mánudagur, nóvember 10, 2008

10. nóvember 2008 - Bubbi á útlensku?

Íslenskir tónlistarmenn hafa löngum reynt að öðlast heimsfrægð á Íslandi með því að kyrja lög sín á útlensku og þá aðallega á ensku án mikils framdráttar, þó með einni eða tveimur undantekningum. Margir hafa þó farið aðra leið og reynt að halda uppi tónlistarlegum samræðum á okkar ástkæra ylhýra og öðlast frægð fyrir hér á skerinu fjarri heimsmenningunni.

Einn þeirra er Bubbi Mortens. Bubbi hefur rokkað í nærri þrjá áratugi, risið hátt og fallið djúpt, en samt ávallt verið hann sjálfur með öllum þeim kostum og göllum sem sem prýða afburðamann á tónlistarsviðinu. Sjálf hefi ég oft verið í vafa um hrifningu mína á honum, stundum metið hann mikils, stundum lítils. Gott dæmi tvískinnungs míns í hans garð er fyrsta plata Bubba og félaga. Þar kemur fyrir lagið um áhöfnina á Rosanum sem ég hefi aldrei tekið í sátt, en á sömu plötu er sömuleiðis einhver mesta snilld Bubba, lagið um Agnesi og Friðrik.

En hver væri frægð Bubba ef lögin hans væru öll á útlensku? Hann hefði vafalaust náð langt einhversstaðar úti í heimi, en ég er ekki jafnviss um að hann ætti þann stað í þjóðarsálinni og hann á í dag ef svo væri. Í Rokklandi sunnudagsins var spiluð gömul upptaka með Bubba þar sem hann kyrjar lag á útlensku. Áður en laginu lauk var ég farin að gera eitthvað annað en að hlusta.

Ég held að Íslendingar megi þakka Bubba fyrir að hann skuli ávallt reynt að halda íslenskri tónlist í hæstu hæðum með því að flytja næstum allt sitt á tungumáli því sem allt of fáir skilja en hann fer snilldarlega með.

-----oOo-----

Loks ein örlítil gleðifrétt frá kosningum í Bandaríkjunum:
http://abcnews.go.com/video/playerIndex?id=6211987


0 ummæli:







Skrifa ummæli