sunnudagur, nóvember 30, 2008

30. nóvember 2008 - Fyrirtæki og stofnanir á hausnum!

Þau fyrirtæki voru til sem manni fannst að myndu aldrei hverfa af yfirborði jarðar, fyrirtæki og stofnanir sem virtust vera óendanleg. Allt í einu hurfu þau bara. Eitt þessara fyrirtækja var Ræsir hf. Þótt það hafi ekki verið stofnað fyrr en 1942 var sem það yrði við Skúlagötuna að eilífu. Svo byggði það sér stórhýsi inn við Smálönd og hvarf skömmu síðar. Annað fyrirtæki af líkum toga er Eimskip. Þessar vikurnar er það á barmi gjaldþrots, allt eigið fé búið og gríðarlegar skuldir að sliga félagið.

Nú berast fréttir af því að Morgunblaðið sé á heljarþröminni. Starfsfólkið fái vart útborgað og reynt sé að fá inn nýtt hlutafé til að bjarga félaginu.

Þau eru ófá skiptin sem maður bölvaði Mogganum og skoðunum þess. Sjálf var ég áskrifandi að Þjóðviljanum í gamla daga og sá ýmislegt athugavert við Rússagrýlur og aðra hægri slagsíðu Morgunblaðsins. Um leið var ekki hægt annað en að bera ákveðna virðingu fyrir Mogganum. Mogginn var ekki bara dagblað, miklu fremur sem stofnun sem ekki mátti hreyfa við þótt vissulega mætti létta verulega á skoðunum þess. Þess vegna var Mogginn gjarnan annað blaðið sem gripið var í á eftir málgagninu.

Nú þegar gömlu flokksmálgögnin eru horfin, öll með tölu, og Mogginn orðinn mun umbótasinnaðri og frjálslyndari en áður, er blaðið orðið að fastri tilveru í lífinu. Ég reyndi að segja blaðinu upp fyrir fáeinum árum þegar farið var að gefa út fríblöð, en sú tilraun stóð í einungis þrjá mánuði. Þá gafst ég upp hefi verið áskrifandi síðan.

Ég ætla svo sannarlega að vona að Morgunblaðið haldi áfram að koma út og fari ekki að leggja upp laupanna á þessum erfiðleikatímum.

Ef svo verður, mun óhætt að segja að nýfrjálshyggjubyltingin hafi ekki bara étið börnin sín, heldur og boðbera sinn!


0 ummæli:







Skrifa ummæli