sunnudagur, mars 16, 2008

16. mars 2008 - Finnurðu ekki lyktina maður?


Eftir allt þetta tal mitt um skemmtanalíf í erlendum hafnarborgum er ekki hægt að kveðja umræðuna án einnar sannrar sögu sem ég fann í hugskotum mínum.

Einhverju sinni seinkaði okkur yfir hafið vegna brælu og komum ekki til Rotterdam fyrr en seint að kvöldi í stað þess að koma að morgni og var þegar hafist handa við að losa og lesta skipið. Ungur stýrimaður á skipinu, við skulum kalla hann Þórð þótt hann heiti eitthvað allt annað, var fljótur að notfæra sér hið sjaldgæfa tækifæri sem það þótti að fá nótt í Rotterdam, skellti sér í betri fötin og í land á vit nýrra ævintýra.

Það gekk vel að vinna við skipið um nóttina og þegar Þórður kom um borð um klukkan fimm um morguninn, vel slompaður eftir góða skemmtun, var lestun lokið og einungis pappírsvinnan eftir. Skipið hélt svo úr höfn klukkan sex áleiðis til Hamborgar, en okkar maður fékk að sofa þar til hann var ræstur á vaktina klukkan átta.

Heilsan var skelfileg hjá vesalings Þórði eftir að hafa sofið í einungis þrjá tíma og hann angaði eins og spíratunna eftir ótæpilega næturdrykkju. Hann mátti þó prísa sig sælan að skipið var komið út á rúmsjó og hafnsögumaðurinn löngu farinn. Hann þurfti því ekki að hugsa um annað en að standa sína vakt og gæta þess að ekkert færi úrskeiðis á siglingunni.

Skipstjórinn okkar sem nú er látinn fyrir nokkrum árum, þótti fremur strangur gagnvart áfengi og þegar hann kom upp í brú reyndi Þórður að hressa sig með kaffidrykkju og láta lítið á sér bera. Hann greip svo sjónauka og fór að fylgjast með skipi sem við vorum að mæta:
“Þetta er greinilega bátur frá Jebsen”, sagði Þórður upphátt eins og til að sannfæra Erlend skipstjóra um að allt væri góðu lagi hjá sér.
“Nei, nei, þetta er spírabátur”, svaraði Erlendur.
“Ha, hvernig veistu það?” spyr Þórður hissa á skarpskyggni þess gamla.
“Finnurðu ekki lyktina maður, hana leggur alveg yfir til okkar!”


0 ummæli:







Skrifa ummæli