Austfirðingar hafa löngum þótt frekar til vinstri í pólitík , einarðir verkalýðssinnar og stundum verið taldir hallir undir stjórnvöld í Kreml sem sést best á gömlu gælunafni á Neskaupstað, sem lengi var kallaður Litla-Moskva. Það kemur einnig ágætlega í ljós þegar spjallað er við innfædda sem og nágranna þeirra á fjörðunum í kring, að þeir eru gjarnan umburðarlyndari en aðrir landsmenn, en um leið trúir gömlum skoðunum.
Fréttamaður Stöðvar 2 skrapp um borð í Börk NK 122 frá Neskaupstað og smakkaði þar á þurrkaðri gulldeplu eða kreppukóði eins og sumir vilja kalla þennan smáfisk. Er myndir voru sýndar úr borðsal og setustofu Barkar í fréttum Stöðvar 2 sáust ágætlega merki um víðsýnar skoðanir skipverja, en í borðsalnum blasti við mynd af Vladimir Putin á tilkynningatöflunni. Ekki var útsýnið verra í setustofunni, en þar er stórt innrammað plakat af tveimur fáklæddum stúlkum sem láta vel að hvorri annarri, en umrædd mynd er í miklu uppáhaldi meðal samkynhneigðra kvenna sem sumar hverjar eiga plakatið á áberandi stað í svefnherbergi sínu.
laugardagur, febrúar 21, 2009
21. febrúar 2009 - Norðfirðingar
Birt af Anna Kristjánsdóttir kl. 00:08
Gerast áskrifandi að:
Comment Feed (RSS)
0 ummæli:
Skrifa ummæli