Á fimmtudaginn birtist viðtal við ungan pilt í Kastljósi Sjónvarpsins þar sem hann kvartar hástöfum yfir dómhörku dansks saksóknara í sinn garð á meðan hann sat í gæsluvarðhaldi í Færeyjum og síðan óréttlátum dómi yfir sér þar sem hann var dæmdur til sjö ára fangelsisvistar fyrir smygl á fíkniefnum.
Ekki ætla ég að fullyrða neitt um piltinn. Hann kom vissulega vel fyrir og virtist sannfærandi í framkomu og ég sé enga ástæðu til að rengja orð hans á meðan ég hefi ekki andstæðan framburð við hans. Hinsvegar fylltust bæði Snjáldurskinna (Facebook) og bloggheimar af mótmælendum sem kröfðust þess að mál hans yrði tekið upp að nýju í ljósi óréttláts dóms yfir honum eða jafnvel að honum yrði sleppt.
Þetta fólk gerir sér ekki grein fyrir því hvers það er að krefjast.
Til þess eru tvö og fleiri dómsstig að hægt sé að tryggja réttláta dómsmeðferð. Pilturinn var dæmdur fyrir færeyskum undirrétti, en málið fór ekki lengra. Hann áfrýjaði aldrei til æðra dómsstigs og samþykkti þannig felldan dóm yfir sér. Með því eyðilagði hann frekari möguleika á áfrýjun eða endurupptöku máls. Hann getur ekki krafist endurupptöku fyrir íslenskum dómstól því hann er dæmdur fyrir færeyskum dómstól fyrir brot á færeyskum lögum. Íslensk fangelsi eru hinum íslenska brotamanni einungis mildun á dæmdu broti með því að geyma piltinn í sínu heimalandi í umboði danskra/færeyskra fangelsisyfirvalda í samræmi við dóminn yfir piltinum. Ef íslensk yfirvöld myndu sleppa honum út án fullnustu dóms, yrði slíkt veruleg ávirðing á íslensk yfirvöld og gæti orðið til þess að sagt yrði upp gagnkvæmum samningum um fullnustu dóma í sínu heimalandi.
Ef pilturinn vill sækja um endurupptöku máls, verður hann að gera slíkt hjá færeyskum/dönskum dómsyfirvöldum því íslensk dómsyfirvöld hafa ekkert með þetta mál að gera. Það er svo undir náð og miskunn þar til bærra yfirvalda hvort þau sjái aumur á pilti og taki málið upp aftur og það gera þau tæpast nema sýnt sé fram á verulega brotalöm á vörn piltsins í undirrétti. Það þýðir þó ekkert að benda á sókn saksóknarans í málinu því þannig eiga saksóknarar að hegða sér!
Vilji pilturinn sækja um náðun verður hann sömuleiðis að sækja um hana til rétts þjóðhöfðingja sem er væntanlega Magga smókur í þessu tilfelli, nema auðvitað að einhver millistjórnandi stjórni náðunum í umræddu skattlandi Danadrottningar.
Þessi orð mín hafa svo ekkert að gera með þá skoðun mína að mér finnst dómurinn yfir honum vera fremur harður.
laugardagur, febrúar 14, 2009
14. febrúar 2009 - Um pilt sem situr á Litla-Hrauni
Birt af Anna Kristjánsdóttir kl. 01:09
Gerast áskrifandi að:
Comment Feed (RSS)
0 ummæli:
Skrifa ummæli