Þegar síðasta alvörukreppa skall á árið 1967 rak Landhelgisgæslan sjö skip, þrjú af stærri gerðinni, Óðinn, Þór og Ægir, en fjögur af minni gerð, Albert, Maríu Júlíu, Sæbjörgu og vitaskipið Árvakur. Þegar ár var liðið af þeirri kreppu eignaðist Gæslan glænýtt og fullkomið varðskip, Ægir, en gamli Ægir var seldur í brotajárn. Í lok kreppunnar árið 1969 var skipunum svo fækkað um tvö þegar hin upphaflegu björgunarskip, Sæbjörg og María Júlía voru seld. Eftir voru fimm skip, ein flugvél og ein lítil þyrla.
Fjörtíu árum síðar eru tvö skip í rekstri, hinn fjörtíu ára gamli Ægir og 34 ára gamli Týr en auk þeirra sjómælingabáturinn Baldur, ein flugvél og þrjár þyrlur. Þá hafa skipin verið látin sigla til Færeyja til að kaupa olíu, en vegna opinberra gjalda á Íslandi er of dýrt að kaupa olíu á íslensk varðskip á Íslandi. Í allt haust hafa svo bæði skipin verið að miklu leyti bundin við bryggju.
Þegar talað er um að segja tuttugu til þrjátíu manns upp störfum hjá Landhelgisgæslunni hlýtur það að merkja að leggja eigi öðru skipinu auk þess sem draga eigi enn frekar úr rekstri. Á skipunum eru samtals fimmtíu manns í dag, en heildarfjöldi starfsmanna innan við 170. Það hlýtur því að vera of mikil blóðtaka að fækka um 20 til 30 manns í einu lagi án þess að það komi alvarlega niður á rekstrinum og er þá nærtækast að hugsa um annað skipið og kemur þá Ægir fyrst upp í hugann enda orðinn fertugur. Þá læt ég mig ekki einu sinni dreyma um að fækka þyrlunum, slík lífsbjörg sem þær hafa verið íslensku þjóðinni.
Ég hefi aldrei verið hrifin af stríðsleikjum eða hernaðarbrölti. Hér er hinsvegar um allt aðra hluti að ræða. Varðskipin íslensku eiga að vera björgunarskip og jafnframt eiga þau að þjóna landsbyggðinni þegar illa árar og vera til aðstoðar fiskveiðiflotanum um leið og þau eiga að halda uppi eftirliti á hinu víðáttumikla hafsvæði umhverfis Ísland. Varðskipin hafa aukinheldur reynst mikil happafley þegar koma hefur þurft miklum mannfjölda á milli staða á sem stystum tíma í neyðartilfellum og nægir þar að nefna snjóflóðin vestra um miðjan síðasta áratug svo ekki sé talað um Eyjagosið fyrir 36 árum. Það hefur þegar verið gengið of langt í sparnaði innan Landhelgisgæslunnar og það má ekki draga frekar úr rekstrinum ef Landhelgisgæslan á að standa undir nafni og alls ekki fækka skipunum frekar en orðið er.
Það væri nær að draga saman í stjórnkerfinu, flauta af Björns Army fyrir fullt og allt, segja upp heræfingum þeim sem eiga sér stað á vegum Nató og nýta peningana í endurreisn Landhelgisgæslunnar.
http://www.mbl.is/mm/frettir/innlent/2009/01/14/uppsagnir_hja_gaeslunni/
miðvikudagur, janúar 14, 2009
14. janúar 2009 - Hvernig er þetta hægt?
Birt af Anna Kristjánsdóttir kl. 23:09
Gerast áskrifandi að:
Comment Feed (RSS)
0 ummæli:
Skrifa ummæli