mánudagur, nóvember 17, 2008

17. nóvember 2008 - Af degi íslenskrar tungu

Trúnaðarmaður stéttarfélagsins okkar þegar ég starfaði í Svíþjóð, átti dálítið erfitt með textaskrif, sennilega verið með einhverja skrifblindu. Ef hann þurfti að senda frá sér einhvern texta til félagsins eða á aðra staði, hafði hann það að sið að kalla á þá manneskju á vaktinni sem hann treysti best í skrifaðri sænsku til að lesa yfir textana sína áður en hann sendi þá. Af einhverjum ástæðum valdi hann ekki einhvern Svíana vaktinni til verksins, heldur mig sem þó var illa talandi á sænsku en kannski aðeins betri að skrifa hana.

Það var sagt frá málræktarþingi í fréttum sjónvarpsins á degi íslenskrar tungu. Þar kom fram að hlutfall íslenskukennslu í skólum hér er einungis 16,1% á sama tíma og það er 23% í Noregi og 28,7% í Danmörku. Þýðir þetta þá að það sé sérstakur skortur á íslenskukennslu á Íslandi? Svarið er einfalt. Nei.

Það er mikil rækt lögð við íslenskukennslu á Íslandi, ekki aðeins í skólum, heldur í öllu samfélaginu. Fólk má ekki mismæla sig í ræðu eða riti án þess að einhver málfarslöggan sér ástæðu til að gera athugasemdir. Það er ekki fyrr en komið er að útrásarvíkingunum og poppurunum sem ástæða verður til að hafa áhyggjur, öllum poppurunum sem ætla að leggja heiminn að fótum sér með því að syngja á útlensku og svo útrásarvíkingunum sem þurftu endilega að sýna mörlandanum hvað þeir væru góðir í útlensku að jafnvel aðalfundaskýrslurnar voru komnar á útlensku.

Margar þjóðir nærri okkur leggja ekki mikla áherslu á málið. Það eru mörg ár síðan ég fór að velta því fyrir mér hvort danskan væri deyjandi tungumál. Þótt ástandið hafi verið betra í Svíþjóð og Noregi, er samt ástæða fyrir þessar þjóðir til að leggja ríka áherslu á þjóðtunguna. Ísland er hinsvegar í góðum málum. Um leið þurfum við að vera vakandi og gæta okkar vel fyrir erlendum áhrifum á tunguna.

Höldum áfram að vera fordómalausar málfarslöggur, en munum að fjöldi fólks þjáist af lesblindu og skrifblindu.


0 ummæli:







Skrifa ummæli