Í bók sem ég las á dögunum var lýsing á skipstjóra einum sem var enginn veifiskati, lét hásetana mála síður skipsins úti á stillans á meðan skipið var á siglingu. Ég sá engan góðan skipstjóra í þessum orðum eins og skilja mátti af setningunni, einungis virðingarleysi skipstjórans fyrir mannslífum.
Rétt áður ellefu; í þetta sinn tuttuguogníu – við sjáum myndir þeirra í blöðunum; úngir glaðir hraustir menn, kjarni þjóðarinnar. Ef við lítum á skýrslur um skipatjón síðustu ára kemur í ljós hvernig mannfólkinu er kastað í sjóinn gegndarlaust einsog ónýtu rusli. Þessi sóun mannslífa er talin nokkurskonar sjálfsagður skattur sem þjóðin greiðir útgerðinni, í hæsta lagi að einhverjar viðkvæmar landkindur tala um “fórnir” eins og það væri einhver háheilög mannblót að drepa þannig fólkið, og guðfræðingar fara á stúfana í blöðum og kirkjum og segja “þeir hafa hreinan skjöld”, rétt eins og einhversstaðar væru einhverjir sem álitu þetta glæpamenn. Síðan þegja allir þángað til næstu handfylli af úngum glöðum hraustum mönnum er kastað niður til fiskanna. Hvenær lýkur þessari morðöld?
Þessi orð að ofan voru upphaf greinar sem Halldór Laxness skrifaði árið 1944 um slysfarir meðal sjómanna. Það var ástæða til. Á hverju ári fórust nokkrir tugir íslenskra sjómanna, stundum yfir fimmtíu á ári. Rúmum fjörtíu árum síðar var greinin endurprentuð í sjómannablaðinu Víkingi og þá þurftu lesendur að horfast í augu við þá staðreynd að sáralítið hafði breyst, fleiri hundruð Íslendingar höfðu farist á sjó frá því greinin var fyrst birt og það var enn verið að drekkja sonum þjóðarinnar í þágu útgerðargróðans.
Það voru vissulega komnir Olsens- og Sigmundargálgar og öryggislokar á netaspilin og skipin orðin stærri og öflugri, en það voru enn að farast margir sjómenn á hverju ári. Eftir þetta var eins og þjóðin tæki við sér. Hinn nýstofnaði Slysavarnarskóli sjómanna varð að veruleika og brátt komu flotbúningar í öll skip auk þess sem annar öryggisbúnaður og slysavarnir urðu að raunhæfu markmiði og skyldu um borð í hverju skipi. Reynslan hefur líka kennt okkur að með samhentu átaki hafa mörg mannslíf sparast þótt enn hafi ekki tekist að fá tölu fallinna sjómanna niður í hið eina ásættanlega sem er núll. Engu að síður er það hið eina raunhæfa markmið sem ber að stefna að.
Orð Halldórs Laxness fóru í gegnum huga minn er ég las viðtal við ónefndan byggingarstjóra í 24 stundum á þriðjudag og með mynd af kappanum voru orð höfð eftir manninum sem hann hefði betur aldrei sagt: Það verða alltaf slys .
Ég þekki ekki aðstæður við slys það sem var umtalsefni greinar 24 stunda, en ég fullyrði að ekki hefði þurft að verða slys þarna. Með orðum byggingarstjórans er hinni gömlu hugsun þjóðarsálarinnar rétt lýst samanber hina gömlu lýsingu þar sem sonum þjóðarinnar var fórnað í kippum, stundum mörgum kippum á ári. Því verður að mótmæla orðum byggingastjórans sem ósönnum og þvættingi. Orð hans sýna áhugaleysi fyrir öryggi starfsfólks í byggingariðnaði. Öryggið kostar peninga en þeim peningum er vel varið ef ekkert verður slysið
Við byggingu álvers Alcoa á Reyðarfirði voru gerðar miklar kröfur um öryggi starfsmanna sem unnu við byggingu álversins. Árangurinn var líka sá að það tókst að reisa heilt álver án alvarlegra slysa á fólki. Sömu sögu var ekki að segja um Kárahnjúkastíflu þar sem banaslysin urðu nokkur, allt slys sem hefði auðveldlega mátt koma í veg fyrir með ítrustu öryggiskröfum.
Um leið og ég vil flytja hinum slasaða í vinnuslysinu í Kópavogi, óskir mínar um góðan bata, mælist ég til að allir byggingarstjórar sem ímynda sér að það verði alltaf slys, verði tafarlaust sendir á sérstakt námskeið hjá Bechtel eða öðrum þeim sem gera ítrustu kröfur um öryggi við byggingu mannvirkja.
miðvikudagur, mars 12, 2008
12. mars 2008 - Mannblót til sjós og lands
Birt af Anna Kristjánsdóttir kl. 00:20
Gerast áskrifandi að:
Comment Feed (RSS)
0 ummæli:
Skrifa ummæli