Ef minnið svíkur mig ekki, þá var stöðugt hamrað á því við mig meðan ég var barn að ef ég færi ekki með bænirnar mínar og ef ég hegðaði mér ekki skikkanlega færi ég beinustu leið til Helvítis eftir þessa jarðvist. Þessu trúði ég mátulega og hefi ávallt hegðað mér óaðfinnanlega í öllu sem ég tek mér fyrir hendi í von um að lenda ekki í neðra á efsta degi.
Þær slæmu fréttir bárust okkur frá Danmörku um páskana að biskupinn þar í landi hefði lagt til að leggja Helvíti niður. Þetta er auðvitað hið versta mál og erfitt að sjá fyrir hvað eigi að gera við allt það fólk sem hefur ekki hegðað sér vel í lífinu.
Ég hugsa með hryllingi til þess hvert á að senda einhvern sem maður vill að fari til Fjandans. Ekki er hægt að senda hann til Bandaríkjanna því það er Guðs eigið ríki og þar finnst bara einn maður sem ekki á heimilisfesti hjá Almættinu. Sá hinn sami verður einnig að fá hæli á vísum stað þegar hann kveður þetta jarðlíf því vart fer hann til himna eftir allt það sem hann hefur á samviskunni.
Því tel ég það mjög varhugavert að leggja niður Helvíti, en þá kemur líka önnur spurning sem vert er að huga að. Hvað á að gera við Fjandann?
Einhversstaðar eiga vondir að vera, líka Djöfsi. Sjálf veit ég ekki um nema einn stað sem kemur til greina sem hæli fyrir þann gamla þar sem hann er á meðal sinna líka því eins og við fengum að vita sem ólumst upp á Íslandi á síðustu öld, þá er djöfullinn danskur sbr blótsyrðið góða.
Það eru kannski afskipti af dönskum innanríkismálum að fetta fingur út í orð danska biskupsins.
þriðjudagur, mars 25, 2008
26. mars 2008 - Djöfullinn danskur!
Birt af Anna Kristjánsdóttir kl. 23:46
Gerast áskrifandi að:
Comment Feed (RSS)
0 ummæli:
Skrifa ummæli