Heimilislæknirinn minn ákvað að senda mig til hjartalæknis í desember. Ástæðan var einföld. Þolið var ekki nóg fyrir kornunga konu eins og mig og sjálf vissi ég að ég átti að komast upp Esjuna á innan við tveimur tímum, en það hafði mér aldrei tekist. Og ég fékk tíma hjá hjartalækni.
Eftir að heim var komið fletti ég upp á lækninum í Læknatali. Ekki var amalegt að vita að hann var ekki aðeins bróðir annars uppáhaldsprestsins míns, heldur líka dýralæknir svo að lá við að ég gæti tekið hana Hrafnhildi ofurkisu með mér til læknisins.
Eftir nokkrar vikur þar sem ég hafði farið í gegnum hin ýmsu próf, lungnamyndatöku, áreynslupróf, öndunarpróf, blóðprufur, hjartalínurit, hjartaómskoðun með meiru fékk ég loks niðurstöðuna. Það er allt í lagi með þig, þú þarft bara að hreyfa þig meira og fara út að hjóla og í gegnum hugann fór Hjólabragur Ómars Ragnarssonar frá árinu 1964.
Nú sit ég hér heima, búin að lofa upp í ermina á mér hvað snertir hreyfingu, en um leið komin hálfa leiðina í huganum að ná af mér nokkrum kílóum af fitu!
föstudagur, janúar 30, 2009
30. janúar 2009 - Um hjartveiki
Birt af Anna Kristjánsdóttir kl. 01:42
Gerast áskrifandi að:
Comment Feed (RSS)
0 ummæli:
Skrifa ummæli