mánudagur, janúar 19, 2009

19. janúar 2009 - Stéttskipt skipafélag!

„Það var hinsvegar ekki fyrr en 17. janúar 1988 sem byrjað var að heiðra verkamenn og undirmenn á skipunum fyrir 25 ára starf“ segir í frétt mbl.is um þakklætisvott Eimskipafélagsins til starfsmanna sinna og ég datt beint í mína frægu nostalgíu og fór að hugsa um jólin á sjó.

Lengst af meðan ég starfaði hjá Eimskipafélaginu, tíðkaðist sá siður að færa starfsfólki á skrifstofum félagsins og verkstjórum jólagjafir fyrir hver jól. Til að koma í veg fyrir öfundartal, var sá siður að keyra jólagjöfina, gjarnan bók, heim til starfsmanna á aðfangadag jóla. Verkamenn við höfnina fengu afhent almanak Eimskipafélagsins í jólagjöf er þeir héldu heim er vinnu lauk á aðfangadag jóla. Þeir skipverjar sem voru á sjó fengu margir hverjir afhenta flösku af áfengi í jólagjöf sem þeir urðu svo að smygla í land ef flaskan var ekki drukkin um borð. Þeir sem voru í jólaleyfi af skipunum fengu ekki neitt.

Jólin 1988 var ég á viðhaldsdeild félagsins og fékk bókina „Skipasaga í 75 ár“, afmælisrit Eimskipafélagsins, senda heim á aðfangadag jóla. Þetta var mjög eigulegur gripur þar sem myndir voru af öllum skipum félagsins frá 1915 til þess dags ásamt stuttri lýsingu á hverju skipi. Það varð strax mikill kurr í verkafólkinu sem hafði fengið almanakið góða á aðfangadag að venju. Þetta var einfaldlega leyst með því að þeir sem ekki höfðu fengið bókina, fengu hana á 75 ára afmælinu 17. janúar 1989. Án þess að ég geti fullyrt neitt, tel ég að jólagjafamál Eimskipafélagsins hafi verið í þokkalegu lagi eftir þetta rétt eins og viðurkenningin fyrir 25 ára starf hjá Eimskipafélagi Íslands. Sjálf hætti ég hjá félaginu 1989 og flutti til Svíþjóðar.

Að ætla sér að skrifa um aðbúnað á skipunum er svo efni í heilan pistil sem verður ekki tekið fyrir að sinni.

http://www.mbl.is/mm/frettir/innlent/2009/01/19/gullmerki_eimskips_afhent_i_gaer/


0 ummæli:







Skrifa ummæli