Ég hefi gaman af fjallgöngum og þótt slíkt sé meira af vilja en mætti vegna blóðþrýstingsvandamála, hefi ég ávallt haft öryggið í fyrirrúmi og ekki tekið mikla áhættu á ferðum mínum. Sem betur fer hefur öryggið batnað verulega á fjölmennari stöðum eins og í Laufskörðum og á Þverfellshorni Esjunnar og víðar með keðjum og rammgerðum festingum og er það vel.
Ég viðurkenni að stundum treysti ég fullmikið á keðjuna þegar ég er að fikra mig eftir einstigum, en af nýjustu fréttum að dæma, er slíkt varasamt og best að treysta á eigið hyggjuvit.
Ég þekki ekki aðstæður í Stóragili við Laugavatn, en velti því fyrir mér hvað hefði skeð ef sá sem varð fyrir þessu ónotalega atviki á laugardaginn hefði verið óvanur fjallaklifri. Um leið vona ég að haldið verði áfram að setja upp keðjufestingar á sem flestum erfiðum göngustígum á fjöllum.
Myndina sem fylgir tók Hrafnhildur Guðrún Sigurðardóttir bloggvinkona mín og lífeindafræðingur með meiru í Laufskörðum í Esjunni og sýnir hún ágætlega hve góð og velfest keðja veitir mikið öryggi.
http://www.mbl.is/mm/frettir/innlent/2008/03/08/bjargad_ur_sjalfheldu_a_klettasyllu_2/
sunnudagur, mars 09, 2008
9. mars 2008 - Hvað ef keðjan gefur sig?
Birt af Anna Kristjánsdóttir kl. 00:46
Gerast áskrifandi að:
Comment Feed (RSS)
0 ummæli:
Skrifa ummæli