Ég viðurkenni alveg að ég horfði með ákveðinni tortryggni á nýja ríkisstjórn taka við völdum. Ekki vegna samstarfs Samfylkingar og Vinstri grænna, fremur vegna þess eftirlitshlutverks sem Framsóknarflokkurinn er búinn að setja sig í án ábyrgðar á verkum hinnar nýju ríkisstjórnar. Slíkt kann aldrei góðri lukku að stýra.
Annað er viðskilnaður Sjálfstæðisflokksins. Í viðtölum við forystumenn Sjálfstæðisflokksins höfum við nú fengið að heyra að ástæður ákvarðanakvíða gömlu ríkisstjórnarinnar hafi verið veikindi Ingibjargar Sólrúnar. Þannig hafi Sjálfstæðisflokkurinn verið tilbúinn með fjölda mála sem aldrei hafi fengist afgreidd úr ríkisstjórn til Alþingis vegna veikinda hennar eða þá þess að Samfylkingin hafi ekki skilað málum til baka til Björns og félaga. Þvílík gunga sem hann Geir hefur verið að hafa ekki sagt Sollu upp fyrir löngu síðan úr því hún vaskaði aldrei upp á stjórnarheimilinu, heldur fór þess í stað á fjörurnar við Steingrím.
En þetta er liðin tíð.
Ég fagna nýrri ríkisstjórn þótt ekki verði hún langlíf, enda ekki reiknað með öðru. Jóhanna verður ekki skemmtilegasti forsætisráðherra sem setið hefur á Íslandi, en hún verður örugglega einhver sá duglegasti og sjálf trúi ég því að hún muni láta hendur standa framúr ermum þessa tæpu þrjá mánuði sem hún verður við völd að sinni.
Þá hefi ég ögn meiri áhyggjur af fagráðuneytunum, meðal annars utanríkisráðuneytinu, en mikilvægt er að hvatvís utanríkisráðherrann gæti orða sinna í lengstu lög, enda virka orð hans eins og lög í diplómatiskum samskiptum við erlend ríki. Norðmenn fengu rækilega að kenna á slíku í deilunum um Austur-Grænland, en alþjóðadómstóllinn hafnaði kröfu þeirra um yfirráðarétt á landsvæði á Grænlandi á þriðja eða fjórða áratug síðustu aldar, meðal annars vegna orða fyrrum utanríksráðherra Noregs sem hafði fullvissað Dani um að Norðmenn ætluðu sér ekki að krefjast umræddra landsvæða.
En verkin munu tala og ég vil óska Jóhönnu og Jónínu til hamingju með ný og spennandi verkefni næstu mánuðina sem og ríkisstjórninni allri. Þá má ekki gleyma nýjum forseta Alþingis, en þar er svo sannarlega kominn tími til að fá yngri þingmann í foretastól í stað uppgjafa ráðherra sem eru oft ekki annað en málpípur ríkisstjórnarinnar.
mánudagur, febrúar 02, 2009
2. febrúar 2009 - Til hamingju Jóhanna Sig.
Birt af Anna Kristjánsdóttir kl. 01:03
Gerast áskrifandi að:
Comment Feed (RSS)
0 ummæli:
Skrifa ummæli