sunnudagur, nóvember 02, 2008

2. nóvember 2008 - Minnkað vinnuframlag?

Í gær bárust fréttir af því að ferðaskrifstofan Úrval-Útsýn ætlaði að skera niður vinnutímann hjá starfsfólkinu niður í 50% af áður unninni vinnu og lækka launin sem því nemur. Áður höfðu borist fregnir af því að einhver fyrirtæki ætluðu starfsfólki sínu að lækka laun sín og vinnuframlag um fimm og tíu prósent eða kannski enn meira.

Ég fór að velta þessu fyrir mér. Er virkilega til svo mikið af almennu starfsfólki hjá íslenskum fyrirtækjum að hægt sé að skera niður vinnuna með einu pennastriki og deila starfinu með öðrum? Er vinnusukk í gangi á Íslandi?

Rétt eins og starfsfólkið sem vinnur í kringum mig, erum við sérhæfður starfshópur. Það hleypur enginn í störfin okkar fyrirvaralaust. Við getum ekki verið neitt færri en við erum og gætum þegið viðbótarvinnuframlag án launalækkunar, en ef við eigum að taka við fólki frá öðrum deildum til að draga niður í okkar vinnuframlagi og lækkunar launa, þurfum við að byrja á að senda fólkið í skóla í nokkur ár. Það er auðvitað möguleiki á að taka inn fólk frá skyldum deildum innan sama fyrirtækis og spara þannig fleiri ára skólagöngu, en þá þarf að senda nýtt fólk í þær deildir í skóla. Við getum auðvitað kallað inn fólk utan af sjó til starfa með okkur, en þá lendir sjávarútvegurinn í kreppu vegna skorts á vélfræðingum með réttindi.

Þetta sama gildir um margar aðrar starfsstéttir og starfshópa. Það er ekkert hægt að skera niður með því að deila starfinu með nýju fólki sérstaklega ekki ef um sérhæfð störf er að ræða. Launin eru heldur ekki svo há að þau nægi fleiri manneskjum.


0 ummæli:







Skrifa ummæli