Ég sit hér heima og klóra mér í höfðinu yfir þessari hótun Jóns Baldvins að ætla sér í framboð til formanns Samfylkingarinnar ef Ingibjörg Sólrún segir ekki af sér. Er nema von að ég sé áhyggjufull? Fyrst kom vinur hans að nafni Davíð Oddsson og hótaði því að snúa aftur í pólitík ef hann þyrfti að hætta í Seðlabankanum og nú Jón Baldvin sem er reyndar kominn á rífleg eftirlaun og leiðist heima í ellinni.
Það er að vísu alveg rétt að það þurfti að ýta við Ingibjörgu Sólrúnu áður en hún sleit stjórnarsamstarfinu við ákvarðanafælinn Geir Haarde, en ég get ekki séð að einn af helstu höfundum nýfrjálshyggjunnar í samstarfi við Davíð Oddsson sé rétti maðurinn til að leiða Samfylkinguna. Þann daginn sem Ingibjörg Sólrún hættir, finnst mér miklu eðlilegra að yngt verði upp í stjórn Samfylkingarinnar en ekki farið að leita á elliheimilin eftir nýjum formanni. Þá ber þess að geta að Jóhanna er einungis rúmum þremur árum yngri en Jón Baldvin og á í mesta lagi eftir að sitja á Alþingi eitt kjörtímabil í viðbót taki hún ákvörðun um að bjóða sig fram aftur í vor. Þá sé ég ekki hvaða tilgangur á að vera með því að kljúfa Samfylkinguna eins og Jón Baldvin virðist vera að gera með þessu frumhlaupi sínu.
Þar sem Jón Baldvin Hannibalsson er ekki daglega undir fingrunum á lyklaborðinu mínu er í lagi að óska honum strax til hamingju með sjötugsafmælið næstkomandi laugardag og vona ég að hann njóti elliáranna vel og lengi í friðsældinni í næsta nágrenni við Reykjastöðina í Mosfellsbæ.
sunnudagur, febrúar 15, 2009
15. febrúar 2009 - Jón Baldvin Hannibalsson
Birt af Anna Kristjánsdóttir kl. 00:55
Gerast áskrifandi að:
Comment Feed (RSS)
0 ummæli:
Skrifa ummæli