mánudagur, nóvember 24, 2008

24. nóvember 2008 - Er Tryggingamiðstöðin 42 milljarða virði?

Fyrir fáeinum árum keyptu íslenskir fjárglæframenn flugfélagið Sterling á fjóra milljarða króna, fengu síðan leifarnar af flugrekstri Mærsk gefins samkvæmt óáreiðanlegum heimildum. Síðan gekk það kaupum og sölum milli náskyldra aðila og loks var það keypt á 20 milljarða af sömu aðilum og höfðu keypt það eigi löngu áður á fjóra milljarða. Þegar búið var að draga nógu mikið lánsfé út úr félaginu var það látið fara á hausinn, íslenskir skattgreiðendur sátu uppi með sárt ennið, en vesalings séra Eilif Krogager stofnandi Sterling, sneri sér við í gröfinni.

Nú virðast sumir sömu aðilar ætla að leika sama leikinn með Tryggingamiðstöðina. Allt í einu hefur hún aukist geysilega í verðmætum sem virðist vera sama bólan eins og með Sterling. Helstu eigendur Tryggingamiðstöðvarinnar ætla að kaupa félagið af sjálfum sér á uppsprengdu verði til að bjarga Stoðum hf (FL-grúpp, skrifað FJ-group). Að sjálfsögðu eru kaupin gerð með lánsfé frá bönkunum sem eru nú í eigu íslensku þjóðarinnar eftir að þeir hrundu eins og spilaborg. Semsagt, útrásarvíkingarnir sem komu íslensku þjóðinni á hausinn eru ekki hættir að hafa íslensku þjóðina að fíflum og fjárhagslegum féþúfum.

Ég ætla ekki að fjalla hér mikið um Stím og FS-37. Greinin sem birtist í Morgunblaðinu á sunnudag er því miður pólitískt lituð, en bæði Agnes Bragadóttir og Óli Björn Kárason eru svo rækilega trúlofuð bláu höndinni að erfitt er að taka fullt mark á skrifum þeirra, ekki frekar en varnarræðum Jóns Ásgeirs Jóhannessonar og Hannesar Smárasonar. Það er samt full ástæða til að vara við slíkum leynifélögum sem hér um ræðir og sem virðast sett á fót til að ræna restinni af aurum fátæku ekkjunnar eða íslensku þjóðarinnar.

Á sama tíma er fyrrum stjórnarformaður hins gjaldþrota Kaupþings að undirbúa kaup á brunarústum Kaupþings Luxembourg. Hvar fékk gjaldþrota maðurinn peninga til slíkra kaupa? Ætli hann hafi stolið miklu undan þegar Kaupþing fór á hausinn? Hvernig væri þá að hann kæmi heim með aurana og skilaði þeim.

Á meðan hnípin þjóð í vanda horfir á ræningjana halda áfram að ræna restinni af þjóðarauðnum sitja ríkisstjórn, Alþingi, Seðlabanki og Fjármálaeftirlit á hliðarlínunni og aðhafast ekkert. Þeir eru hvort eð er nýbúnir að fá himinhátt lán svo nú er óhætt að endurtaka leikinn og starta einkaþotunum.

Sem eigandi að einum þrjúhundruðþúsundasta hluta í bönkunum greiði ég atkvæði gegn lánveitingu til handa Kaldbak til að kaupa Tryggingamiðstöðina á 42 milljarða. Fyrirtækið er ekki þess virði.


0 ummæli:







Skrifa ummæli