Það var einhverntímann um miðjan sjöunda áratuginn að það fréttist af boðuðu verkfalli í mjólkur og brauðbúðum í Reykjavík. Systir mín sendi mig út af örkinni til að ná í mjólk og brauð handa litlu fjölskyldunni sinni, en það var sama hvert komið var. Það var allsstaðar uppselt því fleiri höfðu frétt af væntanlegu verkfalli. Daginn eftir var gert stórfellt grín að kjaftasögunni af ætluðu verkfalli í dagblöðum og blaðamenn veltu því fyrir sér hvort einhver húsmóðir sem hafði verslað mánaðarbirgðir af brauði ætlaði að nota síðustu brauðhleifana til að rota kallinn ef hann kæmi fullur heim.
Rétt eins og fjöldi Íslendinga sem telja sig þurfa að hamstra, ákvað ég að skreppa í Heiðrúnu í gær. Ekki þurfti ég að kaupa miklar birgðir, aðeins öl til nota þessar tvær fríhelgar sem eru framundan, en auk þess örlítið rauðvín til nota á næsta fundi.
Það var troðið í Heiðrúnu er ég var þar skömmu eftir hádegið, en rétt eins og endranær þegar ég kem í Ríkið, rakst ég á gamlan kunningja. Í þetta skipti hitti ég gamlan skólafélaga úr Vélskólanum sem ég hafði ekki hitt í nærri 30 ár. Við þurftum að sjálfsögðu að ræða heilmikið saman eftir að komið var út úr Heiðrúnu, en þar sem við vorum að rifja upp gamlar minningar kom stúlka á sjötugsaldri út úr búðinni með birgðir af áfengi í innkaupakörfu og greinilegt að það verður gaman hjá ónefndum hjónum um helgina.
„Sæl systir, það verður fjör hjá þér um helgina.“
„Það á ekkert að drekka þetta núna, þetta er til jólanna.“
Ég sá fólkið fyrir mér í huganum horfandi á allar þessar dýrindisbirgðir í nærri tvo mánuði og langa til að fá sér einn gráan fyrir svefninn. Þá hefði ég nú heldur sagt að þessar birgðir væru ætlaðar 45 ára brúðkaupsafmæli þeirra hjóna eftir þrjár vikur.
Stundum þarf ekki mikla hækkun eða kjaftasögu til að allt fari úr böndunum.
http://www.mbl.is/mm/frettir/innlent/2008/10/31/ortrod_i_verslunum_atvr/
laugardagur, nóvember 01, 2008
1. nóvember 2008 - Verslunaræði
Birt af Anna Kristjánsdóttir kl. 00:56
Gerast áskrifandi að:
Comment Feed (RSS)
0 ummæli:
Skrifa ummæli