Á miðvikudagskvöldið mætti ég í Þjóðleikhúskjallarann á fund Samfylkingarinnar um stjórnarsamstarfið. Þótt ég kæmi um leið og húsið opnaði, þurfti ég að ýta mér leið inn í húsið ásamt fleiri grímuklæddum mótmælendum, en þar sem ég þóttist þekkja innviði Þjóðleikhúskjallarans frá fyrri árum komst ég frá mótmælendum og lengri leiðina inn í salinn þar sem ég fékk sæti hjá góðu fólki, Ágúst Ólafi, Borgþór og Björk V.
Anna Pála stjórnaði fundinum af sinni alkunnu snilld, nákvæmlega ári eftir að hún stjórnaði klappliðinu á áheyrendapöllum Ráðhússins er Ólafur F. tók þar við borgarstjóraembætti í óþökk Reykvíkinga. Aftur var hún í stjórn þar sem fólkið mótmælti valdinu, nú valdi sem var samþykkt á sínum tíma af okkur, en stóðst ekki væntingar okkar.
Þrátt fyrir mikla óánægju með ríkisstjórnina, þurfti ég ekki að óttast að lenda í andstöðu við félaga mína í Samfylkingunni. Við vildum öll ríkisstjórn Sjálfstæðisflokksins burt og greiddum öll atkvæði gegn ríkisstjórninni.
Grímuklæddir mótmælendur sem höfðu upphaflega reynt að hleypa fundinum upp, breyttu skoðunum sínum. Í stað þess að öskra „vanhæf ríkisstjórn“ komu orðin „Áfram Ísland“. Það þurfti ekki að hleypa neinum fundi upp. Við vorum öll sammála.
Á leiðinni frá Þjóðleikhúskjallaranum gekk ég niður Ingólfsstrætið að bílnum sem var lagt fyrir framan hús Hafrannsóknarstofnunnar. Á leiðinni þurfti ég að ganga á götunni því fjölda bíla hafði verið lagt á gangstéttina. Enginn þeirra hafði fengið sektarmiða fyrir að reka gangandi vegfarendur út á götuna. Þó óku þrír lögreglubílar framhjá mér er ég gekk eftir götunni framhjá fjölda bíla á gangstéttunum.
Er ekki kominn tími til að lögreglan hætti að berja mótmælendur og fari að sinna verkefnum sínum?
fimmtudagur, janúar 22, 2009
22. janúar 2009 - Ég tók þátt í ákvörðunum fundarins!
Birt af Anna Kristjánsdóttir kl. 01:00
Gerast áskrifandi að:
Comment Feed (RSS)
0 ummæli:
Skrifa ummæli