Ég verð að játa að ég varð fyrir vonbrigðum með drottningarviðtal Sigmars við Davíð Oddsson í Kastljósi sjónvarpsins á þriðjudagskvöldið. Ég hafði vonast til að Davíð myndi lýsa því yfir að hann ætlaði að snúa sér alfarið að ritstörfum, en til vara að hann ætlaði að segja af sér starfi sínu sem Seðlabankastjóri, en til þrautavara að hann myndi tilkynna þátttöku sína í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins, en ekkert af þessu rættist.
Þess í stað eyddi hann tímanum í að skamma vesalings Sigmar fyrir að hlusta á fólk sem og að sverta Geir Haarde eftirmann sinn og Sjálfstæðisflokkinn fyrir að hafa ekki hlustað á sig er hann varaði þá við því að allt væri að fara til andskotans. Þá benti hann á að ef Seðlabankinn hefði safnað gjaldeyrisvarastjóð, væri íslenska þjóðin stórskuldug í dag, en einnig gaf hann í skyn að Bretar hefði sett hryðjuverkalög á Landsbankann af því að Kaupþing hefði flutt peninga á milli landa og hengdi þannig bakara fyrir smið.
Hann hefði betur kastað sprengjum eins og búist var við, en staðið í þeim fúkyrðaflaumi og skítkasti sem hann gerði sig sekan um á þriðjudagskvöldið, t.d. með því að tilkynna framboð eða hætta í pólitík.
miðvikudagur, febrúar 25, 2009
25. febrúar 2009 – Vonbrigði
Birt af Anna Kristjánsdóttir kl. 00:03
Gerast áskrifandi að:
Comment Feed (RSS)
0 ummæli:
Skrifa ummæli