föstudagur, nóvember 14, 2008

14. nóvember 2008 - Glataður er geymdur eyrir

Fólk sem ég þekki ágætlega festi sér litla íbúð fyrir kreppuna 1967 – 1969, meira en áratug áður en íbúðalán urðu verðtryggð. Fólkið sem ég hefi í huga, þurfti að kreista fram hverja þá krónu sem það gat mögulega náð í til að leggja fram í útborgun á íbúðinni og þurfti að velta hverri krónu tvisvar fyrir sér næstu tvö árin á eftir, en þá var ástandið orðið gott. Verðbólgan hækkaði íbúðaverðið á sama tíma og lánið rýrnaði hratt og vel. Fáeinum árum síðar keypti fólkið sér hæð í tvíbýlishúsi, gat lagt fram álitlega upphæð af söluandvirði fyrri íbúðar til að greiða útborgun í hæðinni og allir voru ánægðir, kannski ekki allir, en örugglega þeir sem skulduðu.

Eins og gefur að skilja þurfti einhver að borga brúsann því íbúðir kosta sitt. Þeir sem veittu lánin sátu eftir með sárt ennið, bankar sem höfðu lánað á neikvæðum vöxtum, lífeyrissjóðir og aðrir lánveitendur. Fyrir nokkru fékk ég sundurliðað yfirlit yfir verðmæti þess sem ég hafði greitt í lífeyrissjóði frá því ég byrjaði fyrst að vinna til þessa dags. Það var sem áfall að sjá þetta. Mestöll þau lífeyrissjóðsgjöld sem ég hafði greitt á árunum 1966 til óðaverbólguáranna eftir 1980 voru horfin, brunnin upp, orðin að steinsteypu hjá fólki sem þurfti ekki að borga íbúðirnar sínar sjálft vegna neikvæðra vaxta hjá lífeyrissjóðum.

Á miðvikudagskvöldið var ég stödd á fundi hjá Samfylkingarfélaginu í Reykjavík vegna kröfu ungra jafnaðarmanna um tímabundið afnám verðtryggingar. Á fimmtudagsmorguninn heyrði ég viðtal við Ingólf H. Ingólfsson fjármálaráðgjafa þar sem hann fylkti sér undir þann hóp sem vill afnám verðtryggingar og ég get ekki lengur orða bundist.

Það má segja að ég hafi sjaldan fjárfest á réttan hátt, oftast verið á vitlausum stað á vitlausum tíma, verið óheppin í fjárfestingum. Það eru einungis fjögur ár síðan ég keypti núverandi húsnæði og skulda ég mikið í íbúðinniÉg hefi þó reynt að gæta lífeyrissjóðsins míns og séreignarsparnaðar og farið mjög varlega í vafasömum fjárfestingum á undanförnum árum. Það er ósköp eðlilegt því ég á einungis rúman áratug eftir í eftirlaun ef eitthvað verður eftir af lífeyrissjóðnum mínum.

Nú kemur unga fólkið og heimtar að fá lífeyrissjóðinn minn til að greiða niður íbúðirnar sínar. Ég hefi engin efni á slíku við núverandi aðstæður í samfélaginu.

Allt frá því ég man eftir mér á sjötta áratug síðustu aldar, hefur hagkerfi Íslands verið í molum. Það er allt of lítið og viðkvæmt og illviðráðanlegt. Það má helst líkja því við rússíbana. Til þess að fá stöðugleika á hagkerfið þurfum við að tryggja aðgang að öflugra hagkerfi, t.d. Evrópusambandsins. Því get ég ekki samþykkt afnám verðtryggingar við núverandi aðstæður, en ég skal verða fyrst til að hvetja til afnáms hennar um leið og Ísland gerist aðili að Evrópusambandinu og tengir krónuræfilinn við Evru undir forystu Seðlabanka Evrópu.


0 ummæli:







Skrifa ummæli