föstudagur, mars 14, 2008

14. mars 2008 - Var ég svona saklaus (vitlaus) í gamla daga?

Manstu kvöldin okkar útí Hamborg sungu Raggi Bjarna og félagar á sjöunda áratugnum og ég fell óðara í trans og minningarnar riðlast upp á yfirborðið í hvert sinn er ég heyri þetta ágæta lag sem þó er með ótrúlega kjánalegum texta. Ekki ætla ég samt að rifja upp lagið í smáatriðum, heldur fjalla um lokun á frægasta hóruhúsi í Hamborg sem sagt var frá í Morgunblaðinu.

Ekki man ég hversu oft ég kom til Hamborgar á árunum frá 1971 til 1987, en það gæti verið á annað hundrað skipti. Um fimm ára skeið á þessu tímabili kom ég að jafnaði til Hamborgar um 15 til 20 sinnum á ári, þ.e. frá vori 1982 þar til í ágúst 1987 er ég kom þangað í síðasta sinn. Þótt stoppin væru oft stutt, var dvalið lengi í öðrum tilfellum og tvisvar minnist ég þess að hafa verið í Hamborg í dokk í meira en þrjár vikur í hvort sinn. Ég taldi mig því þekkja hverfið umhverfis Reeperbahn allþokkalega, þekkti fjölda hinsegin kráa í hliðargötunum eins og fingurna á mér og var í ágætum kunningsskap við fólk sem rak ýmsa starfsemi í hverfinu þótt ekki væri um neitt kynferðislegt að ræða.

Þegar ég heyrði um lokun á hóruhúsinu Hotel Luxor í Hamborg, var ég þó lengi að klóra mér í höfðinu yfir fréttinni. Var ég virkilega svo saklaus að ég þekkti ekki frægasta hóruhúsið í bænum, ekki einu sinni af afspurn? Það var sama hversu djúpt ég kafaði í ruslatunnur minninganna, hvergi fann ég umrætt hóruhús, en það verður að taka fram að það eru liðin yfir 20 ár síðan ég kom síðast til Hamborgar og margt hefur drifið á daga mína síðan þá.

Loks datt mér í hug að gúggla umrætt hóruhús og viti menn. Ég fann ekki bara greinina sem Mogginn virðist styðjast við, heldur og staðsetninguna á “hótelinu”. Auðvitað hafði ég oft gengið þarna í gegn á leið minni frá Reeperbahn yfir á Grosse Freiheit. Þetta var þá staðurinn sem kallaður var Eros Center í mínu ungdæmi og sagt var að væri með flýtiþjónustu, þ.e. viðskiptavinunum voru skammtaðar visst margar mínútur til að ljúka sér af því það þurfti að afgreiða marga á hverri nóttu.

Þar sem ég hefi aldrei stundað næturlíf af því tagi sem hér er talað um, treysti ég mér ekki til að tjá mig frekar um starfsemina sem þar fór fram

http://www.mbl.is/mm/frettir/erlent/2008/03/14/elsta_vaendishusi_hamborgar_lokad/


0 ummæli:







Skrifa ummæli