föstudagur, janúar 02, 2009

2. janúar 2009 - Ofbeldistal

Ég verð að viðurkenna að ég kann illa við það að sjá mótmælendur dylja andlit sín. Það dregur úr áhrifamætti mótmælanna og væri nær að þeir þyrðu að koma fram undir réttri ásjónu. Á sama hátt er ég mótfallin því að þeir noti gróf verkfæri við mótmælin á borð við múrsteina sem og að þeir klifri yfir lokuð hlið. Með þessu lýkur því neikvæða sem ég sá við mótmælin við Hótel Borg á gamlársdag.

Formenn allra stjórnmálaflokka nema Sjálfstæðisflokks voru samankomnir inni í húsinu í boði Jóns Ásgeirs Jóhannessonar til að ræða landsmálin og væntanlega kreppuna sem er í boði Jóns Ásgeirs Jóhannessonar og vina hans og á ábyrgð þeirra stjórnmálaflokka sem sitja á Alþingi. Þar eru allir ábyrgir, líka Vinstrigrænir og Steingrímur Jóhann Sigfússon. Þarna var því rétta tækifærið fyrir mótmælendur að sýna sig og láta í sér heyra.

Að bjóða upp á opinberan umræðuþátt nokkurra af helstu ábyrgðaraðilum kreppunnar á þessum stað á þessum tíma, er ekki bara óábyrgt, heldur beinlínis heimska. Í því eldfima andrúmslofti sem nú er í þjóðmálunum yrði það talið fáránlegt víðast hvar að halda svona fund á jarðhæð hótels með stóra glugga sem snúa að mótmælendum til að stjórnmálamenn geti hreykt sér í sýn þeirra sem bera tapið af þjóðargjaldþrotinu. Það væri nær fyrir þjón Jóns Ásgeirs, Ara Edwald, að biðja þjóðina afsökunar á heimskunni í stað þess að ganga fram í fréttatíma Stöðvar 2 og hóta kærum eins og hann gerði á nýársdag.

Ég spyr þá fáu sem eftir eru af lesendum mínum á bloggi:

Teljið þið skynsamlegt að Stöð 2 sem er í meirihlutaeigu Jóns Ásgeirs Jóhannessonar, fari fram með kærumál á hendur mótmælendum eftir það sem á undan er gangið í fjármálum íslensku þjóðarinnar?


0 ummæli:







Skrifa ummæli