Ekki er ætlun mín að setja út á prófkjörs- eða forvalsreglur einstakra stjórnmálaafla. Þó gat ég annað en misst andlitið er ég sá á síðu Stefáns Pálssonar, að meðal allmargra sem vilja bjóða fram starfskrafta sína innan vébanda Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs, er sjálfur húsgagnasmíðameistarinn Árni Björn Guðjónsson.
Á árum áður þótti Árni Björn í hópi hörðustu hægrimanna og taldist gjarnan meðal þeirra sem aðhlynntust hina kristnu hægristefnu af því tagi sem nú er kennd við George W. Bush. Þannig var hann meðal helstu forvígismanna Kristilega lýðræðisflokksins sem tók þátt í kosningunum 1995 og 1999 og þar sem finna mátti stefnuskrá sem krafðist banns við leiðréttingum á kyni, banns við fóstureyðingum og niðurfellingu áunninna réttinda samkynhneigðra auk þess sem mælst var til sérstaks stjórnmálasambands við Ísrael.
Þegar maður eins og Árni Björn Guðjónsson kýs að vinna með því stjórnmálaafli sem stendur lengst til vinstri á Alþingi, hlýtur að merkja að honum hafi snúist hugur í stjórnmálaskoðunum, fremur en að hann sé að ná sér niðri á Guðlaugi Laufdal, en þeir áttu í persónulegum og fjárhagslegum deilum um skeið eftir að slitnaði upp úr stjórnmálasamstarfi þeirra .
Þótt margir vinstrimenn geri góðlátlegt gys að Árna Birni Guðjónssyni kýs ég að líta svo á að með þessu framboði sínu sé týndi sonurinn kominn heim eftir margra ára villuráf, rétt eins og Jón Magnússon rataði heim á sinn bás eftir dvöl sína hjá Frjálslynda flokknum.
fimmtudagur, febrúar 19, 2009
19. febrúar 2009 - Um forval Vinstri grænna
Birt af Anna Kristjánsdóttir kl. 01:00
Gerast áskrifandi að:
Comment Feed (RSS)
0 ummæli:
Skrifa ummæli