Sturla Böðvarsson sagði frá því í útvarpi í dag að konan sín hefði líkt launum hans sem alþingismanns við laun í unglingavinnunni nokkru eftir að hann settist á Alþingi. Þetta finnst mér ánægjulegt og fagna því að unglingar í Stykkishólmi skuli vera svo vel launaðir sem Sturla gefur í skyn þótt ég óttist að hann ýki aðeins.
Orð Sturlu um unglingavinnuna komu til af andstöðu hans við frumvarpið um að fella niður sérstök lífeyrisréttindi alþingismanna og ráðherra og í framhaldi af því kvartaði hann og kveinaði yfir lélegum launum þessa hóps í útvarpinu. Meðal annars benti hann á að sennilega væru allir starfsmenn ríkisstofnanna sem kallaðir væru á fund þingnefnda með betri laun en alþingismenn.
Ekki ætla ég að fullyrða neitt um laun forstöðumanna ríkisstofnana, en ef Sturla hefur rétt fyrir sér, er vissulega full ástæða til að lækka laun forstöðumannana til samræmis við aðrar launalækkanir í þjóðfélaginu. Þess má geta að grunnlaun almenns alþingismanns eru í dag 520.000 á mánuði. Því til viðbótar fær þingmaðurinn allskyns fríðindi, frían síma, greiddan ferða- og dvalarkostnað, greiddar ferðir og uppihald í ferðum erlendis, laun fyrir setu í nefndum utan Alþingis, mánaðar jólaleyfi og oftast fjögurra mánaða leyfi til að sinna sauðburði, slætti og og öðrum sumarverkum á býli sínu.
Það er því ljóst að unglingar í Stykkishólmi eru ekki með nein slorlaun og mættu önnur sveitarfélög taka Stykkishólm sér til fyrirmyndar í þeim efnum.
miðvikudagur, febrúar 18, 2009
18. febrúar 2009 - Unglingavinnan í Stykkishólmi
Birt af Anna Kristjánsdóttir kl. 17:50
Gerast áskrifandi að:
Comment Feed (RSS)
0 ummæli:
Skrifa ummæli