Ég hefi ekki gert mikið af því að stunda uppboð um dagana. Þó hefi ég átt það til að rekast inn á uppboðsstaði fyrir forvitni sakir og jafnvel lagt inn eitt og eitt boð á þessum uppboðum.
Á mánudagskvöldið var listaverkauppboð hjá Gallerí Fold og ég var þar. Þar var boðið upp gullfallegt grafíkverk eftir Þórð Hall og ég bauð í verkið og fékk það á góðu verði. En þar sem ég þurfti að taka á móti gestum um kvöldið, varð ég að flýta mér heim eftir uppboðið án þess að borga listaverkið.
Ég mætti á uppboðsstað eftir hádegi á þriðudag til að sækja hina nýju eign mína, reiddi fram tilskylda upphæð og mér var fært verkið. Ég tók í efri ramma þess og ætlaði að fara, en þá vildi svo til að ramminn gaf sig og smella í rammanum fór í gólfið.
„Það er langbest að halda í sjálft bandið,“ sagði mér einn ágætur starfsmaður sem hjálpaði mér að laga rammann. Ég þakkaði fyrir, greip um upphengjubandið á bakhliðinni og strunsaði út.
Um leið og dyrnar lokuðust fyrir aftan mig, slitnaði bandið, myndin fór í götuna og glerið mölbrotnaði. Það var ekkert annað fyrir mig að gera en að fara með myndina inn aftur og láta laga hana. Sem betur fer hafði myndin sjálf ekkert skemmst og Gallerí Fold bauðst til að skipta um glerið á sinn kostnað sem ég þáði með þökkum.
En ég á örugglega eftir að versla meira við þetta ágæta uppboðsfirma og þægilegt starfsfólk þess í framtíðinni.
miðvikudagur, febrúar 11, 2009
11. febrúar 2009 - Fall er fararheill
Birt af Anna Kristjánsdóttir kl. 00:13
Gerast áskrifandi að:
Comment Feed (RSS)
0 ummæli:
Skrifa ummæli