föstudagur, janúar 09, 2009

9. janúar 2009 - Þrír gamlir karlar!

Ég fór í göngutúr á fimmtudagseftirmiðdaginn í kringum Árbæjarlónið. Ég viðurkenni að ég hefi trassað þessa stuttu leið töluvert að undanförnu og einungis gengið tvisvar til þrisvar í viku í stað þess að ganga daglega.

Þar sem ég gekk í rökkurskini frá daufum ljósunum sem lýstu göngustíginn sunnan lónsins, veitti ég athygli þremur þústum fyrir framan mig sem virtust vera á sömu leið og ég, en gengu mun hægar, enda hæfir hraðinn aldrinum. Er ég nálgaðist þústirnar mátti greina á röddunum að þarna fóru þrír karlar á virðulegum aldri og voru þeir að ræða um einhverja aldraða félaga sína og ég fór ósjálfrátt að hlusta.

Fyrst datt mér í hug að þeir væru að tala um einhverja meðlimi í Félagi eldri borgara, en svo heyrði ég:
„Jú alveg rétt, hann Sveinn varð fimmtugur rétt fyrir jól,“ sagði einn.
„Þá hlýtur Sigurður líka að vera að ná fimmtugu,“ sagði annar.

Svona héldu þeir áfram að tala um ætlaða jafnaldra sína (nöfnum breytt), en ég gætti þess vel að horfa ekki á þessa „gamlingja“ um leið og ég stikaði framúr þeim, en fór þess í stað að velta því fyrir mér hvernig talað verður um mig þegar ég næ þessum háa aldri.


0 ummæli:







Skrifa ummæli