miðvikudagur, mars 05, 2008

6. mars 2008 - Skattframtalið

Eins og allir vita sem þekkja mig er ég óþolandi smámunasöm og sífellt með klukkuna á lofti. Þetta gildir ekki aðeins með flug eins og ég hefi bent á áður, heldur einnig margt annað eins og skattframtalið.

Á miðvikudag birtust bankaupplýsingarnar í heimabankanum og það reyndist unnt að ganga frá skattframtalinu. Mér fannst óþarfi að geyma það til 26. mars og gekk frá því og var búin að senda það klukkan 17.35. Það var aðeins þægilegra en árið á undan, tölurnar færðust sjálfkrafa af bankayfirlitinu yfir á skattframtalið eftir að ég hafði merkt við á réttan hátt og síðan var ekkert annað að gera en að senda það.

Það var bara eitt sem stóð aðeins í mér. Hlutabréfaeignin mín. Fyrir átta árum síðan keypti ég hlutabréf í ónefndu sprotafyrirtæki sem spáð hafði verið glæstri framtíð og þremur mánuðum síðar seldi ég bréfin aftur óþekktum kaupanda á fjórföldu kaupverði og taldi mig vera lausa allra mála, enda greiddi ég fjármagnstekjuskatt af hagnaðinum. Svo leið og beið og bréfin féllu í verði og urðu brátt lítils virði. Þetta kom mér ekkert við að því frátöldu að á hverju ári fékk ég yfirlit frá Kauphöllinni þar sem umrædd bréf voru enn skráð sem mín þótt þau hefðu verið seld og greidd. Þurfti ég fyrir bragðið að taka fram á skattframtali að ég ætti ekki þessi bréf.

Fyrir tveimur árum myndaðist yfirtökuskylda á bréfunum þegar sprotafyrirtækið var selt stórum keppinaut. Þeir sendu mér tilkynningu þess efnis að mér bæri að selja þeim bréfin og ég tilkynnti þeim sömuleiðis að ég ætti engin bréf. Nokkrum mánuðum seinna var upphæð bréfanna lögð inn á reikning í mínu nafni í bankanum og eru þar enn. Ég gaf upp upphæðina á reikningnum á skattframtali síðasta árs.

Í ár er búið að skrá bréfin á mitt nafn enn og aftur auk þess sem peningarnir liggja enn á áður nefndum bankareikning og vaxa þar og dafna og bíða síns rétta eiganda.

Þótt ekki sé um háa upphæð að ræða, væri fróðlegt að vita hvað það þurfi að líða langur tími uns aurarnir verða mínir!


0 ummæli:







Skrifa ummæli