beita sektum, annarsvegar hópinn sem telur sig vera í góðri trú þar til sektarmiðinn birtist allt í einu inn um bréfalúguna og svo hinsvegar þann hóp sem mun eiga enn verr með að geta komið bílnum í gegnum skoðun sökum fátæktar. (Það þýðir ekkert að benda þessu fólki á að taka strætó því slíkt er vart á færi nema mestu hreystikvenna )
.
Það eru til aðrar aðferðir til að bæta ástandið. Ein er fólgin í auknu eftirliti með óskoðuðum bílum. Slíkt held ég að sé öllu betri en að beita sektarúrræðum. Önnur getur fólgist í að kannað sé ástand á skoðunarvottorði um leið og bílar eru stöðvaðir vegna umferðarlagabrota. Slíkt var oft gert í mínu ungdæmi og þótti sjálfsagt þótt óþarfi sé að senda bílinn í skyndiskoðun vegna þess að hann er óhreinn eða útaf engu.
Annars er einfaldasta ráðið fyrir fólk að fá sér vinstrigrænan eðalvagn sem rennur í gegnum skoðun ár eftir ár. Ef hann fær grænan miða er það bara til að miðinn verði í stíl við lit bílsins.
http://www.mbl.is/mm/frettir/innlent/2008/03/20/eigendur_oskodadra_bila_thurfi_ad_borga/
miðvikudagur, mars 19, 2008
20. mars 2008 - Af Íraksstríði
Það er skelfilegt að sjá tölurnar um alla þá Íraka sem hafa misst lífið vegna innrásar Bandaríkjanna í Írak fyrir réttum fimm árum síðan. Samkvæmt vefsíðunni http://antiwar.com
er talan nú komin upp í 1.189.173 manneskjur sem fallið hafa, beint eða óbeint, af völdum þessarar styrjaldar sem studd var af núverandi Seðlabankastjóra sem og starfsmanni norrænu ráðherranefndarinnar.
Ekki er hægt að kenna því um að þeir hafi ekki vitað betur. Stærsti hluti íslensku þjóðarinnar vissi betur og tók afstöðu gegn þessari viðbjóðslegu innrás í fjarlægt land við botn Persaflóa. Bandaríkjamenn vissu líka betur, en krafan um olíugróða varð skynseminni yfirsterkari. Afleiðingin er ekki bara að olíuverðið hefur aldrei verið hærra, heldur yfir milljón látnir. Þessar 1.189.173 manneskjur voru líka fólk með tilfinningar, vonir og kærleika. Þá eru ógleymdar kannski hátt í tuttugu milljónir sem eiga um sárt að binda vegna innrásarinnar því flestir Írakar hafa misst einhvern náinn ættingja.
Það eru komin fimm ár frá innrásinni sem aðeins átti að taka nokkra daga. Allir vita nú hvernig fór, líka þeir fáu sem enn gorta sig af glæpnum.
þriðjudagur, mars 18, 2008
19. mars 2008 - Sama gamla fertuga rullan
Ég fékk nostalgíukast er ég heyrði í hagfræðingi LÍÚ í útvarpinu á þriðjudaginn vera að dásama gengishrunið síðustu dagana. Alveg eins og í gamla daga þegar útgerðarmenn kröfðust gengisfellinga og Kristján Ragnarsson hágrét í beinni útsendingu frammi fyrir alþjóð.
Ég minnist gengisfellinganna 1967 og 1968 þegar dollarinn meir en tvöfaldaðist í tveimur stökkum og þúsundir Íslendinga flúðu land til Svíþjóðar og Ástralíu og hafa margir ekki enn snúið heim. Þá varð kreppa í þjóðfélaginu enda öll eggin í sömu körfunni. Einnig minnist ég þess þegar frystihúseigendur í Vestmannaeyjum fóru í verkfall sumarið 1978 og lokuðu frystihúsunum þar til gengið hafði verið fellt. Að sjálfsögðu hlýddi ríkisstjórnin yfirboðurum sínum. Þar með stöðvaðist uppbyggingin í Eyjum eftir gosið og við þurftum að sigla með aflann úr mokfiskiríi.
Við höfum nú þurft að horfa upp á hrikalegan aflabrest af mannavöldum, fyrst aflabrest á þorski, síðar á loðnu. Ef þetta hefði átt sér stað fyrir 40 árum hefði kreppan orðið mun verri en hún varð þá. Það hefur hinsvegar mikið breyst í þjóðlífinu frá því í lok sjöunda áratugarins, m.a. mikil uppbygging stóriðju en einnig mikil uppbygging á mörgum öðrum sviðum eins og verslun og ferðaþjónustu.
Við getum fyrir bragðið haft gaman af þessari rödd fortíðar sem heyrðist í útvarpinu og þakkað fyrir að búið er að reisa fleiri undirstöður undir atvinnulíf þjóðarinnar en var fyrir 40 árum síðan, ári áður en fyrsta álverið tók til starfa á Íslandi þótt vissulega sé erfitt að horfa upp á þessa niðursveiflu í hagkerfinu sem nú hefur átt sér stað.
18. mars 2008 - Ekki blogga ekki neitt!
Þekkt innheimtuskrifstofa auglýsir stundum undir orðunum, Ekki gera ekki neitt. Einföld setning og áhrifamikil fyrir þá sem skulda, en þörf áminning fyrir okkur hin sem erum ekkert endilega með allt niðurum okkur í fjármálum.
Rétt eins og að það er mikilvægt að greiða skuldirnar á eindaga, finnst sumum það nauðsynlegt að blogga reglulega þótt þeir hafi ekkert að segja. Ég er líka svona. Mér finnst nauðsynlegt að segja eitthvað þótt mér beri að þegja. Nú sit ég við lyklaborðið og veit ekkert hvað á að segja.
Því hefi ég ákveðið að fara að ráðum innheimtuskrifstofunnar og ekki blogga ekki neitt í nótt.
Kannski rætist úr þegar líður á þriðjudaginn.
mánudagur, mars 17, 2008
17. mars 2008 - Skírn
Eins og sumir vita sem þekkja mig, hefi ég aldrei neitað þeirri kristnidómsfræðslu sem ég hlaut í barnaskóla þótt vonir sumra þess efnis að ég færi í prestaskólann hefðu að engu orðið. Ofurtrú sumra fríkirkjusafnaða (að sjálfum fríkirkjusöfnuðinum frátöldum) hefur þó ekki verkað hvetjandi á mig að rækja kristindóminn.
Á pálmasunnudag var komin ástæða til að mæta til kirkju. Hvorki var tilefnið það að ferma, gifta eða jarða, heldur var kominn tími á skírn nýjasta erfðaprinsins. Eins og gefur að skilja dugðu ekki minna en tveir myndarlegir prestar í Neskirkju til að skíra drenginn inn í söfnuðinn (og Knattspyrnufélag Reykjavíkur heyrðist einhver tauta). Allt gekk ljómandi vel fyrir sig eftir skírn Starra og eftir altarisgöngu var haldið boð hjá móðurforeldrum hans þar sem etið var og drukkið (kaffi) í besta samlæti.
Takk fyrir mig
P.s. Einhver heyrðist kvarta yfir því af hverju Starri væri í hvítum skírnarkjól en ekki röndóttum.
sunnudagur, mars 16, 2008
16. mars 2008 - Finnurðu ekki lyktina maður?
Eftir allt þetta tal mitt um skemmtanalíf í erlendum hafnarborgum er ekki hægt að kveðja umræðuna án einnar sannrar sögu sem ég fann í hugskotum mínum.
Einhverju sinni seinkaði okkur yfir hafið vegna brælu og komum ekki til Rotterdam fyrr en seint að kvöldi í stað þess að koma að morgni og var þegar hafist handa við að losa og lesta skipið. Ungur stýrimaður á skipinu, við skulum kalla hann Þórð þótt hann heiti eitthvað allt annað, var fljótur að notfæra sér hið sjaldgæfa tækifæri sem það þótti að fá nótt í Rotterdam, skellti sér í betri fötin og í land á vit nýrra ævintýra.
Það gekk vel að vinna við skipið um nóttina og þegar Þórður kom um borð um klukkan fimm um morguninn, vel slompaður eftir góða skemmtun, var lestun lokið og einungis pappírsvinnan eftir. Skipið hélt svo úr höfn klukkan sex áleiðis til Hamborgar, en okkar maður fékk að sofa þar til hann var ræstur á vaktina klukkan átta.
Heilsan var skelfileg hjá vesalings Þórði eftir að hafa sofið í einungis þrjá tíma og hann angaði eins og spíratunna eftir ótæpilega næturdrykkju. Hann mátti þó prísa sig sælan að skipið var komið út á rúmsjó og hafnsögumaðurinn löngu farinn. Hann þurfti því ekki að hugsa um annað en að standa sína vakt og gæta þess að ekkert færi úrskeiðis á siglingunni.
Skipstjórinn okkar sem nú er látinn fyrir nokkrum árum, þótti fremur strangur gagnvart áfengi og þegar hann kom upp í brú reyndi Þórður að hressa sig með kaffidrykkju og láta lítið á sér bera. Hann greip svo sjónauka og fór að fylgjast með skipi sem við vorum að mæta:
“Þetta er greinilega bátur frá Jebsen”, sagði Þórður upphátt eins og til að sannfæra Erlend skipstjóra um að allt væri góðu lagi hjá sér.
“Nei, nei, þetta er spírabátur”, svaraði Erlendur.
“Ha, hvernig veistu það?” spyr Þórður hissa á skarpskyggni þess gamla.
“Finnurðu ekki lyktina maður, hana leggur alveg yfir til okkar!”
laugardagur, mars 15, 2008
15. mars 2008 – Orsakir lokunar hóruhúsa í hafnarborgum Evrópu.
Þegar ég byrjaði til sjós á sjöunda áratugnum voru skemmtihverfi mjög áberandi í hinum ýmsu hafnarborgum Evrópu og víðar. Þegar fór að líða á áttunda áratuginn fór þeim ört fækkandi, stundum með aðstoð yfirvalda, en víðast þó vegna þess að eftirspurnin dróst saman og ekki lengur grundvöllur fyrir skemmtistöðunum. Nú síðast bárust fréttir af lokun þekkts hóruhúss í Hamborg sem staðið hafði allt af sér í 60 ár.
Eigandi hóruhússins Hótel Luxor eða Eros Center í Hamborg hélt því fram að þetta væri vegna aukinnar klámvæðingar á netinu. Ég er ósammála henni sem og einstöku aðilum sem vitna í þessi orð sem einhvers stóra sannleiks um niðurlægingu skemmtihverfanna.
Ég man eftir blómlegu skemmtihverfi í Rotterdam þar sem mikið var um vændi og klám fyrir og um 1970. Hverfið hét Katendrecht (af sumum ranglega kallað Chinatown) og þar var hægt að sækjast í allar þær lystisemdir sem einmana farmenn þurftu á að halda meðan stoppað var í höfn. Um 1980 var hverfið horfið sem slíkt, búið að rífa sum húsin og komin leguhöfn fyrir lektur í staðinn. Slík urðu örlög margra slíkra hverfa og ekkert kom í staðinn.
Á árunum fyrir 1970 var mikið um stór og mikil skip sem fluttu vörur í lausu, í sekkjum eða á brettum, áhafnirnar voru fjölmennar og margra daga stopp í hverri höfn. Svo fann einhver upp gáma. Allt í einu gjörbreyttist allt umhverfið. Mestallir flutningar urðu staðlaðir í 20 og 40 fet og hraðinn jókst svo um munaði. Það þurfti ekki lengur 30-40 manns á hvert skip og skipin stoppuðu í nokkra klukkutíma í stað margra daga áður. Menn hættu að hafa tíma til að skreppa í land til að skemmta sér.
Í dag eru stærstu skipin sem koma til hafnar með einungis örfáa í áhöfn. Þó lesta þau á við 30 skip á árum áður og kannski enn fleiri. Áhafnirnar eru hættar að hafa tíma til að kíkja í bæinn. Gott dæmi er nýja raðsmíðin fyrir Mærsk, skip sem sigla á milli Evrópu og Austur-Asíu í tveggja mánaða túrum. Þessi skip eru skráð geta borið 11 þúsund gámaeiningar en bera í reynd allt að 15 þúsund gámaeiningum. Það þarf einungis 13 menn til að sigla þessum skipum.
Hvernig ætla vesalings stelpurnar í vændisbransanum að lifa af slík umskipti? Það er einfaldlega vonlaust. Tæknin býður ekki upp á neitt slíkt. Það var ekki netklámið sem kálaði Eros Center í Hamborg. Það voru gámar.
föstudagur, mars 14, 2008
14. mars 2008 - Var ég svona saklaus (vitlaus) í gamla daga?
Manstu kvöldin okkar útí Hamborg sungu Raggi Bjarna og félagar á sjöunda áratugnum og ég fell óðara í trans og minningarnar riðlast upp á yfirborðið í hvert sinn er ég heyri þetta ágæta lag sem þó er með ótrúlega kjánalegum texta. Ekki ætla ég samt að rifja upp lagið í smáatriðum, heldur fjalla um lokun á frægasta hóruhúsi í Hamborg sem sagt var frá í Morgunblaðinu.
Ekki man ég hversu oft ég kom til Hamborgar á árunum frá 1971 til 1987, en það gæti verið á annað hundrað skipti. Um fimm ára skeið á þessu tímabili kom ég að jafnaði til Hamborgar um 15 til 20 sinnum á ári, þ.e. frá vori 1982 þar til í ágúst 1987 er ég kom þangað í síðasta sinn. Þótt stoppin væru oft stutt, var dvalið lengi í öðrum tilfellum og tvisvar minnist ég þess að hafa verið í Hamborg í dokk í meira en þrjár vikur í hvort sinn. Ég taldi mig því þekkja hverfið umhverfis Reeperbahn allþokkalega, þekkti fjölda hinsegin kráa í hliðargötunum eins og fingurna á mér og var í ágætum kunningsskap við fólk sem rak ýmsa starfsemi í hverfinu þótt ekki væri um neitt kynferðislegt að ræða.
Þegar ég heyrði um lokun á hóruhúsinu Hotel Luxor í Hamborg, var ég þó lengi að klóra mér í höfðinu yfir fréttinni. Var ég virkilega svo saklaus að ég þekkti ekki frægasta hóruhúsið í bænum, ekki einu sinni af afspurn? Það var sama hversu djúpt ég kafaði í ruslatunnur minninganna, hvergi fann ég umrætt hóruhús, en það verður að taka fram að það eru liðin yfir 20 ár síðan ég kom síðast til Hamborgar og margt hefur drifið á daga mína síðan þá.
Loks datt mér í hug að gúggla umrætt hóruhús og viti menn. Ég fann ekki bara greinina sem Mogginn virðist styðjast við, heldur og staðsetninguna á “hótelinu”. Auðvitað hafði ég oft gengið þarna í gegn á leið minni frá Reeperbahn yfir á Grosse Freiheit. Þetta var þá staðurinn sem kallaður var Eros Center í mínu ungdæmi og sagt var að væri með flýtiþjónustu, þ.e. viðskiptavinunum voru skammtaðar visst margar mínútur til að ljúka sér af því það þurfti að afgreiða marga á hverri nóttu.
Þar sem ég hefi aldrei stundað næturlíf af því tagi sem hér er talað um, treysti ég mér ekki til að tjá mig frekar um starfsemina sem þar fór fram
http://www.mbl.is/mm/frettir/erlent/2008/03/14/elsta_vaendishusi_hamborgar_lokad/
14. mars 2008 - Ég er í vondum málum!
Í gær var Hannes Hólmsteinn Gissurarson dæmdur til greiðslu skaðabóta fyrir að nota orð Halldórs Kiljan Laxness í skrifum sínum um skáldið. Í sjálfu sér skil ég vel að ekkja og börn Halldórs hafi stefnt Hannesi, enda eru lífsskoðanir Hannesar í ósamræmi við lífsskoðanir skáldsins og nánustu ættingja hans auk þess sem hann skrifaði þriggja rita ævisögu Halldórs án samráðs og í andstöðu við fjölskylduna. Samt er ávallt spurning hvort höfundarlög eru ekki fullströng þegar um er að ræða tilvitnanir í umsagnir manns um sjálfan sig?
Mér varð það á að taka heila málsgrein Halldórs Kiljan Laxness um öryggismál og birta á blogginu mínu í fyrradag og veitti ekki af, því þótt orð hans séu um 64 ára gömul, þá sanna þau að alltof fátt hefur verið gert í vinnuverndarmálum Íslendinga þótt vissulega hafi stór skref verið tekin á síðustu áratugum.
Því á ég mér þá ósk að æskuvinkonur mínar og móðir þeirra úr Mosfellsdalnum fari nú ekki að beita sömu úrræðum á mig vesæla og á Hannes Hólmstein. ;)
fimmtudagur, mars 13, 2008
13. mars 2008 - Að búa ein er frelsi!
Eitthvað á þessa leið má þýða heitið á grein sem ég las í Dagens nyheter á dögunum og var hún í greinaflokki með um fólk sem býr eitt, án maka eða barna. Það er full ástæða til að skoða þetta mál í landi þar sem þar sem tvær milljónir búa einar eða nærri fjórðungur sænsku þjóðarinnar. Ekki veit ég tölurnar fyrir Ísland, en ljóst er að hér á landi býr fjölmargt fólk eitt og sér og kærir sig kannski ekkert um að deila íbúðinni með öðrum.
Ef frá er talinn tæpur áratugur á meðan ég var í hjónabandi frá miðjum áttunda áratug síðustu aldar, hefi ég búið ein allt frá fimmtán ára aldri. Í dag finnst mér önnur tegund búsetu nánast sem óhugsandi. Ég vil þó ekki útiloka neitt, en ég er mjög sátt við þetta búsetuform.
Það kemur fyrir þegar ég neyðist til að henda mat sem ekki nýttist að ég bölva þessu annars ágæta fyrirkomulagi. Það er hundfúlt að þurfa að henda helmingnum af brauðinu vegna þess eins að ég gat ekki keypt það í minni pakkningum eða þá að ég nenni ekki að laga sósuna fyrir mig eina. Einnig laumast ég til að kaupa eitthvað drasl sem nóg er að henda í örbylgjuofninn og hita. Fyrir bragðið verður heimiliskostnaðurinn miklu hærri en ella þyrfti að vera og það er dýrt að búa ein í 84 fermetrum. Þá verður mér gjarnan hugsað til Svíþjóðar þar sem útreiknuð stærð íbúðarhúsnæðis á hvern Svía var um 45 fermetrar árið 1990. Ekki veit ég hvernig það er í dag né hver stærðin er hér á Íslandi.
Þrátt fyrir ofangreinda ágalla bý ég við frelsi heima hjá mér. Ef ég nenni ekki að skúra gólfin heima hjá mér, sleppi ég því bara. Ekki þarf ég að nöldra yfir neinum sem skilur sokkana sína eftir á miðju gólfinu þar sem einustu sokkarnir sem eru skildir eftir á gólfinu heima hjá mér eru mínir eigin sokkar. Enginn rekur mig í rúmið á ákveðnum tíma. Ég elda mér mat þegar ég verð svöng og hlusta á tónlist á nóttunni. Nágrannarnir á neðri hæðinni hafa enn ekki kvartað.
Einustu verurnar sem kvarta yfir mér eru kisurnar mínar. Þær láta mig vita ef ég er ekki nógu dugleg að færa þeim matinn sinn eða að hleypa þeim út og þær hika ekki við að mótmæla á sinn hátt ef ég er ekki nógu dugleg að hreinsa kassann þeirra. Um leið finnst þeim ágætt að sofa einar í rúminu mínu áður en ég rek þær úr því þegar ég fer sjálf að sofa.
http://www.dn.se/DNet/jsp/polopoly.jsp?d=531&a=750550
miðvikudagur, mars 12, 2008
12. mars 2008 - Með handbremsu og gírstöng!
Undanfarna daga hafa dunið yfir okkur sauðsvartan almúgann auglýsingar í útvarpi frá ónefndu bílaumboði og þar er auglýstur bíll sem er með leður á stýri, handbremsu og gírstöng.
Hvað er svona merkilegt við það? Ég held svei mér þá að flestir þeir bílar sem ég hefi átt um dagana hafi verið með handbremsu og gírstöng. Einhverjir amerískir bílar sem ég átti voru að vísu með fótstigna stöðubremsu í stað handbremsu, en jafngóðir fyrir það.
12. mars 2008 - Mannblót til sjós og lands
Í bók sem ég las á dögunum var lýsing á skipstjóra einum sem var enginn veifiskati, lét hásetana mála síður skipsins úti á stillans á meðan skipið var á siglingu. Ég sá engan góðan skipstjóra í þessum orðum eins og skilja mátti af setningunni, einungis virðingarleysi skipstjórans fyrir mannslífum.
Rétt áður ellefu; í þetta sinn tuttuguogníu – við sjáum myndir þeirra í blöðunum; úngir glaðir hraustir menn, kjarni þjóðarinnar. Ef við lítum á skýrslur um skipatjón síðustu ára kemur í ljós hvernig mannfólkinu er kastað í sjóinn gegndarlaust einsog ónýtu rusli. Þessi sóun mannslífa er talin nokkurskonar sjálfsagður skattur sem þjóðin greiðir útgerðinni, í hæsta lagi að einhverjar viðkvæmar landkindur tala um “fórnir” eins og það væri einhver háheilög mannblót að drepa þannig fólkið, og guðfræðingar fara á stúfana í blöðum og kirkjum og segja “þeir hafa hreinan skjöld”, rétt eins og einhversstaðar væru einhverjir sem álitu þetta glæpamenn. Síðan þegja allir þángað til næstu handfylli af úngum glöðum hraustum mönnum er kastað niður til fiskanna. Hvenær lýkur þessari morðöld?
Þessi orð að ofan voru upphaf greinar sem Halldór Laxness skrifaði árið 1944 um slysfarir meðal sjómanna. Það var ástæða til. Á hverju ári fórust nokkrir tugir íslenskra sjómanna, stundum yfir fimmtíu á ári. Rúmum fjörtíu árum síðar var greinin endurprentuð í sjómannablaðinu Víkingi og þá þurftu lesendur að horfast í augu við þá staðreynd að sáralítið hafði breyst, fleiri hundruð Íslendingar höfðu farist á sjó frá því greinin var fyrst birt og það var enn verið að drekkja sonum þjóðarinnar í þágu útgerðargróðans.
Það voru vissulega komnir Olsens- og Sigmundargálgar og öryggislokar á netaspilin og skipin orðin stærri og öflugri, en það voru enn að farast margir sjómenn á hverju ári. Eftir þetta var eins og þjóðin tæki við sér. Hinn nýstofnaði Slysavarnarskóli sjómanna varð að veruleika og brátt komu flotbúningar í öll skip auk þess sem annar öryggisbúnaður og slysavarnir urðu að raunhæfu markmiði og skyldu um borð í hverju skipi. Reynslan hefur líka kennt okkur að með samhentu átaki hafa mörg mannslíf sparast þótt enn hafi ekki tekist að fá tölu fallinna sjómanna niður í hið eina ásættanlega sem er núll. Engu að síður er það hið eina raunhæfa markmið sem ber að stefna að.
Orð Halldórs Laxness fóru í gegnum huga minn er ég las viðtal við ónefndan byggingarstjóra í 24 stundum á þriðjudag og með mynd af kappanum voru orð höfð eftir manninum sem hann hefði betur aldrei sagt: Það verða alltaf slys .
Ég þekki ekki aðstæður við slys það sem var umtalsefni greinar 24 stunda, en ég fullyrði að ekki hefði þurft að verða slys þarna. Með orðum byggingarstjórans er hinni gömlu hugsun þjóðarsálarinnar rétt lýst samanber hina gömlu lýsingu þar sem sonum þjóðarinnar var fórnað í kippum, stundum mörgum kippum á ári. Því verður að mótmæla orðum byggingastjórans sem ósönnum og þvættingi. Orð hans sýna áhugaleysi fyrir öryggi starfsfólks í byggingariðnaði. Öryggið kostar peninga en þeim peningum er vel varið ef ekkert verður slysið
Við byggingu álvers Alcoa á Reyðarfirði voru gerðar miklar kröfur um öryggi starfsmanna sem unnu við byggingu álversins. Árangurinn var líka sá að það tókst að reisa heilt álver án alvarlegra slysa á fólki. Sömu sögu var ekki að segja um Kárahnjúkastíflu þar sem banaslysin urðu nokkur, allt slys sem hefði auðveldlega mátt koma í veg fyrir með ítrustu öryggiskröfum.
Um leið og ég vil flytja hinum slasaða í vinnuslysinu í Kópavogi, óskir mínar um góðan bata, mælist ég til að allir byggingarstjórar sem ímynda sér að það verði alltaf slys, verði tafarlaust sendir á sérstakt námskeið hjá Bechtel eða öðrum þeim sem gera ítrustu kröfur um öryggi við byggingu mannvirkja.
þriðjudagur, mars 11, 2008
11. mars 2008 - Kraftaverk?
"Kraftaverk í Krossinum í kvöld klukkan tuttugu.
Krossinn."
Þessa auglýsingu mátti heyra í útvarpinu fyrir fréttir klukkan 16.00 og 17.00.
Nú er bara að drífa sig og sjá Gunnar ganga á vatni.
mánudagur, mars 10, 2008
11. mars 2008 - Stefnuljósanotkun
Ég held að ég verði seint talin aðdáandi harðra refsinga, tel reyndar að beita eigi mjúkum aðferðum við að fá fólk til að snúa af villu síns vegar. Fyrir bragðið tel ég að gott tiltal geti oft verið miklu árangursríkara en fésekt þótt vissulega hugsi fólk sig tvisvar um eftir að hafa þurft að punga út tugum þúsunda fyrir minniháttar yfirsjónir. Stundum get ég þó ekki annað en verið lögreglunni sammála þegar sektarbókin er tekin upp og notuð.
Ég þekki marga ökumenn sem nota aldrei stefnuljós. ég veit ekki hvort það hafi gleymst að kenna þeim stefnuljósnotkun er þeir lærðu til bílprófs, hvort þeim finnist þeir vera svo ofsalega klárir eða bíllinn er með biluð stefnuljós, en þeir eru orðnir svo margir að það er löngu kominn tími til að beita sektarúrræðum eins og lögreglan gerði á mánudag.
Ekki veit ég hversu margir fengu tiltal og sekt, en þeir voru miklu færri en þeir sem hefðu þurft að fá kennslu í notkun stefnuljósa.
Eftir góða stefnuljósarassíu lögreglunnar verður væntanlega nóg að hafa afskipti af Bensum og Bimmum í framtíðinni, en þeir virðast margir vera með biluð stefnuljós.
http://dagskra.ruv.is/streaming/sjonvarpid/?file=4397861/14
sunnudagur, mars 09, 2008
10. mars 2008 - Enn fjölgar ættingjunum, lífs sem liðnum
Þar sem ég álpaðist á Bókamarkaðinn á dögunum, greip ég með mér ævisögu Péturs sjómanns Sigurðssonar þótt ekki hefði ég ætlað að kaupa hana, enda hafði ég takmarkað álit á ritstíl höfundarins. Á móti kom að bókin var ódýr og ég hafði kynnst Pétri lítillega á skólaárum mínum þar sem við þáverandi nemendur sjómannaskólanna nýttum okkur Pétur til sóknar innan kerfisins til hagsbóta fyrir nemendur skólanna.
Innihald bókarinnar olli mér vissum vonbrigðum þar sem hún bar þess merki að bæði höfundur og viðfangsefni voru komin að fótum fram og létust báðir skömmu eftir að bókin var rituð um miðjan tíunda áratug síðustu aldar. Þá fékk ég á tilfinninguna að bókin væri fremur rituð sem lofgjörð um Sjálfstæðisflokkinn en ævisaga stórbrotins persónuleika til sjós og lands.
Er ég hóf að lesa kaflann um ættir Péturs fannst mér ég þekkja lýsinguna og gat auðveldlega leiðrétt rangfærslur sem þar komu fram. Það var einfaldlega verið að lýsa bróður langömmu minnar og föður þeirra.
Jón Jónsson hét langafi Péturs fæddur 1842 í Dældarkoti (nú Borgarlandi) í Helgafellssveit og náði hann 102 ára aldri, lést 1944. Faðir hans var Jón Jónsson fæddur 4. mars 1800 á Skipalóni í Eyjafirði, en í bókinni er hann sagður vera Björnsson auk þess sem rangfærslur eru um móðerni Jóns yngri í bókinni. Það ber þó að ítreka veikindi höfundar og Péturs er bókin var rituð.
Sjálf var ég lengi í miklum vandræðum að finna deili á Jóni frá Skipalóni, enda sagður fæddur í rangri sókn í manntali 1845, en tókst það að lokum með góðri hjálp Sigurðar Kristjánssonar starfsmanns Íslendingabókar. Þá hefi ég ekki hirt um að rekja niðja Jóns og hefi látið aðra ættingja ganga fyrir. Það er þó af nógu að taka, en Jón átti átta börn með fyrri eiginkonunni, þá langömmu mína með vinnukonu sinni og loks þrettán börn í síðara hjónabandi. Einnig átti tvíburabróðir hans, Dagur Jónsson fjölda niðja þar sem hann bjó norður í Fljótum í Skagafirði. Þá ólust systkinin, Jón yngri og Sesselja, upp í sitthvoru lagi og því var aldrei nokkur samgangur á milli langömmu minnar annarra systkina hennar, né niðja þeirra.
Þetta breytir engu um að eftir lestur bókarinnar um Pétur sjómann, erum við fjórmenningar, en hann og Hörður frændi Torfason þá þremenningar.
9. mars 2008 - Hvað ef keðjan gefur sig?
Ég hefi gaman af fjallgöngum og þótt slíkt sé meira af vilja en mætti vegna blóðþrýstingsvandamála, hefi ég ávallt haft öryggið í fyrirrúmi og ekki tekið mikla áhættu á ferðum mínum. Sem betur fer hefur öryggið batnað verulega á fjölmennari stöðum eins og í Laufskörðum og á Þverfellshorni Esjunnar og víðar með keðjum og rammgerðum festingum og er það vel.
Ég viðurkenni að stundum treysti ég fullmikið á keðjuna þegar ég er að fikra mig eftir einstigum, en af nýjustu fréttum að dæma, er slíkt varasamt og best að treysta á eigið hyggjuvit.
Ég þekki ekki aðstæður í Stóragili við Laugavatn, en velti því fyrir mér hvað hefði skeð ef sá sem varð fyrir þessu ónotalega atviki á laugardaginn hefði verið óvanur fjallaklifri. Um leið vona ég að haldið verði áfram að setja upp keðjufestingar á sem flestum erfiðum göngustígum á fjöllum.
Myndina sem fylgir tók Hrafnhildur Guðrún Sigurðardóttir bloggvinkona mín og lífeindafræðingur með meiru í Laufskörðum í Esjunni og sýnir hún ágætlega hve góð og velfest keðja veitir mikið öryggi.
http://www.mbl.is/mm/frettir/innlent/2008/03/08/bjargad_ur_sjalfheldu_a_klettasyllu_2/
laugardagur, mars 08, 2008
8. mars 2008 - Afstaða mín til olíuhreinsistöðvar
Þegar ég var ung sigldi ég um tíma á milli bekkja í Vélskólanum á tankskipi sem lestaði olíu við endastöðvar olíuleiðsla frá olíulindunum í miðausturlöndum og sigldi með olíuna að þeirri olíuhreinsistöð sem bauð hæsta verðið hverju sinni, oftast stöðva sem lágu í Suður-Evrópu, Ítalíu, Frakklandi, Spáni.
Síðustu dagana hefi ég ítrekað fengið spurninguna hvað mér finnist um olíuhreinsunarstöð á Vestfjörðum, þá væntanlega í ljósi afstöðu minnar til álvera sem ég tel vera jákvæð, enda þörf fyrir aukna áherslu á léttmálma í heiminum, umhverfisins vegna.
Svar mitt við olíuhreinsistöðvum er einfalt. Ég er alfarið á móti slíkri starfsemi hér á landi. Til að geta unnið olíu úr jarðolíu þarf hráefni, þ.e. jarðolíu. Hún fæst með því að kaupa hana á heimsmarkaðsverði. Olíuhreinsunarstöðin þarf því að kaupa jarðolíuna á verði sem er mjög hátt og fer hækkandi í heimi þar sem alltof margar olíuhreinsistöðvar eru til nú þegar. Að reisa nýja slíka stöð fjarri markaðnum er því í andstöðu við skoðanir mínar.
Að fórna Arnarfirði fyrir slíka framleiðslu er önnur heimska. Ég gef ekki mikið fyrir olíubryggju utan við Hvestu um hávetur enda væri slík bryggja nánast sem fyrir opnu hafi, galopið til norðvesturs en langt til lands í norðri og norðaustri. Ekki er um að ræða að fá heimamenn til að vinna við framleiðsluna því þeir eru löngu farnir í burtu flestir hverjir. Það þarf því að flytja inn vinnukraft.
Það eru mörg önnur rök gegn olíuhreinsistöð aðallega umhverfisrök, en sem ég nenni ekki að þylja upp hér. Um leið vil ég benda á stórkostlegasta fuglabjarg Evrópu sem um leið er vestasti oddi Evrópu. Af hverju er Látrabjargið sem utangátta í umræðunni um atvinnutækifæri í Barðastrandarsýslu? Það er eitthvert stórkostlegasta vannýtta ferðamannatækifæri á Íslandi þótt miðað sé við að ekki verði traðkað um of á náttúrunni þar.
-----oOo-----
Ég óska öllum konum til hamingju með daginn
föstudagur, mars 07, 2008
7. mars 2008 - Það vantar hliðarskrúfur...
Ég og vinnufélagi minn vorum í eftirlitsferð úti í bæ á fimmtudagsmorguninn sem við gerum stundum á dagvinnudögum. Er erindinu var lokið og við nálguðumst höfuðstöðvarnar ók skyndilega amerískur glæsijeppi af stærstu gerð í veg fyrir okkur og stefndi í sömu átt og við. Það var ljóst að hann yrði á undan að ná bílastæðinu sem ég stefndi á svo ég fann mér annað stæði rétt hjá og lagði þar.
Eigandi glæsijeppans eyddi dágóðri stund við að reyna að komast í stæðið sem við höfðum haft augastað á og höfðum reyndar verið í fyrr um morguninn. Eftir nokkrar tilraunir gafst maðurinn upp og fann annað stæði öllu fjær.
Rumdi þá í vinnufélaga mínum sem hafði fylgst með aðförunum:
“Það vantar hliðarskrúfur á hann þennan.”
miðvikudagur, mars 05, 2008
6. mars 2008 - Skattframtalið
Eins og allir vita sem þekkja mig er ég óþolandi smámunasöm og sífellt með klukkuna á lofti. Þetta gildir ekki aðeins með flug eins og ég hefi bent á áður, heldur einnig margt annað eins og skattframtalið.
Á miðvikudag birtust bankaupplýsingarnar í heimabankanum og það reyndist unnt að ganga frá skattframtalinu. Mér fannst óþarfi að geyma það til 26. mars og gekk frá því og var búin að senda það klukkan 17.35. Það var aðeins þægilegra en árið á undan, tölurnar færðust sjálfkrafa af bankayfirlitinu yfir á skattframtalið eftir að ég hafði merkt við á réttan hátt og síðan var ekkert annað að gera en að senda það.
Það var bara eitt sem stóð aðeins í mér. Hlutabréfaeignin mín. Fyrir átta árum síðan keypti ég hlutabréf í ónefndu sprotafyrirtæki sem spáð hafði verið glæstri framtíð og þremur mánuðum síðar seldi ég bréfin aftur óþekktum kaupanda á fjórföldu kaupverði og taldi mig vera lausa allra mála, enda greiddi ég fjármagnstekjuskatt af hagnaðinum. Svo leið og beið og bréfin féllu í verði og urðu brátt lítils virði. Þetta kom mér ekkert við að því frátöldu að á hverju ári fékk ég yfirlit frá Kauphöllinni þar sem umrædd bréf voru enn skráð sem mín þótt þau hefðu verið seld og greidd. Þurfti ég fyrir bragðið að taka fram á skattframtali að ég ætti ekki þessi bréf.
Fyrir tveimur árum myndaðist yfirtökuskylda á bréfunum þegar sprotafyrirtækið var selt stórum keppinaut. Þeir sendu mér tilkynningu þess efnis að mér bæri að selja þeim bréfin og ég tilkynnti þeim sömuleiðis að ég ætti engin bréf. Nokkrum mánuðum seinna var upphæð bréfanna lögð inn á reikning í mínu nafni í bankanum og eru þar enn. Ég gaf upp upphæðina á reikningnum á skattframtali síðasta árs.
Í ár er búið að skrá bréfin á mitt nafn enn og aftur auk þess sem peningarnir liggja enn á áður nefndum bankareikning og vaxa þar og dafna og bíða síns rétta eiganda.
Þótt ekki sé um háa upphæð að ræða, væri fróðlegt að vita hvað það þurfi að líða langur tími uns aurarnir verða mínir!
5. mars 2008 - Enn af umferðinni
Ég var á ferð upp Ártúnsbrekkuna í morgun og fór þá vinstra megin framúr nýleguim smábíl sem fór löturhægt til austurs. Þegar ég var komin framúr smábílnum, færði ég mig aftur yfir á miðakreinina og svo á hægri akrein þegar umferðin sem ætlaði í Grafarvoginn var komin yfir á hliðarakreinina. Allt gott með það, en í baksýnisspeglinum sá ég að ökumaður bílsins sem hafði ekið svo hægt upp brekkuna ákvað skyndilega að færa sig yfir á akreinina lengst til vinstri sem var auð og yfirgefin, reyndar eins og miðakreinin, hélt sig á vinstri akreininni eftir það á meðan umferðin geystist framúr hægra megin við smábílinn.
Ekki ætlaði ökumaður smábílsins að beygja til vinstri því þar var engin afrein næstu kílómetrana fyrr en kemur að hringtorginu austan Grafarholtsins.
Er ekki kominn tími til að kenna ökumönnum muninn á hægri umferð og vinstri umferð?
þriðjudagur, mars 04, 2008
4. mars 2008 - Ekki miða fyrir mig takk!
Þegar byrjað var að selja miða á tónleika Roger Waters sumarið 2006 keypti ég miða á netinu einungis átta mínútum eftir að byrjað var að selja miðana. Að sjálfsögðu keypti ég á fremra svæðinu og mætti tímanlega í Egilshöll, gekk meira að segja frá Grafarholti til að þurfa ekki að lenda í umferðaröngþveiti á leiðinni til baka.
Þegar inn var komið, minnti mannhafið mig mest á fjárrétt. Sumar kindurnar voru í fremri réttinni, aðrar í almenningnum fyrir aftan. Til hliðar við mannþvöguna og á upphækkuðum palli, afgirtum frá skrílnum í réttinni, voru nokkrir boðsgestir sem sátu við borð og fengu sérstaka afgreiðslu. Vafalaust hafa þeir notið tónleikanna til hins ítrasta.
Þar sem ég stóð í þvögunni var mér farið að líða svo illa í restina af tónleikunum að ég var farin að telja niður lögin uns tónleikunum lauk og gekk svo til baka í Grafarholtið þar sem ég geymdi bílinn. Ég ákvað að láta ekki bjóða mér upp á slíkan viðurgjörning aftur.
Nokkru síðar voru auglýstir tónleikar með Roger Waters með sama innihaldi í tveimur borgum Englands. Þar kostuðu miðarnir í betri sæti einungis 6500 krónur. Því miður fór ég ekki á þá tónleika til að fá að njóta þeirra á sama hátt og boðsgestirnir í Egilshöll.
Þrátt fyrir aðdáun mína á Eric Clapton fer ég heldur á tónleika með honum í alvöru tónleikahöll en að standa eins og rolla í rétt í Egilshöll.
http://www.mbl.is/mm/folk/frettir/2008/03/04/midar_a_clapton_ad_klarast/
4. mars 2008 - Hvaða rugl er þetta?
Í frétt Morgunblaðsins stendur skrifað:
Næsta víst þykir að þessir skjálftar stafi af kvikuhreyfingum í neðri hluta jarðskorpunnar. Leiti hún upp á yfirborðið verður eldgos, en hins vegar er vitað að mikill hluti af jarðskorpunni verður til úr kviku sem ekki nær til yfirborðs.
Eru þetta einhver ný vísindi? Ég stóð í þeirri trú að jarðskorpan væri einmitt kvika sem hefði náð til yfirborðsins, kólnað þar og storknað.
Vantar ekki prófarkalesara á Moggavefinn?
http://www.mbl.is/mm/frettir/innlent/2008/03/04/helmingslikur_a_eldgosi/
mánudagur, mars 03, 2008
4. mars 2008 - Af tryggingasvikum
Mitt grjótharða nirfilshjarta gladdist mjög er ég las fréttina á Moggavefnum á mánudag að ákæra ætti eina tuttugu svindlandi styrkþega Tryggingastofnunar ríkisins og ég sá fyrir mér moldríka forstjóra og verktaka sem væru búnir að skilja við konur sínar og fluttir að heiman að nafninu til í þeim tilgangi að græða nokkrar krónur aukalega í fjölskyldubætur, þótt enn svæfu þeir í sama rúmi og fyrrum.
Ég var fljót að skipta um skoðun þegar í ljós kom að þetta var eldgamalt mál sem nú var til lykta leitt og hefði loksins verið sent frá ákæruvaldi til dómara. Um leið fór ég að velta fyrir mér hve mikið væri um svindl af því tagi sem ég nefndi í upphafi. Ég hugsa að flestir þekki einhvern sem hefur stundað smásvindl af því tagi, en um leið er yfirleitt ekki um stórsvindl að ræða heldur oftast mál þar sem fólk er að drýgja tekjurnar umfram ýtrustu nauðþurftir.
Ég veit því ekki hversu nauðsynlegt það er að ganga milli bols og höfuðs á þessum smásvindlurum, enda á ég ekki von á að með upprætingu svindlsins verði kjör þeirra sem hafa það virkilega erfitt í samfélaginu leiðrétt svo neinu nemi. Af sömu ástæðu er lítið um að almenningur á Íslandi ástundi persónunjósnir að hætti Stasi og tilkynni “glæpinn” til réttra yfirvalda.
Það væri fróðlegt að vita hversu mikið er um svindl á virðisaukaskatti á Íslandi?
3. mars 2008 - Svört glæsikerra
Ég ók á eftir svartri glæsikerru í dag, svo glæsilegri að fátæklingarnir á LandCruiser dauðskammast sín fyrir druslurnar sínar í samanburði. Þetta var Mercedes Benz 500 ML og svo nýr að hann var með númer af nýju gerðinni, þ.e. þrír bókstafir og tveir tölustafir.
Svona bíll er algjört tryllitæki af jeppa að vera og svo öflugur að það verður að anda mjög varlega á bensíngjöfina til að vagninn þeysist af stað frá núll í hundrað á örfáum sekúndum. Í svona vagni eru auðvitað allar fullkomnustu græjur, aksturtölva af fullkomnustu gerð, stereógræjur á við upptökustúdíó og leður af fíl.
Þar sem ég ók á eftir vagninum, dáðist að honum og dreymdi dagdrauma um að vinna stóra vinninginn í happdrætti svo ég gæti eignast svona bíl, veitti ég einu athygli. Stefnuljósin voru biluð. Á meðan ég ók á eftir honum ók hann þrisvar þannig að gefa átti stefnuljós og aldrei sáust nein.
Ég held að ég haldi mig frekar við vinstrigrænan Subaru í framtíðinni. Þar eru þó stefnuljósin í lagi.
sunnudagur, mars 02, 2008
2. mars 2008 - Nei, ég var aldrei hippi!
Í sunnudagsmogganum eru birtar myndir af sextán gamlingjum, hrukkóttum, sköllóttum, gráhærðum og glæsilegum. Að sjálfsögðu er ekki mikið um þessar myndir eða viðtöl að segja, en þetta ágæta fólk átti sínar bestu stundir fyrir 40 árum er það tók þátt í byltingunni.
Þetta er að sjálfsögðu allt mjög áhugavert að lesa, ekki síst viðtölin við Birnu Þórðardóttur og Kristján Guðlaugsson. Hinsvegar er erfitt fyrir mig að samsama mig með þessu ágæta fólki ef frá er talin pólitíkin því aldrei var ég hippi eins og grein Moggans reynir að heimfæra upp á viðmælendur sína. Ég var ekki með neitt rosalega sítt hár, reykti aldrei hass eða hamp né neitt annað, byrjaði ekki að reykja fyrr en 1970 og þá eingöngu sígarettur. Vissulega smíðaði ég mér eigið friðarmerki úr blikkplötu en það týndist fljótlega í einhverju samkvæmi. Ég tók ekki þátt í mótmælum við sovéska sendiráðið eftir innrásina í Tékkóslóvakíu og þegar frægur Þorláksmessuslagur átti sér stað í Reykjavík var ég í miðjum ökutíma fyrir bílprófið mitt nokkrum dögum síðar
Eins og allir vita er ég einfaldlega of ung til að teljast til 68-kynslóðarinnar. Þetta fólk átti sínar bestu stundir 1968 eins og ég benti á, en ég átti mínar bestu stundir aldarfjórðungi síðar. Vissulega tók ég þátt í Keflavíkurgöngum og öðrum skemmtilegum uppátækjum í þágu byltingar öreiganna, en það var bara undirbúningur undir erfiðleika lífsins sem ég gekk í gegnum löngu síðar. En ég viðurkenni alveg að það er alltaf jafngaman að hitta gömlu baráttufélagana sem nú eru með hrukkur, sum grá en önnur sköllótt.
Meðfylgjandi mynd hefur vissulega birst áður á blogginu mínu, en ég bið þá sem þekkja steinaldartáninginn á myndinni að vera ekki að blaðra um þennan unga pilt sem er þarna í göngu á leið til Reykjavíkur. Til að styðja enn frekar að ég tilheyri ekki þessari gömlu kynslóð, þá kenndi hann mér í skóla.
Og ég er ennþá mjög ung eins og þjóðin veit.
-----oOo-----
Í tilefni dagsins hugsa ég hlýlega til hennar föðurömmu minnar sem fæddist á þessum degi fyrir 120 árum síðan á Hallbjarnareyri í Eyrarsveit.