Stundum þegar ég hefi skrifað einhverja gáfulega færslu á Moggablogginu, ímynda ég mér að nú muni ég uppskera aðdáun þeirra sem hafa gaman af heimspekilegum færslum mínum og að mikill fjöldi fólks muni þyrpast að til að lesa bloggið mitt. Því miður bregðast vonir mínar jafnoft og áhugi fólks fyrir gáfulegum færslum mínum veldur mér vonbrigðum.
Ekki er þetta alltaf svona. Stundum skrifa ég tóma steypu og aðsóknarfjöldinn fer í hæstu hæðir. Gott dæmi var í gær, páskadag. Þá skrifaði ég eitthvað ógáfulegt um litháíska innflytjendur og slíkar urðu aðsóknartölurnar, að fjórum tímum síðar höfðu fjögur hundruð manns lesið bloggið mitt þótt um miðja helga nótt væri og gjörvallt hið kristna mannkyn sat við hellismunna trúar sinnar og beið upprisu frelsarans. Ekki dró úr aðsókninni þegar kom að fótaferðatíma fólks og svo virtist sem að sumir tækju vísdóm minn framyfir páskahugvekju prestsins. Þegar leið svo að kvöldbænum Moggabloggara töldust innlitin á síðuna hjá mér hafa náð 2647 flettingum.
Ekki er ég sannfærð um áhrifamátt orða minna, heldur tel ég líklegra að ritstýrur Moggabloggsins eigi fremur hlut að máli, ekki síst í ljósi þess að engin óeðlileg fjölgun varð á innliti inn á hitt bloggið mitt á blogspot púnktur com, en þar hefi ég haldið úti fátæklegu bloggi árinu lengur en á Moggabloggi.
Ég viðurkenni þó að hinar himinháu aðsóknartölur kitla hégómagirnd mína og athyglissýki.
mánudagur, mars 24, 2008
24. mars 2008 - Leikur að tölum á Moggabloggi
Birt af Anna Kristjánsdóttir kl. 00:19
Gerast áskrifandi að:
Comment Feed (RSS)
0 ummæli:
Skrifa ummæli