Það þykir góður siður að grípa í bók á aðfangadagskvöld jóla þegar ekkert er hægt að gera af sér nema að éta yfir sig. Sama gildir um föstudaginn langa og páskadag þegar ekkert má gera annað en að brjóta á sér lappirnar á tunnustöfum í Bláfjöllum eða í Böggvistaðafjalli.
Ég er svo heppin þessa páskana að ég er að vakt alla hátíðina. Þar sem tunnustafareið er ómöguleg á vaktinni, valdi ég hinn kostinn og greip með mér bók til að lesa á vaktinni. Þegar svanasöngur hins íslenska fjármálakerfis er hafður í huga þótti mér eðlilegast að grípa með mér eina bjartsýnisbók til að lesa eftir hlustun á félaga minn glæpasöguhöfundinn koma með spurningar í útvarpinu. Næst hendinni varð bókin „Þú átt nóg af peningum“ eftir Ingólf H. Ingólfsson sem ég fékk einhverju sinni úr bókaklúbbnum, fann sitthvað athyglisvert þá í henni og lagði síðan til hliðar.
Nú las ég hana alla í gær og í dag. Niðurstaðan er eiginlega hin sama og áður. Ég get alveg sparað. Það vissi ég reyndar áður því ég greiði nú 6% af launum í hina ýmsu séreignarsjóði. Ég finn ekkert fyrir þessum sparnaði, en gleðst á hverju ári þegar ég fæ yfirlitið yfir hinar ýmsu inneignir, þó kannski mest nú rúmu ári eftir að ég breytti opinberu sjóðunum úr hlutabréfasjóðum í verðtryggða sjóði.
Það sem þó skiptir mestu máli í sambandi við sparnað er sálfræðin í tengslum við sparnaðinn. Hvað ætli ég sé til dæmis að greiða mikið í vexti á mánuði af lánum, yfirdrætti og Visa raðgreiðslum?
Fólki kemur það auðvitað ekkert við, enda á hver að svara fyrir sig. En ég fullyrði að mánaðarvextirnir mínir myndu duga fyrir afborgunum af nýjum smábíl þótt ég þurfi ekkert á slíkum að halda á meðan skuldlausi eðalvagninn endist mér.
Höfundur bókarinnar mætti hinsvegar alveg gefa út lítið kver með stuttum og hnitmiðuðum texta til að auðvelda sparnaðinn í stað þess að teygja lopann eins og gert er í þessari annars ágætu bók.
laugardagur, mars 22, 2008
22. mars 2008 - Þú átt nóg af peningum
Birt af Anna Kristjánsdóttir kl. 00:39
Gerast áskrifandi að:
Comment Feed (RSS)
0 ummæli:
Skrifa ummæli