mánudagur, febrúar 02, 2009

3. febrúar 2009 - Hvað er svona hættulegt við Evrópusambandið?

Enn á ný hefur umræðunni um aðild að Evrópusambandinu verið ýtt út af borðinu. Enn á að viðhalda mítunni um að íslenska þjóðin sé að glata einhverju geysilega mikilvægu við hugsanlega umsókn um aðild að Evrópusambandinu.

Þegar þjóð sækir um aðild að Evrópusambandinu er byrjað á að ræða saman, reynt að kanna hvort samningsaðilar geta náð saman, á hverju strandar og hvað er auðvelt. Síðan er reynt að ná samkomulagi út frá því sem rætt er í viðræðum og samkomulagið borið undir þjóðaratkvæði. Ef samkomulag næst ekki í samningaviðræðum er málinu lokið. Ef samkomulag næst er það borið undir þjóðaratkvæði. Ef meirihluti þjóðarinnar greiðir atkvæði með Evrópusambandinu mun þjóðin ganga með, ef ekki, hefur þjóðin glatað dýrmætu tækifæri til að taka þátt í náinni samvinnu Evrópuþjóða.

Af einhverjum ástæðum hafa íhaldsflokkarnir, gamla íhaldið, gamli Þjóðvarnarflokkurinn sem nú gengur aftur undir merkjum Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs og hluti framsóknarflokksins ákveðið að þagga niður alla möguleika á umræðum í þessa veru fram að kosningunum í vor.

Og ég sem hélt að veruleg stefnubreyting á efnahagsmálum gjaldþrota þjóðar þyldi ekki frekari bið.


0 ummæli:







Skrifa ummæli