Mitt grjótharða nirfilshjarta gladdist mjög er ég las fréttina á Moggavefnum á mánudag að ákæra ætti eina tuttugu svindlandi styrkþega Tryggingastofnunar ríkisins og ég sá fyrir mér moldríka forstjóra og verktaka sem væru búnir að skilja við konur sínar og fluttir að heiman að nafninu til í þeim tilgangi að græða nokkrar krónur aukalega í fjölskyldubætur, þótt enn svæfu þeir í sama rúmi og fyrrum.
Ég var fljót að skipta um skoðun þegar í ljós kom að þetta var eldgamalt mál sem nú var til lykta leitt og hefði loksins verið sent frá ákæruvaldi til dómara. Um leið fór ég að velta fyrir mér hve mikið væri um svindl af því tagi sem ég nefndi í upphafi. Ég hugsa að flestir þekki einhvern sem hefur stundað smásvindl af því tagi, en um leið er yfirleitt ekki um stórsvindl að ræða heldur oftast mál þar sem fólk er að drýgja tekjurnar umfram ýtrustu nauðþurftir.
Ég veit því ekki hversu nauðsynlegt það er að ganga milli bols og höfuðs á þessum smásvindlurum, enda á ég ekki von á að með upprætingu svindlsins verði kjör þeirra sem hafa það virkilega erfitt í samfélaginu leiðrétt svo neinu nemi. Af sömu ástæðu er lítið um að almenningur á Íslandi ástundi persónunjósnir að hætti Stasi og tilkynni “glæpinn” til réttra yfirvalda.
Það væri fróðlegt að vita hversu mikið er um svindl á virðisaukaskatti á Íslandi?
mánudagur, mars 03, 2008
4. mars 2008 - Af tryggingasvikum
Birt af Anna Kristjánsdóttir kl. 23:41
Gerast áskrifandi að:
Comment Feed (RSS)
0 ummæli:
Skrifa ummæli