sunnudagur, mars 02, 2008

2. mars 2008 - Nei, ég var aldrei hippi!

Í sunnudagsmogganum eru birtar myndir af sextán gamlingjum, hrukkóttum, sköllóttum, gráhærðum og glæsilegum. Að sjálfsögðu er ekki mikið um þessar myndir eða viðtöl að segja, en þetta ágæta fólk átti sínar bestu stundir fyrir 40 árum er það tók þátt í byltingunni.

Þetta er að sjálfsögðu allt mjög áhugavert að lesa, ekki síst viðtölin við Birnu Þórðardóttur og Kristján Guðlaugsson. Hinsvegar er erfitt fyrir mig að samsama mig með þessu ágæta fólki ef frá er talin pólitíkin því aldrei var ég hippi eins og grein Moggans reynir að heimfæra upp á viðmælendur sína. Ég var ekki með neitt rosalega sítt hár, reykti aldrei hass eða hamp né neitt annað, byrjaði ekki að reykja fyrr en 1970 og þá eingöngu sígarettur. Vissulega smíðaði ég mér eigið friðarmerki úr blikkplötu en það týndist fljótlega í einhverju samkvæmi. Ég tók ekki þátt í mótmælum við sovéska sendiráðið eftir innrásina í Tékkóslóvakíu og þegar frægur Þorláksmessuslagur átti sér stað í Reykjavík var ég í miðjum ökutíma fyrir bílprófið mitt nokkrum dögum síðar

Eins og allir vita er ég einfaldlega of ung til að teljast til 68-kynslóðarinnar. Þetta fólk átti sínar bestu stundir 1968 eins og ég benti á, en ég átti mínar bestu stundir aldarfjórðungi síðar. Vissulega tók ég þátt í Keflavíkurgöngum og öðrum skemmtilegum uppátækjum í þágu byltingar öreiganna, en það var bara undirbúningur undir erfiðleika lífsins sem ég gekk í gegnum löngu síðar. En ég viðurkenni alveg að það er alltaf jafngaman að hitta gömlu baráttufélagana sem nú eru með hrukkur, sum grá en önnur sköllótt.

Meðfylgjandi mynd hefur vissulega birst áður á blogginu mínu, en ég bið þá sem þekkja steinaldartáninginn á myndinni að vera ekki að blaðra um þennan unga pilt sem er þarna í göngu á leið til Reykjavíkur. Til að styðja enn frekar að ég tilheyri ekki þessari gömlu kynslóð, þá kenndi hann mér í skóla.

Og ég er ennþá mjög ung eins og þjóðin veit.

-----oOo-----

Í tilefni dagsins hugsa ég hlýlega til hennar föðurömmu minnar sem fæddist á þessum degi fyrir 120 árum síðan á Hallbjarnareyri í Eyrarsveit.


0 ummæli:







Skrifa ummæli