Ein þeirra stofnanna sem eru illa þokkaðar af mörgum er Tryggingastofnun ríkisins. Ekki kann ég að útskýra af hverju það er, en grunar að eldra fólk og öryrkjar sem hafa fundið vanmátt sinn gagnvart ofurvaldi stofnunarinnar sé duglegast við að halda uppi þessari gagnrýni.
Á fimmtudagsmorguninn fékk ég símtal frá Tryggingastofnun ríkisins eða frá Sjúkratryggingum Íslands þar sem ég var í vinnunni. Erindið var það stofnunin hafði reiknað út að ég hefði ofgreitt gjöld fyrir viðamikla hjartarannsókn sem ég hafði farið í fyrsta mánuð ársins og konan í símanum vildi vita reikningsnúmerið mitt svo hægt væri að leiðrétta þennan mismun. Ég gaf upp reikningsnúmerið mitt og skömmu síðar voru aurarnir komnir inn á reikninginn minn. Ég þakka kærlega fyrir frábæra þjónustu.
Ég fór að velta hlutunum fyrir mér. Var ég að gera rétt? Þessar fáeinu krónur skipta kannski engu máli í rekstri ríkissjóðs, en um leið skipta þær litlu máli fyrir mig. Ég hafði ekki falast eftir umræddri endurgreiðslu og hafði reyndar ekki hugsað út í möguleikann á henni, en um leið skilst mér að endurgreiðslan sé réttur minn samkvæmt landslögum. Um leið er ég í fullri vinnu. Ég er ekki í vanskilum við bankann þótt vissulega sé yfirdrátturinn erfiður og ég er nokkuð örugg um að fara ekki á hausinn á næstu mánuðum, takist mér að halda sömu hógværð í fjármálum og undanfarin ár þrátt fyrir kreppuna. Ég er vonandi ekki á leiðinni á eftirlaun næsta áratuginn og er frekar í vandræðum við að finna fleiri klukkutíma í sólarhringnum en að finna mér eitthvað til dundurs á daginn. Ég er í betri málum en fjöldi fólks sem hefur misst vinnuna og jafnvel heimili sín, en ég fæ greitt til baka, ekki fólkið sem er í vandræðum.
Ég veit ekki hvort ég muni þora að nota fríkortið sem barst mér í pósti á fimmtudag, en ég fékk á tilfinninguna við móttöku þess, að þetta væri fyrsti vottur þess að ég væri að eldast. Um leið verð ég að viðurkenna að fordómar mínir í garð Tryggingastofnunar eða Sjúkratrygginga Íslands hurfu eins og dögg fyrir sólu.
föstudagur, febrúar 27, 2009
27. febrúar 2009 - Tryggingastofnun ríkisins
Birt af Anna Kristjánsdóttir kl. 00:43
Gerast áskrifandi að:
Comment Feed (RSS)
0 ummæli:
Skrifa ummæli