Það eru komnar rúmar átta vikur síðan hrunið átti sér stað. Það tók ríkisstjórn Geirs Hilmars átta vikur að ákveða hvernig rannsóknarnefndin vegna efnahagshrunin ætti að líta út. Eru þetta eðlileg vinnubrögð?
Kíkjum aðeins á nefndina sjálfa. Einn fulltrúa á að skipa af Hæstarétti. Með fullri virðingu fyrir Hæstarétti er erfitt að sjá hvernig Hæstiréttur getur skipað hlutlausan rannsóknarfulltrúa í nefndina þegar haft er í huga að í Hæstirétti er einungis fólk sem hefur verið skipað af ráðherrum Sjálfstæðisflokksins í stjórnartíð Davíðs Oddssonar og eftirmanna hans. Þar má nefna frænda Davíðs, leikfélaga og vafalaust aðra vini hans ef betur er að gáð. Hvernig á slíkur fulltrúi að geta gætt fyllsta hlutleysis?
Umboðsmaður Alþingis á að skipa fulltrúa, sjálfur gamall Sjálfstæðismaður, sat í stjórn Heimdallar og Sambands ungra Sjálfstæðismanna á yngri árum. Hann er þó sá sem helst er hægt að treysta í þessari svokölluðu rannsóknarnefnd. Þá verður að kalla til forsætisnefnd Alþingis. Þar er Sturla Böðvarsson í forsæti og fyrsti flutningsmaður frumvarpsins um rannsóknarnefndina. Hann er vart til stórræðanna í baráttunni gegn spillingu í þjóðfélaginu, sjálfur virðulegur þegn útrásarvíkinganna sbr er hann tók á móti Arnarfellinu fyrir hönd Færeyinga og mannsins sem fékk Elton John til að spila í afmælinu sínu.
Ég held að það sé mjög erfitt að finna algjörlega óvilhalla fulltrúa í þessa rannsóknarnefnd á Íslandi. Nánast öll yfirstétt íslensks þjóðfélags er meira og minna háð þessum útrásarvíkingum að einhverju leyti, fjárhagslegum böndum, fjölskylduböndum, vinaböndum, menningarböndum. Það er því ljóst að ef rannsóknarnefndin á að skila marktækri niðurstöðu, verður að sækja hana til útlanda. Þannig má hugsa sér að Alþingi fari fram á það við norrænar frændþjóðir að þær láti Ríkisendurskoðanir Norðurlandanna eða efnahagsbrotadeildir þeirra um að skipa fólk í rannsóknarnefndina.
Að sjálfsögðu þurfa umræddar rannsóknarnefndir að hafa fullt sjálfstæði til að ganga eins langt í rannsóknarvinnunni og þurfa þykir. Það verður hinsvegar ákaflega erfitt að fá fólk til að treysta þeirri rannsóknarnefnd sem nú á að skipa, að því er virðist, til þess eins að hvítþvo embættismannakerfið sem brást hrapalega í upphafi kreppunnar!
http://www.mbl.is/mm/frettir/innlent/2008/11/26/vidtaekar_rannsoknarheimildir/
miðvikudagur, nóvember 26, 2008
27. nóvember 2008 - Verður rannsóknarnefndin hlutlaus?
Birt af Anna Kristjánsdóttir kl. 23:24
Gerast áskrifandi að:
Comment Feed (RSS)
0 ummæli:
Skrifa ummæli