fimmtudagur, janúar 22, 2009

23. janúar 2009 - Vinstrimaðurinn Barack Obama

Þótt vinstrisinnaðir Bandaríkjaforsetar séu taldir að verðleikum á við mjög hægrisinnaða Evrópumenn er samt mikill munur á að fá þá í stað þeirra sem eru sagðir hægrisinnaðir þar vestra. En þó það sé reginmunur á vinstrisinnuðum forsetum og vinstriforsetum finn ég alltaf fyrir léttri samkennd með þeim sem eru vinstrimenn af sál og líkama.

Sá fyrsti sem vitað var um, var James Garfield (ekki þó faðir Grettis skógarkattar) sem ríkti um nokkurra mánaða skeið árið 1881 áður en hann var myrtur, en sá næsti var hinn seinheppni Herbert Hoover sem var við völd er heimskreppan skall á sama ár og hann tók við embætti. Sá þriðji í röð vinstrimannanna var Harry S. Truman, en honum tókst að starta kalda stríðinu og Kóreustríðinu í samráði við aðra stríðsherra.

Eftir veru Trumans var vinstrimönnum vart treystandi um skeið, en árið 1974 varð Gerald Ford óvart forseti eftir að bæði forseti og varaforseti höfðu þurft að segja af sér eftir spillingarmál. Hann var hinn ágætasti piltur sem ekki gat tuggið tyggigúmmí og gengið samtímis og notaði tómatsósu út á kavíarinn sinn þegar hann var boðinn í mat í Kreml sá ég í einhverri skemmtilegri bók (The Jerry Ford Joke Book) sem nú er löngu glötuð. Hann náði ekki kjöri í kosningunum 1976 og tapaði fyrir hnetubóndanum frá Georgíu.

Brátt tóku betri tímar við því á eftir hnetubóndanum kom hinn Chesterfield-reykjandi Ronald Reagan sem taldist einnig til vinstrimanna sem og eftirmaður hans sem gerði sömu mistökin í rúminu og sonurinn í Írak og dró besta vin sinn ekki út nógu snemma. Á eftir Bush gamla kom enn einn vinstrimaðurinn, hinn kynþokkafulli Clinton.

Eins og gefur að skilja, er sá gallharður hægrimaður til orðs og æðis sem tók við af Clinton og hleypti öllu í bál og brand, en er hann hrökklaðist frá völdum, tók enn einn vinstrimaðurinn við, sjálfur Barack Hussein Obama og ritaði eiðstaf sinn á glæsilegan hátt með vinstri hendi er hann tók við embætti.



Megi Obama farnast vel í embætti.


0 ummæli:







Skrifa ummæli