laugardagur, janúar 31, 2009

31. janúar 2009 – Framsókn söm við sig að venju

Í sakleysi mínu stóð ég í þeirri trú að þegar einhver hópur þingmanna á Alþingi ákveður að verja ríkisstjórn vantrausti, væri það gert án skilyrða um málefni, samanber þessi tvö tilfelli þegar Sjálfstæðisflokkur varði minnihlutastjórn Alþýðuflokksins gegn vantrausti eins og átti sér stað 1959 og 1979. Nú hefi ég komist að öðru.

Framsóknarflokkurinn er reiðubúinn að verja nýja ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri hreyfingarinnar Græns framboðs gegn vantrausti í skamman tíma eða til næstu kosninga sem verða væntanlega haldnar í vor. En öfugt við það sem ég hélt, er settur fjöldi skilyrða gegn vantrausti fyrir kannski þriggja mánaða bráðbirgðastjórn. Þetta er farið að lykta eins og að gamla Framsókn ætli að stjórna í þessa þrjá mánuði, en án ábyrgðar. Því er álitamál hvort ekki sé betra að skila inn stjórnarmyndunarumboðinu vegna krafna þeirra og láta íhaldið mynda meirihluta með Framsókn. Það má svo velta því fyrir sér hvort það sé ekki hin sanna draumsýn Framsóknar að komast aftur upp í rúm hjá íhaldinu eins og á nýfrjálshyggjuárunum frá 1995 til 2007.

Ég held að ég myndi þá hugsa mér til hreyfings úr þessu spillingarbæli sem Ísland varð á þeim árum.

föstudagur, janúar 30, 2009

30. janúar 2009 - Ég skal borga ef.....!

Í hádegisfréttum Ríkisútvarpsins var greint frá því að kostnaður við þrif á Alþingishúsi og stjórnarráði eftir mótmælin að undanförnu skipti mörgum milljónum. Það skil ég mjög vel, en velti því fyrir mér hvort rétt sé að krefja þessa örfáu sem náðust um allann skaðann.

Sjálf mætti ég nokkrum sinnum á Austurvöll og hefi einnig mætt við stjórnarráðið til mótmæla. Því er eðlilegt að deila kostnaðinum á alla sem voru á staðnum, en þó ekki fyrr en sauðirnir sem voru, og eru enn, fyrir innan dyrnar verða búnir að endurgreiða okkur billjónina sem þeir náðu af okkur með sofandahætti sínum, en þó aðallega með auðmýkt sinni og stuðningi við nýfrjálshyggjuna sem olli þessum stærsta þjófnaði Íslandssögunnar.

http://ruv.is/heim/frettir/frett/store64/item248624/

30. janúar 2009 - Um hjartveiki

Heimilislæknirinn minn ákvað að senda mig til hjartalæknis í desember. Ástæðan var einföld. Þolið var ekki nóg fyrir kornunga konu eins og mig og sjálf vissi ég að ég átti að komast upp Esjuna á innan við tveimur tímum, en það hafði mér aldrei tekist. Og ég fékk tíma hjá hjartalækni.

Eftir að heim var komið fletti ég upp á lækninum í Læknatali. Ekki var amalegt að vita að hann var ekki aðeins bróðir annars uppáhaldsprestsins míns, heldur líka dýralæknir svo að lá við að ég gæti tekið hana Hrafnhildi ofurkisu með mér til læknisins.

Eftir nokkrar vikur þar sem ég hafði farið í gegnum hin ýmsu próf, lungnamyndatöku, áreynslupróf, öndunarpróf, blóðprufur, hjartalínurit, hjartaómskoðun með meiru fékk ég loks niðurstöðuna. Það er allt í lagi með þig, þú þarft bara að hreyfa þig meira og fara út að hjóla og í gegnum hugann fór Hjólabragur Ómars Ragnarssonar frá árinu 1964.

Nú sit ég hér heima, búin að lofa upp í ermina á mér hvað snertir hreyfingu, en um leið komin hálfa leiðina í huganum að ná af mér nokkrum kílóum af fitu!

þriðjudagur, janúar 27, 2009

27. janúar 2009 – Jóhönnu Sigurðardóttur sem forsætisráðherra

Á Íslandi hefur kona aldrei gegnt embætti forsætisráðherra, ekki ennþá þegar þessi orð eru rituð. Líklegasti kandídatinn til þeirrar stöðu er þó Jóhanna Sigurðardóttir fráfarandi félagsmálaráðherra.

Verði Jóhanna forsætisráðherra mun hún brjóta ísinn á tvennan hátt. Hún verður fyrst kvenna til að gegna embætti forsætisráðherra á Íslandi, en um leið verður hún ein fyrsta samkynhneigða persónan til að gegna slíku embætti í heiminum svo almennt sé vitað.

mánudagur, janúar 26, 2009

26. janúar 2009 - Af hverju forsætisráðuneytið?

Í bananalýðveldi eins og Íslandi heyrir Seðlabankinn undir forsætisráðuneytið í stað Alþingis. Þess vegna var eðlilegt að Samfylkingin legði höfuðáherslu á að fá það ráðuneyti í sinn hlut við hugsanlega uppstokkun í ríkisstjórn til að hægt væri að hreinsa til í bankanum. Það fékkst ekki og stjórnin féll. Af hverju það var svo mikilvægt fyrir Sjálfstæðisflokkinn að halda í Seðlabankann var eðlilegt. Yfirformaður Sjálfstæðisflokksins er ekki Geir Haarde, heldur Davíð Oddsson formaður stjórnar Seðlabanka Íslands og var ekki reiðubúinn að láta af embætti sínu þrátt fyrir kröfur um slíkt.

Með hörkunni hefur Ingibjörg Sólrún Gísladóttir unnið stuðning minn á ný.

sunnudagur, janúar 25, 2009

25. janúar 2009 - Vilhjálm Bjarnason í Fjármálaeftirlitið

Mig langar til að byrja á því að þakka Björgvin Sigurðssyni fyrir að axla sína ábyrgð á ástandi mála með afsögn sinni. Um leið og hann tók þá ákvörðun að segja af sér leysti hann forstjóra Fjármálaeftirlitsins frá störfum og opnaði þar með á lausn annars vandamáls sem uppstokkun þeirrar mistæku stofnunar.

Ég veit ekkert hvort eða hvar Vilhjálmur Bjarnason stendur í pólitík. Mér er líka alveg sama. Miðað við fjölmörg viðtöl sem birst hafa við hann í vetur, held ég að hann sé rétti maðurinn í embætti forstjóra Fjármálaeftirlitsins á meðan verið er að rétta af bankakerfið og eyða þeirri spillingu sem hefur átt sér stað í íslensku efnahagslífi.

fimmtudagur, janúar 22, 2009

23. janúar 2009 - Vinstrimaðurinn Barack Obama

Þótt vinstrisinnaðir Bandaríkjaforsetar séu taldir að verðleikum á við mjög hægrisinnaða Evrópumenn er samt mikill munur á að fá þá í stað þeirra sem eru sagðir hægrisinnaðir þar vestra. En þó það sé reginmunur á vinstrisinnuðum forsetum og vinstriforsetum finn ég alltaf fyrir léttri samkennd með þeim sem eru vinstrimenn af sál og líkama.

Sá fyrsti sem vitað var um, var James Garfield (ekki þó faðir Grettis skógarkattar) sem ríkti um nokkurra mánaða skeið árið 1881 áður en hann var myrtur, en sá næsti var hinn seinheppni Herbert Hoover sem var við völd er heimskreppan skall á sama ár og hann tók við embætti. Sá þriðji í röð vinstrimannanna var Harry S. Truman, en honum tókst að starta kalda stríðinu og Kóreustríðinu í samráði við aðra stríðsherra.

Eftir veru Trumans var vinstrimönnum vart treystandi um skeið, en árið 1974 varð Gerald Ford óvart forseti eftir að bæði forseti og varaforseti höfðu þurft að segja af sér eftir spillingarmál. Hann var hinn ágætasti piltur sem ekki gat tuggið tyggigúmmí og gengið samtímis og notaði tómatsósu út á kavíarinn sinn þegar hann var boðinn í mat í Kreml sá ég í einhverri skemmtilegri bók (The Jerry Ford Joke Book) sem nú er löngu glötuð. Hann náði ekki kjöri í kosningunum 1976 og tapaði fyrir hnetubóndanum frá Georgíu.

Brátt tóku betri tímar við því á eftir hnetubóndanum kom hinn Chesterfield-reykjandi Ronald Reagan sem taldist einnig til vinstrimanna sem og eftirmaður hans sem gerði sömu mistökin í rúminu og sonurinn í Írak og dró besta vin sinn ekki út nógu snemma. Á eftir Bush gamla kom enn einn vinstrimaðurinn, hinn kynþokkafulli Clinton.

Eins og gefur að skilja, er sá gallharður hægrimaður til orðs og æðis sem tók við af Clinton og hleypti öllu í bál og brand, en er hann hrökklaðist frá völdum, tók enn einn vinstrimaðurinn við, sjálfur Barack Hussein Obama og ritaði eiðstaf sinn á glæsilegan hátt með vinstri hendi er hann tók við embætti.



Megi Obama farnast vel í embætti.

22. janúar 2009 - Ingibjörg Sólrún Gísladóttir ...

... tilkynnti þjóðinni í stuttu sjónvarpsviðtali í dag að hún væri fylgjandi kosningum í vor um leið og hún tilkynnti okkur að það yrði að vera starfhæf ríkisstjórn fram að kosningum. Ég er sammála henni og því vil ég slíta stjórnarsamstarfinu þegar í stað, rjúfa þing og efna til nýrra kosninga eins fljótt og auðið er.

22. janúar 2009 - Ég tók þátt í ákvörðunum fundarins!

Á miðvikudagskvöldið mætti ég í Þjóðleikhúskjallarann á fund Samfylkingarinnar um stjórnarsamstarfið. Þótt ég kæmi um leið og húsið opnaði, þurfti ég að ýta mér leið inn í húsið ásamt fleiri grímuklæddum mótmælendum, en þar sem ég þóttist þekkja innviði Þjóðleikhúskjallarans frá fyrri árum komst ég frá mótmælendum og lengri leiðina inn í salinn þar sem ég fékk sæti hjá góðu fólki, Ágúst Ólafi, Borgþór og Björk V.

Anna Pála stjórnaði fundinum af sinni alkunnu snilld, nákvæmlega ári eftir að hún stjórnaði klappliðinu á áheyrendapöllum Ráðhússins er Ólafur F. tók þar við borgarstjóraembætti í óþökk Reykvíkinga. Aftur var hún í stjórn þar sem fólkið mótmælti valdinu, nú valdi sem var samþykkt á sínum tíma af okkur, en stóðst ekki væntingar okkar.

Þrátt fyrir mikla óánægju með ríkisstjórnina, þurfti ég ekki að óttast að lenda í andstöðu við félaga mína í Samfylkingunni. Við vildum öll ríkisstjórn Sjálfstæðisflokksins burt og greiddum öll atkvæði gegn ríkisstjórninni.

Grímuklæddir mótmælendur sem höfðu upphaflega reynt að hleypa fundinum upp, breyttu skoðunum sínum. Í stað þess að öskra „vanhæf ríkisstjórn“ komu orðin „Áfram Ísland“. Það þurfti ekki að hleypa neinum fundi upp. Við vorum öll sammála.

Á leiðinni frá Þjóðleikhúskjallaranum gekk ég niður Ingólfsstrætið að bílnum sem var lagt fyrir framan hús Hafrannsóknarstofnunnar. Á leiðinni þurfti ég að ganga á götunni því fjölda bíla hafði verið lagt á gangstéttina. Enginn þeirra hafði fengið sektarmiða fyrir að reka gangandi vegfarendur út á götuna. Þó óku þrír lögreglubílar framhjá mér er ég gekk eftir götunni framhjá fjölda bíla á gangstéttunum.

Er ekki kominn tími til að lögreglan hætti að berja mótmælendur og fari að sinna verkefnum sínum?

miðvikudagur, janúar 21, 2009

21. janúar 2009 - Nú fékk ég nóg!

Það hefði mátt ætla, þegar Alþingi kom saman að nýju eftir mánaðar jólafrí og þjóðin var komin enn lengra út á ystu brún glötunar eftir nýfrjálshyggjustefnu Sjálfstæðisflokksins, að þingið myndi byrja á ræða aðgerðir til handa hnípinni þjóð í vanda. Ónei, fyrsta málið sem átti að ræða var frumvarp um að selja áfengi í matvöruverslunum.

Daginn áður boðaði Sjálfstæðismaðurinn og sýslumaðurinn á Selfossi, sá hinn sami sem kenndur var við þvagleggsmálið, hertar aðgerðir gegn fólki sem komið er í vanskil eftir að kreppa af völdum nýfrjálshyggjunnar er farin að hafa áhrif á fólk og ekki eru liðnir margir dagar frá því að kynntur var fyrsti hlutinn í einkavæðingu heilbrigðiskerfisins.

Dómsmálaráðuneytið varð að slá á puttana á sýslumanninum og Sigurður Kári neyddist til að draga áfengisfrumvarpið til baka að sinni á sama tíma og þúsundir stóðu á Austurvelli og mótmæltu aðgerðarleysi Alþingis.

Það breytir ekki því að þessi þrjú dæmi sem ég nefndi lýsa svo mikilli vanvirðingu á íslensku þjóðinni og veruleikafirringu að lengur verður ekki við unað. Það verður að krefjast þess af Samfylkingunni að hún slíti þegar í stað stjórnarsamstarfi við Sjálfstæðisflokkinn og að efnt verði til nýrra kosninga sem fyrst þar sem þjóðin fær að segja álit sitt á verkum þessara manna sem og annarra þeirra alþingsimanna og ráðherra sem eiga sök á nýfrjálshyggjunni og þjóðargjaldþrotinu.

Ef hún gerir það ekki þegar í stað, mun fylgið hrynja af Samfylkingunni eins og barr af gömlu jólatré, þ.e. ef það er ekki þegar farið.

Allavega er ég búin að fá nóg af aðgerðarleysi ríkisstjórnar og Alþingis gagnvart spillingu og milljarðaþjófnaði.

mánudagur, janúar 19, 2009

19. janúar 2009 - Stéttskipt skipafélag!

„Það var hinsvegar ekki fyrr en 17. janúar 1988 sem byrjað var að heiðra verkamenn og undirmenn á skipunum fyrir 25 ára starf“ segir í frétt mbl.is um þakklætisvott Eimskipafélagsins til starfsmanna sinna og ég datt beint í mína frægu nostalgíu og fór að hugsa um jólin á sjó.

Lengst af meðan ég starfaði hjá Eimskipafélaginu, tíðkaðist sá siður að færa starfsfólki á skrifstofum félagsins og verkstjórum jólagjafir fyrir hver jól. Til að koma í veg fyrir öfundartal, var sá siður að keyra jólagjöfina, gjarnan bók, heim til starfsmanna á aðfangadag jóla. Verkamenn við höfnina fengu afhent almanak Eimskipafélagsins í jólagjöf er þeir héldu heim er vinnu lauk á aðfangadag jóla. Þeir skipverjar sem voru á sjó fengu margir hverjir afhenta flösku af áfengi í jólagjöf sem þeir urðu svo að smygla í land ef flaskan var ekki drukkin um borð. Þeir sem voru í jólaleyfi af skipunum fengu ekki neitt.

Jólin 1988 var ég á viðhaldsdeild félagsins og fékk bókina „Skipasaga í 75 ár“, afmælisrit Eimskipafélagsins, senda heim á aðfangadag jóla. Þetta var mjög eigulegur gripur þar sem myndir voru af öllum skipum félagsins frá 1915 til þess dags ásamt stuttri lýsingu á hverju skipi. Það varð strax mikill kurr í verkafólkinu sem hafði fengið almanakið góða á aðfangadag að venju. Þetta var einfaldlega leyst með því að þeir sem ekki höfðu fengið bókina, fengu hana á 75 ára afmælinu 17. janúar 1989. Án þess að ég geti fullyrt neitt, tel ég að jólagjafamál Eimskipafélagsins hafi verið í þokkalegu lagi eftir þetta rétt eins og viðurkenningin fyrir 25 ára starf hjá Eimskipafélagi Íslands. Sjálf hætti ég hjá félaginu 1989 og flutti til Svíþjóðar.

Að ætla sér að skrifa um aðbúnað á skipunum er svo efni í heilan pistil sem verður ekki tekið fyrir að sinni.

http://www.mbl.is/mm/frettir/innlent/2009/01/19/gullmerki_eimskips_afhent_i_gaer/

19. janúar 2009 - Framsóknarmenn

Þótt haft sé í huga að ég verð seint talin Framsóknarmanneskja og ætti þar af leiðandi ekki að skipta mér af innri málefnum Framsóknarflokksins, þá get ég ekki látið hjá líða að nefna aðeins landsfund flokksins sem átti sér stað um helgina og þá endurnýjun sem átti sér stað innan flokksins.

þegar bróðir fyrrum krónprins Framsóknarflokksins bauð sig fram til formanns flokksins fyrir jólin átti ég ekki von á öðru en að flokksmenn myndu fylkja sér um hann að fyrirskipun flokkseigendafélagsins þótt kjör hans hefði um leið orðið að svanasöng Framsóknarflokksins, ekki vegna þess að pilturinn væri neitt slæmur strákur, fremur vegna þess að þar með ætti Framsóknarflokkurinn óhægt um vik að gera upp við fortíð sína og margumtalaða spillingu sem svo lengi hefur verið höfð í flimtingum. Páll Magnússon hafði verið svo rækilega tengdur forystu flokksins allt frá unglingsaldri að erfitt yrði fyrir flokkinn að kveðja fortíðina með fortíðina sjálfa í forystu þótt Páll sé enn ungur að árum.

Ég held að það sé ljóst að Framsóknarmenn hafi sjálfir verið búnir að fá nóg af fortíðardraugum. Því völdu þeir sér nýja og vonandi ferska forystu. Ég efast ekki um að allt það fólk sem var í framboði hafi allt verið hið frambærilegasta, en rétt eins og Páll, hefur Siv einnig verið lengi í forystusveit og þátttakandi í ákvörðunum flokksins á tímum stjórnarsamstarfs á tímum nýfrjálshyggju og Hrunadans. Því var nauðsynlegt að hreinsa einnig til í öðrum stöðum í æðstu stjórn Framsóknarflokksins.

Nú má velta fyrir sér hvort ekki sé tími kominn að hreinsa til í öðrum flokkum og hefi ég þá sérstaklega í huga ónefndan flokk sem hefur verið í stjórnarforystu í alltof mörg ár.

Öðruvísi getur nýtt og betra Ísland aldrei orðið að veruleika.

laugardagur, janúar 17, 2009

17. janúar 2009 - Hann sem ber ábyrgðina!

Loksins, loksins kemur einhver fram sem ber ábyrgðina, en í fréttatíma sjónvarpsins á föstudagskvöldið birtist viðtal við Jóhann Sigurjónsson sem lýsti ábyrgð Einars K. Guðfinnssonar með orðunum:

„Í sjálfu sér er það hann sem ber ábyrgðina“

Þá kemur stóra spurningin, vill Einar gangast við ábyrgðinni? Í allt haust hefur verið leitað einhverra sem bera ábyrgð á hruni ríkisfjármála og allir sem einn hafa afneitað ábyrgðinni þrátt fyrir há laun fyrir ábyrgð. Nú síðast neitaði Valgerður Sverrisdóttir einkavinavæðingarráðherra í ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknar ábyrgð sinni á verkum sínum í þeirri ríkisstjórn á landsfundi Framsóknarflokksins, svo það er orðið fátt um fína drætti í ábyrgðum og þá um leið grundvelli fyrir háum launum innan ríkisstjórnar, Alþingis og ríkisstofnanna.

En úr því Einar ber ábyrgðina á störfum Hafrannsóknarstofnunar, má þá ekki líka lækka laun Jóhanns Sigurjónssonar til samræmis við skerta ábyrgð hans?

miðvikudagur, janúar 14, 2009

14. janúar 2009 - Hvernig er þetta hægt?

Þegar síðasta alvörukreppa skall á árið 1967 rak Landhelgisgæslan sjö skip, þrjú af stærri gerðinni, Óðinn, Þór og Ægir, en fjögur af minni gerð, Albert, Maríu Júlíu, Sæbjörgu og vitaskipið Árvakur. Þegar ár var liðið af þeirri kreppu eignaðist Gæslan glænýtt og fullkomið varðskip, Ægir, en gamli Ægir var seldur í brotajárn. Í lok kreppunnar árið 1969 var skipunum svo fækkað um tvö þegar hin upphaflegu björgunarskip, Sæbjörg og María Júlía voru seld. Eftir voru fimm skip, ein flugvél og ein lítil þyrla.

Fjörtíu árum síðar eru tvö skip í rekstri, hinn fjörtíu ára gamli Ægir og 34 ára gamli Týr en auk þeirra sjómælingabáturinn Baldur, ein flugvél og þrjár þyrlur. Þá hafa skipin verið látin sigla til Færeyja til að kaupa olíu, en vegna opinberra gjalda á Íslandi er of dýrt að kaupa olíu á íslensk varðskip á Íslandi. Í allt haust hafa svo bæði skipin verið að miklu leyti bundin við bryggju.

Þegar talað er um að segja tuttugu til þrjátíu manns upp störfum hjá Landhelgisgæslunni hlýtur það að merkja að leggja eigi öðru skipinu auk þess sem draga eigi enn frekar úr rekstri. Á skipunum eru samtals fimmtíu manns í dag, en heildarfjöldi starfsmanna innan við 170. Það hlýtur því að vera of mikil blóðtaka að fækka um 20 til 30 manns í einu lagi án þess að það komi alvarlega niður á rekstrinum og er þá nærtækast að hugsa um annað skipið og kemur þá Ægir fyrst upp í hugann enda orðinn fertugur. Þá læt ég mig ekki einu sinni dreyma um að fækka þyrlunum, slík lífsbjörg sem þær hafa verið íslensku þjóðinni.

Ég hefi aldrei verið hrifin af stríðsleikjum eða hernaðarbrölti. Hér er hinsvegar um allt aðra hluti að ræða. Varðskipin íslensku eiga að vera björgunarskip og jafnframt eiga þau að þjóna landsbyggðinni þegar illa árar og vera til aðstoðar fiskveiðiflotanum um leið og þau eiga að halda uppi eftirliti á hinu víðáttumikla hafsvæði umhverfis Ísland. Varðskipin hafa aukinheldur reynst mikil happafley þegar koma hefur þurft miklum mannfjölda á milli staða á sem stystum tíma í neyðartilfellum og nægir þar að nefna snjóflóðin vestra um miðjan síðasta áratug svo ekki sé talað um Eyjagosið fyrir 36 árum. Það hefur þegar verið gengið of langt í sparnaði innan Landhelgisgæslunnar og það má ekki draga frekar úr rekstrinum ef Landhelgisgæslan á að standa undir nafni og alls ekki fækka skipunum frekar en orðið er.

Það væri nær að draga saman í stjórnkerfinu, flauta af Björns Army fyrir fullt og allt, segja upp heræfingum þeim sem eiga sér stað á vegum Nató og nýta peningana í endurreisn Landhelgisgæslunnar.

http://www.mbl.is/mm/frettir/innlent/2009/01/14/uppsagnir_hja_gaeslunni/

mánudagur, janúar 12, 2009

12. janúar 2009 - Klúbbur fyrir einhleypa

Eins og fólk sem þekkir mig veit, þá hefi ég verið einhleyp í aldarfjórðung. Vissulega hefi ég prófað eitt og annað á þessum langa tíma, en aldrei komist nálægt því að lenda í sambúð öðru sinni hvað þá hjónabandi.

Þrátt fyrir þessa eindregnu afstöðu mína gegn því að lenda í sambúð, vantar mig oft fólk sem er tilbúið að rölta með í gönguferðir eða á kráarrölt eða í leikhús og því eðlilegast að leita einhverra sem eru í sömu aðstöðu. Og sjá. Þar sem ég ferðast um á víðáttum Snjáldurskinnu rekst ég á slíkan klúbb, einhvern sem er kallaður Singles eða Sólóklúbburinn upp á ástkæra ylhýra.

Loksins, loksins, hugsaði ég og fór að skoða listann yfir þátttakendur. Ég þekkti þar nokkur nöfn, fólk sem ég vissi ekki að væri orðið einhleypt og fólk sem reynir allt hvað af tekur til að losna úr þessu einhleypa ástandi sínu. Það sem var þó verst, var að það voru aldurstakmörk því einhleypir eru nefnilega bara á milli þrítugs og fimmtugs, ef marka má inntökuskilyrði klúbbsins.

Af einhverjum ástæðum fæ ég á tilfinninguna að hið raunverulega markmið Sólóklúbbsins sé að útrýma sjálfum sér.

föstudagur, janúar 09, 2009

9. janúar 2009 - Þrír gamlir karlar!

Ég fór í göngutúr á fimmtudagseftirmiðdaginn í kringum Árbæjarlónið. Ég viðurkenni að ég hefi trassað þessa stuttu leið töluvert að undanförnu og einungis gengið tvisvar til þrisvar í viku í stað þess að ganga daglega.

Þar sem ég gekk í rökkurskini frá daufum ljósunum sem lýstu göngustíginn sunnan lónsins, veitti ég athygli þremur þústum fyrir framan mig sem virtust vera á sömu leið og ég, en gengu mun hægar, enda hæfir hraðinn aldrinum. Er ég nálgaðist þústirnar mátti greina á röddunum að þarna fóru þrír karlar á virðulegum aldri og voru þeir að ræða um einhverja aldraða félaga sína og ég fór ósjálfrátt að hlusta.

Fyrst datt mér í hug að þeir væru að tala um einhverja meðlimi í Félagi eldri borgara, en svo heyrði ég:
„Jú alveg rétt, hann Sveinn varð fimmtugur rétt fyrir jól,“ sagði einn.
„Þá hlýtur Sigurður líka að vera að ná fimmtugu,“ sagði annar.

Svona héldu þeir áfram að tala um ætlaða jafnaldra sína (nöfnum breytt), en ég gætti þess vel að horfa ekki á þessa „gamlingja“ um leið og ég stikaði framúr þeim, en fór þess í stað að velta því fyrir mér hvernig talað verður um mig þegar ég næ þessum háa aldri.

miðvikudagur, janúar 07, 2009

7. janúar 2009 - Hrafnhildur ofurkisa

Eitthvert það versta sem getur komið fyrir heimilisdýr er hávaðinn frá blysum og flugeldum dagana kringum áramót. Vegna þessa hélt ég kisunum mínum inni frá því á annan dag jóla og framyfir nýár. Þegar fimmti dagur nýs árs rann upp var Hrafnhildur ofurkisa búin að fá nóg af inniverunni og heimtaði að fara út með mér um leið og ég fór til vinnu. Það gekk ljómandi vel og hún beið stillt og prúð fyrir utan þegar ég kom heim af vaktinni.

Daginn eftir, á þrettándanum, krafðist hún þess enn frekar að fylgja mér út er ég hélt til vinnu og var það auðsótt mál. Þegar ég kom heim frá vinnu, var hún hinsvegar hvergi sjáanleg og mikill hávaði af allskyns sprengjudóti um allt hverfið. Hún var greinilega komin í felur einhversstaðar.

Þegar liðið var fram á kvöldið og hægja tók á sprengjulátunum fékk ég mér labbitúr um hverfið. Ekki var ég ein því Tómas köttur á jarðhæðinni vildi endilega slást í för með mér. Honum stóð þó ekki á sama, því í hvert sinn sem einhver sprenging heyrðist, var hann kominn undir tré eða bíl. Engin fannst Hrafnhildur.

Ég fór aftur út þegar komið var framyfir miðnætti. Um leið og ég kom út á bílastæði, birtist Hrafnhildur ofurkisa, rennblaut og skítug eftir slæma vist undir einhverjum skrjóðnum og enn miður sín eftir hræðslu kvöldsins.

Það er ljóst að ég þarf að gera ráð fyrir tveimur hjásvæfum í bólinu mínu í nótt. Mikið er samt gott til þess að vita, að sprengjugleði landans er lokið þennan veturinn.

þriðjudagur, janúar 06, 2009

6. janúar 2009 - Gáfumenni talar

Í morgun heyrði ég á einhverri útvarpsstöðinni, tal mikils gáfumennis sem fann Evrópusambandsaðild allt til foráttu.

Eitthvað fannst mér ég kannast við röddina í umræddu gáfumenni. Smám saman rann upp fyrir mér að hér var kominn fyrrverandi flokksbróðir minn, mikill fjármálaspekúlant þótt hann hafi löngum verið seinheppinn í stjórnarstörfum sínum á sviði fjármála.

Umræddur harður andstæðingur Evrópusambandsins er nefnilega í núverandi bankaráði Seðlabankans og því samábyrgur hruni íslenska fjármálakerfisins, en á árum áður var hann fjármálaráðherra þegar verðbólgan fór upp í 80%.

Mér finnst að Ragnar Arnalds ætti að snúa sér að öðrum þáttum mannlífsins en fjármálum.

sunnudagur, janúar 04, 2009

4. janúar 2009 - Byggingameistari ársins 2008?


Í fyrradag voru veitt verðlaun þeim byggingameistara sem hafði byggt fáránlegasta byggingastrúktúr á árinu 2008, eða hvað?

Nei nei, ég ætlaði að segja frá flottasta íþróttamanni ársins 2008. Ólafur Stefánsson er svo sannarlega verðskuldaður íþróttamaður síðasta árs sem sýndi sig þegar hann hlaut fullt hús stiga hjá íþróttafréttamönnum í hófi fyrir tveimur dögum síðan. En þessi hræðilegi stillans sem hann hlaut að launum er hinsvegar vart þess virði að geyma í bílskúrnum, hvað þá inni á heimili í heilt ár. Mátti ekki veita manninum fallegt listaverk að launum fyrir íþróttaafrek ársins 2008?

laugardagur, janúar 03, 2009

3. janúar 2009 - Maður er nefndur!

Í dag langar mig til að minnast á einn fremsta atvinnubifreiðarstjóra sem ég veit og sem á stórafmæli í dag, nei nei, ég er ekki að fara að minnast á Sturlu Jónsson, né heldur leigubílstjórann í Spaugstofunni, enda er sá sem um er rætt, hættur akstri og sestur í helgan stein saddur lífdaga á hlykkjóttum vegum víða um heim.

Maðurinn sem ég hefi í huga hefur marga fjöruna sopið og margt afrekið unnið. Ekki hefur hann ætíð komist heill frá akstrinum og fótbrotnaði eitt sinn er hann var að flytja viðkvæmar vörur (sjálfan sig) um landbúnaðarhéruð Stóra-Bretlands á síðustu öld og þurfti þá að dvelja á heimili sínu í Sviss í nokkra mánuði. Þá fór hann stöku sinnum framúr sjálfum sér og hlaut nokkrar hraðasektir fyrir, enda er kapp best með forsjá. Hann hélt þó áfram að aka sem aldrei fyrr eða þar til hann hætti akstri sökum aldurs árið 2006.

Ellilífeyrisþegi sá sem um er rætt, fæddist suður í Þýskalandi, nánar tiltekið í Rínarhéruðum landsins eigi fjarri landamærum Belgíu á viðsjárverðum tímum þegar allt var á hraðri uppleið eftir erfiða áratugi og slæmar styrjaldir og með bros á vör var hann fljótur að sjá að hans barátta í lífinu væri á vegunum, á strætunum, á brautunum, á kappakstursbrautunum. Og hann tók fram úr þeim fyrsta og öðrum og að lokum fór hann framúr þeim öllum, enn með bros á vör og sigur í hjarta.

Enn í dag ber hann aldurinn vel, heldur enn hári og tönnum, heyrnin er þokkaleg og bæði augu enn í augntóftunum þar sem þau eiga heima. Á hverjum morgni fer hann í göngutúr frá elliheimilinu þar sem hann býr og rekur sjálfur ásamt fjölskyldu sinni í Gland, ekki fjarri Genf í Sviss, með eða án göngugrindar og mun vonandi gera enn um langa hríð.

Hann getur líka trútt um talað, meðal annars farið framúr næstum öllum, nánar tiltekið öllum nema mér. Það þætti líka skrýtið ef Michael Schumacher færi framúr mér sem fékk ökuleyfið fjórum dögum áður en hann fæddist, fyrir nákvæmlega fjörtíu árum.

föstudagur, janúar 02, 2009

2. janúar 2009 - Ofbeldistal

Ég verð að viðurkenna að ég kann illa við það að sjá mótmælendur dylja andlit sín. Það dregur úr áhrifamætti mótmælanna og væri nær að þeir þyrðu að koma fram undir réttri ásjónu. Á sama hátt er ég mótfallin því að þeir noti gróf verkfæri við mótmælin á borð við múrsteina sem og að þeir klifri yfir lokuð hlið. Með þessu lýkur því neikvæða sem ég sá við mótmælin við Hótel Borg á gamlársdag.

Formenn allra stjórnmálaflokka nema Sjálfstæðisflokks voru samankomnir inni í húsinu í boði Jóns Ásgeirs Jóhannessonar til að ræða landsmálin og væntanlega kreppuna sem er í boði Jóns Ásgeirs Jóhannessonar og vina hans og á ábyrgð þeirra stjórnmálaflokka sem sitja á Alþingi. Þar eru allir ábyrgir, líka Vinstrigrænir og Steingrímur Jóhann Sigfússon. Þarna var því rétta tækifærið fyrir mótmælendur að sýna sig og láta í sér heyra.

Að bjóða upp á opinberan umræðuþátt nokkurra af helstu ábyrgðaraðilum kreppunnar á þessum stað á þessum tíma, er ekki bara óábyrgt, heldur beinlínis heimska. Í því eldfima andrúmslofti sem nú er í þjóðmálunum yrði það talið fáránlegt víðast hvar að halda svona fund á jarðhæð hótels með stóra glugga sem snúa að mótmælendum til að stjórnmálamenn geti hreykt sér í sýn þeirra sem bera tapið af þjóðargjaldþrotinu. Það væri nær fyrir þjón Jóns Ásgeirs, Ara Edwald, að biðja þjóðina afsökunar á heimskunni í stað þess að ganga fram í fréttatíma Stöðvar 2 og hóta kærum eins og hann gerði á nýársdag.

Ég spyr þá fáu sem eftir eru af lesendum mínum á bloggi:

Teljið þið skynsamlegt að Stöð 2 sem er í meirihlutaeigu Jóns Ásgeirs Jóhannessonar, fari fram með kærumál á hendur mótmælendum eftir það sem á undan er gangið í fjármálum íslensku þjóðarinnar?

fimmtudagur, janúar 01, 2009

1. janúar 2009 - Krepputal

Löngum erum ég og framleiðendur Áramótaskaupsins sammála um ástand þjóðmála. Þegar hinar verstu fréttir hrjá samfélagið sjá þeir oft hið pínlega og broslega í öllum vandræðunum og oftar en ekki er ég þeim hjartanlega sammála og svo hlæjum við saman, þjóðin, ég og framleiðendur Áramótaskaupsins.

Þegar kreppan skall á Íslandi í haust sá ég lítið hlægilegt við kreppuna, fannst hún hið versta mál og sá fátt skoplegt í stöðunni. Framleiðendur Áramótaskaups árið 2008 eru mér alveg sammála og sást það ágætlega í nýloknu Skaupi.

Með þessu óska ég þessum fáu eftirlifandi lesöndum mínum gleðilegs árs og friðar og vonir um betra ár 2009.