laugardagur, nóvember 22, 2008

22. nóvember 2008 - Gáfnaljósin sigruðu!

Í fyrra lenti ég í spurningakeppni innan fyrirtækisins þar sem ég vinn. Ég var beðin um að taka þátt í keppninni fyrir hönd sviðsins, þ.e. kerfisstjórnar sem er hópur starfsmanna Orkuveitunnar sem sjá um að keyra kerfin, fylgjast með hitastigi og þrýstingi úti í hverfum, fara út í bæ og mæla ástand og þar sem sumir taka á móti kvörtunum og koma þeim áfram, semsagt grunnþjónustu Orkuveitunnar. Við stóðum okkur vel, rétt náðum að komast í úrslitakeppnina þar sem við lentum, ef ég man rétt, í þriðja sæti.

Spurningakeppni sviðanna er erfið keppni. Hún er af sama meiði og Pubqiz keppnin sem haldin er á Grand Rokk á föstudagskvöldum, en kannski erfiðari ef eitthvað er, 25 spurningar af blönduðu tagi og það lið sem fær flest stig vinnur keppnina í hvert sinn.

Í síðustu viku mættum við til keppni og kölluðum okkur „gáfnaljósin“, ég sjálf, Þórarinn verkfræðingur og Þorsteinn vélfræðingur og áttum ekki von á góðu er við sáum snillingana sem við öttum ati við. Hvað höfðum við gefið okkur út í? Vorum við komin á hálan ís? Svo hófst spurningakeppnin og við spýttum í lófana. Þeir skyldu sko ekki vinna okkur „gáfnaljósin“ án fyrirhafnar. Vð unnum keppnina, fengum 17 stig á móti 14 stigum þess liðs sem næst kom á eftir okkur í svínslegri keppni um gáfur. Þar með vorum við komin í úrslitakeppnina að viku liðinni.

Vikan á milli var erfið. Er ég skreið heim af næturvakt morguninn áður en úrslitakeppnin fór fram, dreymdi mig að framkvæmdasviðið myndi vinna keppnina. Þá hafði það þegar fallið út, svo þurfti að finna nýja sigurvegara. Á föstudagskvöldi gekk ég ein stífluhringinn umhverfis Árbæjarlón áður en ég hélt til vinnu og úrslitakeppninnar á föstudagskvöldi.

Svo hófst keppnin. Við gerðum okkar besta. Sumt vissi Þórarinn, annað vissi Þorsteinn, ég vissi ekki neitt. Kannski ekki neitt, en ekki margt. þegar leið á keppnina fór ég að bíða þess að þessu tæki að ljúka, allir virtust vita allt betur en við. Svo lauk keppninni og loks vorum lesin úrslitin. Þegar fimm lið sem við höfðum att kappi við höfðu verið lesin upp án þess að við hefðum verið nefnd, var ástæða að fagna. Við höfðum unnið keppnina, „gáfnaljósin“ í kerfisstjórn.

Úti í salnum klappaði ein manneskja. Sviðið okkar er víst ekki fjölmennara en svo að ein manneskja úti í sal fagnaði með okkur. Það var samt ástæða til fagnaðar. Litla sviðið með rúmlega tuttugu manneskjur hafði sigrað stóru sviðin, en um leið sýnt öllum hinum að við erum mikilvægur hluti af heildinni.

Mér finnst ástæða til að setja mig úr liðinu fyrir keppni næsta árs. Látum unga fólkið taka við.


0 ummæli:







Skrifa ummæli