sunnudagur, febrúar 01, 2009

1. febrúar 2009 - Ingemar Johansson

Það mun hafa verið vorið 1994 sem ný lágverðsverslun í íþróttavörum opnaði í nýjum verslunarkjarna sem kenndur var Barkarby þótt hann væri Jakobsbergsmegin við hverfamörk Jakobsberg og Barkarby, skammt frá þar sem ég bjó á þeim tíma. Í tilefni af opnuninni voru allskyns opnunartilboð en auk þess var auglýst að Ingemar Johansson myndi heilsa þeim sem kæmu inn í búðina fyrsta daginn.

Á þessum tíma hafði ég verið að æfa mig fyrir Vättern rundan og dekkin á reiðhjólinu mínu orðin nokkuð slitin og ýmislegt fleira sem þurfti að tjasla upp á áður en kæmi að lokaæfingunum fyrir hringferðina umhverfis Vättern. Ég ákvað því að mæta í búðina og reyna að ná mér í ódýr dekk og nýja keðju á hjólið.

Er ég kom í búðina var löng biðröð fyrir utan því illa gekk að fá alla til að taka í hendina á Ingemar Johansson. Þar sem ég hefi ávallt verið mótfallin ofbeldisíþróttum á borð við hnefaleika, ákvað ég að sleppa því að taka í hendina á kappanum og snúa mér beint að búðinni. Ónei, það kom ekki til mála, allir sem komu inn í búðina þennan dag þurftu að fara í biðröð og taka í hendina á kappanum, annars fengju þeir ekki að fara inn í búðina. Mér ofbauð biðröðin fyrir lítið tilefni og snéri frá búðinni og hjólaði heim aftur. Daginn eftir voru verðin í lágverðsversluninni orðin sambærileg við aðra íþróttaverslun í Vällingby svo ég hélt mig við þá verslun eftir það og gerði ekki fleiri tilraunir til að versla í lágverðsversluninni í verslunarkjarnanum sem kenndur var við Barkarby.

Aldrei tók ég í hendina á Ingemar Johansson, þótt ég hafi ávallt haft fulla samúð með kappanum að hafa gaman af að láta berja sig svona.

Á svipuðum tíma og atvikið átti sér stað í hjólabúðinni, átti ég hinsvegar lítil samskipti við innkirtlasérfræðinginn Rolf Luft (1914-2007), en hann var þá enn virkur og vottaði um innkirtlaheilbrigði mitt fyrir aðgerðina sem ég fór í ári síðar. Á árunum í kringum 1960 stjórnaði hann steratilraunum til að bæta árangur fjögurra íþróttamanna, þar á meðal Ingemar Johansson, en hætti þeim fljótlega vegna aukningar á árásargirnd þessara manna og austur-Evrópumenn tóku við steratilraunum á íþróttamönnum.


0 ummæli:







Skrifa ummæli