Eftirfarandi málgrein tilskipunar um vald biskupa til að veita undanþágur frá fermingartilskipunum, er að finna í lagasafni hins íslenska lýðveldis:
3) Nú er barn, sem ferma á, krypplingur, svo að það á bágt með að koma í kirkju til fermingar, eða það getur það eigi að hættulausu vegna stöðugra veikinda eða það hefir svo stórkostleg líkamslýti, að koma þess og yfirheyrsla í kirkjunni gæti valdið hneyksli; og skal þá biskupi heimilt að leyfa, að það sé fermt heima í votta viðurvist.
Frá 23. mars 1827.
Lagasafn 2003, bls 636
Þegar orð biskups frá því um síðustu áramót eru skoðuð, þá mælist hann til þess að við hinkrum aðeins og skoðum hvort eigi að leyfa kirkjulega blessun samkynhneigðra í hjónaband. Þegar ofangreind málsgrein laga um vald biskups er skoðuð og sú augljósa staðreynd að biskup gerir engar athugasemdir við fordómafullt orðalag gegn börnum við lagasetningarvaldið sem honum eru gefin í þessari tilskipun, hvers er þá von frá biskup Íslands gagnvart tveimur heilbrigðum og samkynhneigðum einstaklingum sem vilja ganga saman í hjónaband?
Sú staðreynd að þessi lagagrein skuli enn vera óbreytt í lögum, er hneyksli og lagasetningarvaldinu háðung sem greinilega hefur ekki kynnt sér innihald lögbókar lýðveldisins Íslands. Það er sömuleiðis háðung fyrir biskup Íslands á hverjum tíma að gera ekki ítrustu athugasemdir við slíkt orðalag sem hér er notað.
Ég held að Alþingi og biskup þurfi að sameinast um að taka til í eigin ranni og helst um leið og þeir hafa fallist í faðma og samþykkt lög um hjónavígslu samkynhneigðra.
þriðjudagur, janúar 31, 2006
31. janúar 2006 - Í ranni biskups
sunnudagur, janúar 29, 2006
30. janúar 2006 - Stebbi stælgæ og Litir hafsins
Í lok sjöunda áratugarins var teiknimyndasería í gangi í Tímanum eftir Birgi Bragason þar sem söguhetjan Stebbi stælgæ var látinn ferðast í tímavél um mannkynsöguna með gítarinn meðferðis. Stebbi var dæmigerður unglingur sjöunda áratugarins, með hár niður á herðar, söng jejeje og spilaði bítlalög og rollinga á gítarinn sinn. Teiknimyndasería þessi var mjög vinsæl og umrædd og efa ég ekki að hún hefur aukið sölu dagblaðsins Tímans töluvert. Svo þegar Stebbi var búinn að ferðast um fornöldina, spilað fyrir grikki, rómverja og gyðinga sjálfum sér til bjargar og fornmönnum til skemmtunar eða hryllings og kominn inn á miðaldirnar með gítarinn einan að vopni, var hann handtekinn og tekinn af lífi og þannig lauk teiknimyndaseríunni snögglega.
Einhverntímann kvartaði ég yfir þessum endalokum Stebba stælgæ við Birgi Bragason og svaraði hann því til að hann hefði ekki nennt að halda þessum teiknimyndum áfram og sífelldum kröfum ritstjórnarinnar um áframhald seríunnar og því látið Stebba kveðja þetta jarðlíf mun fyrr en upphaflega var áætlað.
Á sama hátt og ég varð fyrir miklum vonbrigðum með snubbóttan endi sögunnar um Stebba stælgæ, varð ég fyrir miklum vonbrigðum með endalok sakamálaþáttanna “Allir litir hafsins eru kaldir”. Fyrsti þátturinn lofaði góðu þrátt fyrir nokkra hnökra eins og þann að láta ónefnda lögfræðiskrifstofu vera staðsetta í ljótasta húsi Reykjavíkur sem dró úr athyglinni að söguþræðinum. Annar þátturinn var öllu betri þar sem byggð var upp atburðarás í stíl við frábærustu leikflettur sakamálaþátta. Loks kom þriðji þátturinn og þá varð atburðarásin að engu.
Einhvernveginn fékk ég það á tilfinninguna að handritshöfundurinn hefði fengið leið á ófullgerðu handritinu og sett punkt fyrir aftan á sama hátt og Birgir Bragason fékk leið á Stebba stælgæ, klipparinn fékk leið á að klippa myndina og myndatökumaðurinn fékk leið á að filma.
Sumstaðar vantaði samhengið í klippinguna, Fokker flugvél sást fljúga yfir þorpi á Vestfjörðum og Metró flugvél lenti á flugvellinum og öll óupplýstu málin sem búið var að byggja upp spennu í kringum, enduðu hvergi.
Af hverju var ekki hægt að ljúka við þessa þætti með áframhaldandi uppbyggingu spennunnar og síðan að greiða úr flækjunum í lokin? Ég er sannfærð um að helstu sakamálahöfundar Íslands hefðu ekki látið standa sig að svona klúðri, fremur bætt við fjórða, fimmta og sjötta þætti. En kannski var best að enda þættina svona snögglega fyrst þolinmæðin var búin hjá höfundinum.
Ekki má gleyma að ofvirkur sonur aðalsöguhetjunnar varð skyndilega ljúfur sem lamb í lokin. Sennilega kominn á Rítalín í “Happý American Ending” sjónvarpsþáttanna.
laugardagur, janúar 28, 2006
29. janúar 2006 - Björn Ingi Hrafnsson
Þá er prófkjöri Framsóknarflokksins í Reykjavík lokið og ljóst að frambjóðandi flokksforystunnar, Björn Ingi Hrafnsson, muni leiða flokkinn í kosningunum í vor. Ég fór hinsvegar að velta fyrir mér öðru atriði sem sýnir ágætlega gallana við opið prófkjör.
Þegar utankjörstaðaratkvæðin höfðu verið talin, reyndist Gestur Gestsson frambjóðandi sértrúarsafnaðanna og meðlimur í Fíladelfíusöfnuðinum, hafa fengið næstflest atkvæði þeirra sem greiddu atkvæði utankjörfundar. Um leið og farið að var að telja atkvæði sem greidd voru á kjörstað, hrundi fylgi hans niður í eitthvað sem er vart mælanlegt. Það bendir til að Gestur hefur smalað fylgi meðal sértrúarsafnaða og þar eru flestir fylgjendur Sjálfstæðisflokksins, að minnsta kosti á meðan Kristilegi lýðræðisflokkurinn er ekki í framboði. Margir þeirra eru auk þess flokksbundnir og láta ekki sjá sig á kjörstað þegar Framsókn er að velja sér frambjóðendur. Það var t.d. engin tilviljun að einn helsti forsprakki öfgatrúaðra, Gunnar Þorsteinsson, skildi vera áberandi við talningu þegar talið var upp úr kjörkössunum hjá Sjálfstæðisflokknum í Kópavogi á dögunum.
Er þá ekkert annað eftir en að óska Birni Inga Hrafnssyni til hamingju með sigurinn.
----o----
Það er ástæða til að hafa áhyggjur af fleiru en kosningaúrslitum þessa stundina. Uppáhaldsliðið mitt í ensku knattspyrnunni er í vondum málum þessa dagana, en Halifaxhreppur vann Ræningjana í Grænaskógi sem herma eftir KR í búningavali, með einu marki gegn engu í gær. Með þessum sigri eru hetjurnar komnar í þriðja sæti í ensku kvenfélagsdeildinni og með jafnmörg stig og liðið sem er í öðru sæti. Það er því ljóst að þær hafa gefið ólympíuhugsunina upp á bátinn um sinn og orðnar að gráðugum stigaræningjum þegar einungis fimmtán leikir eru eftir á þessari leiktíð. Ég leggst á bæn og óska þeim þess að tapa nokkrum leikjum svo þeim auðnist að snúa frá villu síns vegar og halda sig áfram í kvenfélagsdeildinni.
----o----
Svo vil ég óska Hafdísi Lilju í Borgarnesi til hamingju með daginn.
28. janúar 2006 - Af svifryki ofl.
Af einhverjum ástæðum eru allar gangstéttir borgarinnar þaktar sandi þessa dagana. Þessum sandi var dreift þarna á meðan snjór var yfir öllu til að hindra að gamalt fólk og lasburða rynni á rassinn í hálkunni og bryti bein og tognaði. Þetta er hið besta mál.
Ef ég sóða út einhversstaðar, t.d. sanda tröppurnar við blokkina þar sem ég bý, þá þarf ég auðvitað að sópa sandinum saman þegar hlánar og snjór og ís hverfa af gangstéttinni. Ég er hinsvegar svo löt við að sanda, að ég hefi engar áhyggjur af sandburði á minni gangstétt. Sama finnst mér að borgaryfirvöld þurfi að gera. Þeir sönduðu gangstéttirnar og björguðu mörgu gamalmenninu frá því að hrasa og jafnvel detta í hálkunni og er það vel. Mér finnst sjálfsagt að þeir sópi líka upp eftir sig.
Þessa dagana er mikill áróður gegn nagladekkjum á vegum borgaryfirvalda. Brátt mun sandurinn sem dreift var á gangstéttirnar, fjúka út á akbrautirnar og þyrlast upp í loftið undan bílunum og verða að svifryki yfir götunum. Munu þá andstæðingar nagladekkjanna benda á svifrykið og segja: Sjáið þið, þetta svifryk er nagladekkjunum að kenna. Bönnum nagladekkin!
Ég ek um á vinstrigrænum Subaru og þarf ekki nagladekk í innanbæjarumferðinni. Sumir þurfa á nagladekkjum að halda og eiga að nota nagladekk. Látum þá njóta vafans og látum borgina sópa gangstéttir og götur áður en svifrykið verður að vandamáli.
----o----
Eins og allir vita sem lesa bloggið mitt að staðaldri, þá hefi ég rekið Björn Inga frambjóðanda úr ætt við mig. Ég hefi hinsvegar unnið mikið og vel með ættingjum Önnu Kristinsdóttur, m.a. í störfum og ættfræði og hefi því aðeins fylgst með henni í borgarmálunum. Af gefnu tilefni hvet ég því þessa fáu Framsóknarmenn sem enn nenna að lesa bloggið mitt, til að sýna skynsemi með því að veita henni brautargengi innan Framsóknarflokksins fyrir kosningarnar í vor. Það gera þeir með því að kjósa hana í prófkjöri Framsóknarflokksins um helgina.
föstudagur, janúar 27, 2006
27. janúar 2006 - Um Palestínu
Ég hefi verið hálfslöpp í kvöld og ekki getað úthugsað neinn sæmilegan pistil til að setja hér inn. Þó hefur ein frétt borist mér sem mér þykir merkileg.
Það voru kosningar í Palestínu um daginn þar sem Hamas samtökin unnu afgerandi sigur þrátt fyrir beinar og óbeinar tilraunir Bandaríkjanna og Ísraels til að hafa áhrif á úrslit kosninganna. Meðal annars greiddu Bandaríkin Fatah samtökunum umtalsverðar upphæðir til kosningabaráttunnar og Ísrael gerði allt sem í þeirra valdi stóð til að hindra að Hamas gætu kynnt mál sín og frambjóðendur í Austur-Jerúsalem. Slík afskiptasemi af kosningum annars staðar hefði einhvern tímann þótt hið versta hneyksli, en nú brá svo við að fjölmiðlar á vesturlöndum sáu ekkert athugavert við þennan utanaðkomandi stuðning við Fatah. Ef fjölmiðlarnir hafa gert athugasemdir við þennan stuðning, hefur það ekki borist mér til heyrna. Til að bæta gráu ofan á svart hafa fulltrúar ríkisstjórnar Bandaríkjanna verið með stór orð gegn Hamas í fjölmiðlum eftir kosningarnar og lagt sitt á vogarskálarnar til að tryggja viðgang hatursins á þessum viðkvæmu tímum.
Fólkið í Palestínu hefur greinilega séð þetta betur en vestrænir fjölmiðlar og ákveðið að flykkja sér um Hamas, frekar en að styðja fulltrúa Bandaríkjanna og Ísraels. Með þessu ætla ég ekki að halda því fram að Abbas séu neinir sérstakir vinir Bandaríkjanna og Ísraels, en slík íhlutun í kosningar af þessu tagi hlýtur að vera alvarlega varhugaverð. Þá er og ljóst að Hamas hafa unnið mikið starf við félagsaðstoð í Palestínu og verið rödd fólksins á sama tíma og Fatah hafa iðulega komið fram við palestínsku þjóðina sem fulltrúar yfirstéttarinnar og hinna ógnandi valdhafa.
Ég ætla ekki að tjá mig sérstaklega um þessi úrslit né leggja fram sérstakt álit þessum tvennum stóru pólitísku samtökum í Palestínu, enda lítt kunnug málum þarna suðurfrá, en þessi úrslit koma mér allavega ekkert á óvart. Ég hefði sennilega orðið hissa ef þau hefðu farið á annan veg.
miðvikudagur, janúar 25, 2006
26. janúar 2006 - Ein illa þenkjandi
Um daginn, er Steingrímur Jóhann Sigfússon lenti útaf á flotta LandCruisernum sínum kom einhver púki upp í mér. Maðurinn hafði gefið sig út fyrir að aka á gamalli fasteign á hjólum, en var svo á flottum jeppa er hann ók útaf í Langadalnum. Ég heyrði svo á mál manna að þetta hefði verið LandCruiser 100 og trúði því eins og púkinn á fjósbitanum.
Nágrannar Steingríms voru mér ekki alveg sammála þótt þeir væru pólitískir andstæðingar sægreifans. Þetta hefði nú bara verið réttur og sléttur LandCruiser 90, sem einungis bláfátækir trillukarlar aka á. Þegar ég for svo að skoða myndirnar af flaki bílsins, kom í ljós að brettakantarnir sem voru með því fáa sem var heillegt reyndust ekki vera í samræmi við lúxusútgáfuna og varð ég því að éta fullyrðinguna ofan í mig.
Á miðvikudagsmorguninn glaðnaði aftur yfir mér. Daginn áður hafði Benz sportbíll af rándýrri gerð hafði orðið fyrir andvægi af krana sem kastast hafði af vörubílspalli og gjöreyðilagðist sportbíllinn, en bílstjórinn skrámaðist aðeins lítilsháttar, enda á gæðasportbíl. Nafn unga ökumannsins á sportbílnum vakti hinsvegar hjá mér grunsemdir. Sigfús Steingrímsson.
Ég fór beint í ættarskrárnar mínar og fann aðeins tvo unga menn með þessu nafni, einn 34 ára gamlan sem er ekki svo ungur lengur, og svo 21 árs gamlan son Steingríms Jóhanns Sigfússonar. Ekki var það til að bæta úr að drengurinn virtist kornungur af myndum að dæma.
Ég hafði samband við nágranna Steingríms fyrir norðan til að fullvissa mig um að þar væri sonurinn ljóslifandi kominn. Þau voru hinsvegar fljót að láta mig kyngja grunsemdum mínum á ný. Ég væri bara svona illa þenkjandi, því Steingrímur og fjölskylda væru strangheiðarleg þótt ýmislegt mætti setja út á stjórnmálaskoðanir þeirra.
Ég skammast mín oní tær.
----o----
Hetjurnar miklu í Halifaxhreppi burstuðu á þriðjudagskvöldið Burtviknu Albínóana (Burton Albion) á heimavelli hinna síðarnefndu með tveimur glæsilegum mörkum gegn afar ljótu marki heimaliðsins. Það er greinilegt að Burtviknu Albínóarnir eru eitthvað slappir þessa dagana því um daginn tókst þeim ekki að slá smáliðið Sameinaða Mannshesta (Manchester United) úr bikarkeppninni. Hetjurnar hugumstóru eru nú komnir í fjórða sæti í kvenfélagsdeildinni og hættulega nærri toppnum: Verða þær því að taka á honum stóra sínum til að halda sér í deildinni að ári í stað þess að lenda í langneðstu deild.
þriðjudagur, janúar 24, 2006
25. janúar 2006 - Gott fólk
Nágranni minn sem býr í blokkinni andspænis mér, fékk sér heimabíókerfi í haust. Það er með nærri 100” skjá eða meira, nánast eins og heill stofuveggur að horfa á kvikmyndir, sjónvarpsþætti, íþróttir og annað skemmtiefni. Algjör lúxus.
Ekki veit ég hvað þetta heimabíókerfi kostaði en dýrt hefur það verið. Þá veit ég ekkert um hljóðgæðin, því nágranni minn býr í 50 metra fjarlægð frá mér og stillir hljóðið svo lágt að ég heyri það ekki yfir bílastæðin. Ég neyddist því til að skella mér á sex mánaða heilsdagsnámskeið til að læra varalestur og nú fylgist ég með öllu sem fram fer í sjónvarpi nágranna míns. Ekki gerir það málin verri að hann er með sjónvarpið í gangi allan daginn og því missi ég ekki af neinu.
Ég gæti sagt upp áskriftinni að Ríkissjónvarpinu, ef ekki væri fyrir þá sök að nágranni minn er eitthvað lítið fyrir fréttir og veður og því næði ég ekki fréttunum, veðrinu og Kastljósinu ef ég væri ekki með eigið sjónvarpstæki.
----o----
Valur Geisli Höskuldsson sem á blogg hér til hliðar, stóð sig að sjálfsögðu með prýði í kvöld í Kastljósþætti, ávallt jafnstilltur, en hitti beint í mark með látleysi sínu og hógværð.
----o----
Svo langar mig til að þakka Gunnu í Gunnubúð kærlega fyrir sendinguna sem ég fékk með póstinum í dag. Hún kom sér vel og var vel þegin.
24. janúar 2006 - Færeyskir dagar í Ólafsvík
Á hverju ári undanfarin ár hafa Ólsarar haldið sína eigin þjóðhátíð til minningar um bestu menn bæjarfélagsins, Færeyinga. Það er vel, því sómi hefur verið að þeim, allt frá þeim tíma er þeir komu hingað til lands á vertíð og settust að í Ólafsvík sumir hverjir.
Einn kann þó að meta áhrif þeirra á bæjarlífið öðrum fremur, en það er Sturla Böðvarsson samgönguráðherra Færeyinga sem er fæddur og uppalinn í Ólafsvík, þótt hann hafi slysast í bæjarstjórastól í Stykkishólmi um tíma á fullorðinsaldri. Í krafti embættis síns hefur hann lagst gegn ýmsum nauðsynlegum úrbótum í samgöngumálum Íslendinga á sama tíma og hann hefur stutt vel og vandlega við samgöngumál Færeyinga. Þannig hefur hann lagt sín lóð á vogarskálarnar til að hindra lagningu Sundabrautar á stað sem nýtist Reykvíkingum best og nærsveitarfólki, svo ekki sé talað um gamla herflugvöllinn í Vatnsmýri og baráttu Sturlu fyrir áframhaldi hans.
Eins og sönnum Færeyjavini sæmir, vill hann að auki leggja rándýr jarðgöng sem munu seint borga sig, á milli tveggja fámennra kaupstaða og eyðileggja kyrrð friðsæls eyðifjarðar í leiðinni. Þá finnst honum gaman að sprengja dínamit eins og byggingatæknifræðingur gerir best og er Hornfirðingum enn í fersku minni snilldarlegir taktar hans á því sviði.
Íslenskum farmönnum er kannski helst minnistætt er Sturla tók á móti nýju skipi Samskipa fyrir hönd færeysku þjóðarinnar í janúar 2005. Með því lagði hann grafstein yfir íslenska farmennsku sem hafði lengi verið á fallandi fæti vegna afskiptaleysis íslenskra stjórnvalda, þá sérstaklega yfirvöldum samgöngumála á Íslandi. Til að staðfesta þessa stefnu Sturlu Böðvarssonar hefur Eimskip nú ákveðið að færa skiparekstur sinn til Færeyja og ríkir nú vafalaust fögnuður í ráðuneyti Sturlu Böðvarssonar.
Ég legg til að Sturla Böðvarsson verði gerður að heiðurborgara í Færeyjum.
Í frétt Morgunblaðsins af þessari mestu niðurlægingu íslenskrar farmannastéttar var birt mynd af Lagarfossi sem sigldi milli Íslands og Evrópu um skeið með áhöfn frá Filipseyjum.
-----o-----
Af íslenskri tungu.
Vafalaust hefur málfarsráðunaut Ríkisútvarpsins rekið í rogastans er Þóra Tómasdóttir kynnti atriði á eftirfarandi hátt: “Helga Vala Helgadóttir er sest hjá Jónatani Garðarssyni”.
Það er þá ekki í fyrsta sinn, því einhverju sinni lýsti hún “ógisslega” góðum tónleikum á Nasa.
Er kannski styttra í útrýmingu tungunnar en hundrað ár, þegar fyrirmyndirnar standa sig ekki betur en þetta, auk þess sem leikkona sem klifar í sífellu á orðunum "ógisslega" og "skilurru", fær tvenn verðlaun fyrir góða sjónvarpsþáttagerð?
mánudagur, janúar 23, 2006
23. janúar 2006 - Klukkuð
Nú er þrautin þyngri. Ég hefi verið klukkuð og verð að sjálfsögðu að svara kallinu, enda hefi ég ekkert að segja frá að sinni. Öll hin atriðin sem liggja mér á hjarta, verða að bíða betri tíma. Þá nenni ég ekki að skrifa einu sinni enn um Eyjagosið fyrir réttum 33 árum síðan. Ég hefi þá eitthvað til að skrifa um annað kvöld, en fótboltabullið verður að bíða betri tíma, enda á Halifaxhreppur sem tapaði glæsilega í gær, að mæta Brottviknu Albínóunum á þriðjudagskvöldið í kvenfélagsdeildinni. En hér kemur svarið við klukkinu:
Fjögur störf sem ég hef unnið um ævina:
Vélstjóri á flutningaskipum og fiskiskipum
Vélfræðingur í orkufyrirtækjum
Vélaprófanir nýrra díeselvéla
Tjónaskoðanir og blýantanögun
Fjórar bíómyndir sem ég gæti horft á aftur og aftur: (verst að ég á ekkert afspilunartæki)
Blazing Saddles
Das boot (sex tíma útgáfan)
The second serve
The Gods must be Crazy
Fjórir staðir sem ég hef búið á:
Mosfellssveit
Reykjavík
Vestmannaeyjar
Järfälla
Fjórir sjónvarpsþættir sem mér líkar:
Fréttir
Veður
Kastljós
Formúlan
Fjórir staðir sem ég hef heimsótt í fríum (áttu staðirnir ekki að byrja á M?):
Malmö
Mjóifjörður
Memphis
Mariehamn
Fjórar síður sem ég skoða daglega: (fyrir utan bloggsíðurnar)
http://www.mbl.is/
http://www.dn.se/
http://www.vedur.is/
http://www.baggalutur.is/
Fernt matarkyns sem ég held upp á:
Þverskorin ýsa með kartöflum og bráðnu sméri
Léttsteiktar nautalundir með bökuðum kartöflum og bernaissesósu
Steikt lambalæri með brúnuðum kartöflum, brúnsósu og grænum baunum
Köld kindasvið með jarðeplamauki
4 bækur sem ég les oft..í (ég er stundum með margar bækur á borðinu samtímis)
Vigurætt í tíu bindum
Ættir þingeyinga í þrettán bindum (14. bindi kemur svo í haust)
Borgfirskar æviskrár í tólf bindum (bíð eftir 13. bindi)
Dansk illustreret skibsliste (bíð í ofvæni eftir 2006 bókinni)
Fjórir staðir sem ég myndi heldur vilja vera á núna: (Helst vil ég alltaf sjá til Esjunnar, en auk þess):
Stokkhólmssvæðið í Svíþjóð (en ekki hvað?)
Þýskaland (þar er allt í röð og reglu)
Dalirnir heilla (föðurættin – móðurættin er við Esjurætur)
Brasilía (þar er þó hlýtt þessa dagana)
Fjórir bloggarar sem ég klukka:
Pollyanna (Gunna í Gunnubúð)
Þórður hjálparsveitarskátahöfðingi eða Chief Officer Safety á einhverjum dalli.
Steini negrakóngur
Rán J. verkfræðingur hjá réttu fyrirtæki
sunnudagur, janúar 22, 2006
22. janúar 2006 - Þorrablót
Það var í febrúar 1997 að starfsfólk Hitaveitu Reykjavíkur hélt í veisluferð með langferðabifreiðum frá Hitaveitunni við Grensásveg í Reykjavík og eftir að hafa smalað nokkrum væntanlegum veislugestum í bílana í Árbæ og Mosfellsbæ, var haldið áleiðis í Hvalfjörðinn. Fólk var ekki búið til veislu í sparifatnaði, en flestir voru með kuldagallann með sér eða þá einhver önnur hlý föt og ekki var veðrið hið ákjósanlegasta, strekkingsvindur og slydda. Það var haldið sem leið lá Kjósina uns komið var til Hvammsvíkur. Þar var okkur sleppt úr bílunum við söluskálann sem var notaður til sölu veiðileyfa, golfiðkana og síðar kajakróðra á sumrin.
Um það bil helmingur þorrablótsgesta hélt í gönguferð í átt að Staupasteini. Þar hafði skemmtinefndin komið fyrir veitingum til að tryggja að fólk yrði ekki þurrbrjósta í gönguferðinni, en fólkið hafði þó ekki farið langt þegar skall á kafaldshríð. Þegar hópurinn sem beið í söluskálanum var farinn að óttast um afdrif göngugarpanna, var langferðabifreið send af stað til að leita þeirra og náði að finna allan hópinn nokkuð hrakinn við Staupastein og keyra með hann til baka til Hvammsvíkur.
Síðan hófst hið eiginlega þorrablót. Það var haldið í hlöðinni við gamla bæinn í Hvammsvík. Þar var ekkert rafmagn, engin kynding og ekkert salerni, hinsvegar nóg til af veigum og þorramat. Það var sungið saman og dansað á malarsléttuðu moldargólfinu, í bjarma kertaljósa sem hafði verið haganlega fyrirkomið í vegghleðslum hlöðunnar, við undirleik harmonikuleikara. Flest eða öll skemmtiatriðin voru flutt af fingrum fram af veislugestunum sjálfum sem þurftu að vera í kuldagöllunum í kaldri hlöðunni meðan óveðrið geysaði utandyra og mátti stórpassa sig á formanni starfsmannafélagsins er hann sveiflaði litlu heimagerðu ræðupúltinu eins og hljómsveitarpriki við fjöldasönginn. Tveir Svíar sem voru að sinna prófverkefni hjá Hitaveitunni skiluðu sínum frumsömdu atriðum svo eftirminnilegt var og áttu sinn þátt í að gera kvöldið ógleymanlegt.
Þegar leið á kvöldið fór salernisskortur að gera vart við sig. Ekki var til að bæta úr, að á milli 100 og 200 metrar voru frá hlöðunni og yfir í söluskálann þar sem tvö eða þrjú salerni voru. Loks var gripið til þess ráðs að girða af bása í aflögðu fjósinu svo fólk gæti gert þarfir sínar án þess að eiga á hættu að verða úti í stórhríðinni sem geysaði utandyra.
Komið var langt fram á nóttina þegar fólki fannst tími til kominn til að halda heim á leið. Einhvernveginn tókst að smala öllum veislugestum upp í langferðabílana og halda til Reykjavíkur og gekk sú ferð ágætlega þrátt fyrir slæma færð á leiðinni. Má segja að sjaldan hafi eitt þorrablót verið jafnvel heppnað og þrátt fyrir talsverða ölvun, þurfti enginn veislugesta að vera með slæma samvisku daginn eftir.
Ári síðar var leikurinn endurtekinn. Það árið var byrjað með fordrykk við borholu 13 í dælustöðinni á Reykjum í Mosfellsbæ áður en haldið var til Hvammsvíkur. Þá var skaplegt veður allt þorrablótið, olíuknúinn masterblásari notaður til að halda yl á hlöðunni og Svíarnir löngu búnir að ljúka sínu verkfræðiverkefni og farnir heim. Þótt seinna þorrablótið 1998 hafi lent í öðru sæti yfir skemmtilegustu þorrablót sem ég hefi tekið þátt í, þá vantaði einhvernveginn þann skemmtilega neista sem skapaðist í óveðrinu, kuldanum og hrakningunum árið áður. Það var jafnframt síðasta þorrablótið sem litla Hitaveitan gat haldið þorrablót ein sér því áramótin á eftir voru veiturnar sameinaðar og síðan hefur ekki verið mögulegt að halda þorrablót í sama anda og þau sem voru haldin 1997 og 1998 sökum mikils fjölda starfsmanna.
Ég minnist þess að hafa einu sinni tekið þátt í þorrablóti hjá Orkuveitunni eftir þetta. Það var haldið í Versölum við Hallveigarstíg í Reykjavík og var óskaplega stillt og pent með hljómsveit, borðalögðum þjónum og fólk í sínu fínasta pússi. Þegar veislugestir fóru að dansa línudans í siffonkjólum og jakkafötum, labbaði ég út.
laugardagur, janúar 21, 2006
21. janúar 2006 - Ályktunin
Nú hafa ýmsir sértrúarsöfnuðir samþykkt ályktun þar sem lýst er yfir stuðningi við kaldar kveðjur biskups til samkynhneigðra. Um leið eru þessir hópar að krefjast þess að haldið verði áfram að mismuna fólki eftir kynhegðun þótt slíkt sé brot á 233 gr. hegningarlaganna.
Þetta kemur mér ekkert á óvart. Þessir smásöfnuðir eru margsinnis brotlegir við þessa sömu lagagrein þótt ekki hafi verið látið á það reyna fyrir dómstólum. Að biskup skuli byrja að herma eftir þeim þykir mér öllu verra, því það er andstætt boðum nýja testamentisins sem boða kærleika og fyrirgefningu.
Auk þessara tuttugu trúarhópa skrifa 19 einstaklingar einnig undir þessa ályktun. Þetta eru nokkrir einstaklingar sem hafa sagt sig frá trúfélögum eins og Guðlaugur Laufdal og Kolbrún Jónsdóttir sem voru áður í Krossinum og gamlir afdankaðir prestar og fleiri. Þá þarf ég ekki að efa stuðning Jóns Vals Jenssonar vinar míns við þessa ályktun, en margt í skoðunum hans brýtur gróflega í bága við almennar siðferðisreglur kristninnar eins og stuðningur hans við dauðarefsingar sem einungis eru enn við lýði í verstu afturhaldsríkjum.
Verra finnst mér að sjá Halldór Gröndal á listanum þegar haft er í huga að hann átti í baráttu við fordóma samborgara sinna sem margir höfnuðu honum er hann sótti um embætti í Reykjavík, sökum fyrri starfa hans sem veitingamaður og barþjónn. Verst þykir mér þó að sjá Loft Reimar Gissurarson á þessum lista. Ég hefi ávallt litið upp til hans og hefi ekki séð annað til hans en sem bendir til eindregins jafnréttissinna.
Ég sé það betur og betur hve Hjörtur Magni Jóhannesson er að berjast við marga drauga í samfélaginu, þvílíkt þrekvirki hann er að vinna ásamt örfáum öðrum prestum á borð við hjónin Bjarna Karlsson og Jónu Hrönn Bolladóttur.
Ályktunin
fimmtudagur, janúar 19, 2006
20. janúar 2006 - Af sægreifum
Eins og gefur að skilja á skrifum mínum, á ég bágt með að hætta að vorkenna Steingrími J. Sigfússyni eftir slysið sem hann lenti í á sunnudagskvöldið. Það hefur sínar eðlilegu skýringar því hann hefur gefið sig út fyrir að vera heilsteyptur og málefnalegur stjórnmálamaður.
Steingrímur hefur oft gefið sig út fyrir að aka á milli kjósenda sinna á ævafornum Volvó 144 frá því snemma á áttunda áratugnum, ef ég man rétt, grænum að lit. Slíkur bíll þykir ekkert sérstaklega umhverfisvænn, enda framleiddur löngu fyrir daga Vinstri-grænna. Á móti þykir bíllinn einstakt dæmi um góða nýtni Steingríms á fjármunum og nýtni bifreiðar hvar sem hann fer akandi á gamla hræinu.
En upp komast svik um síðir. Síðastliðið sunnudagskvöld ók alþingismaðurinn útaf og stórskemmdi eða eyðilagði bílinn sinn. Af myndum að dæma var græni Volvóinn orðinn grár og kominn með jeppalag. Þóttust nú sumir þekkja sægreifann, enda bíllinn sömu gerðar og Samherjafrændur aka á sem og Steini stórkapteinn á Alla ríka SU-11. Bifreiðin mun heita Toyota LandCruiser 100 og kostar einn slíkur, nýr og óbreyttur, litlar sjö milljónir króna. Það er eins gott að Steingrímur á vænan hlutabréfasjóð í Hraðfrystihúsi Þórshafnar auk nánasarlegs þingfararkaupsins til að geta rekið svona sægreifajeppa.
---
Hugur minn nú er til Ísafjarðar þar sem ung stúlka lést í hörmulegu slysi í gær.
---
Enn spyr ég hvort einhver viti hvenær eigi að sýna kvikmyndina Transamerica á Íslandi? Ég spurði sömu spurningar í gær, en þessir fjórir lesendur bloggsins míns vissu ekki svarið. Kannski læðist einhver inn í dag sem veit svarið!
miðvikudagur, janúar 18, 2006
19. janúar 2006 - Af rifbeinsbrotum og fleiru
Þegar ég heyrði af rifbeinsbrotasögu Steingríms J. Sigfússonar í Langadal á sunnudagskvöldið, datt mér í hug eitt sinn er ég fór með þýsku leiguskipi Eimskipafélagsins vestur á Ísafjörð fyrir rúmum tveimur áratugum, að lesta rækjugáma og fara með þá til Álaborgar.
Þrátt fyrir mjög slæmt veður á Ísafirði, var haldið áfram að lesta skipið eins og unnt var, hinn þýski stýrimaður stóð á dekki og stjórnaði lestuninni, en ég tengdi gámana og kom þeim í gang. Þetta gekk vel lengi vel, eða þar til komið var langt framá kvöld að vindhviða náði að feykja til gám sem var verið að hífa um borð og kom sveifla á hann. Lenti gámurinn með nokkru afli á stýrimanninum sem klemmdist á milli gámsins og annars gáms sem var fastur á lestarlúgunni. Manngreyið var auðvitað alveg miður sín eftir höggið og leið hræðilega illa, settist niður og kunni ekki að mæla, en var þó með fullri meðvitund.
Lögregla og sjúkralið voru kölluð til og manninum ekið með hraði upp á spítala og lagður þar inn og síðan var lestun skipsins lokið án frekari aðkomu stýrimannsins. Áður en farið var úr höfn á Ísafirði morguninn eftir kom lögreglan um borð með manninn og með þau skilaboð frá læknakandidatinum á vaktinni að sjúklingurinn væri viðbeinsbrotinn og þyrfti bara að vera í koju og hafa hægt um sig á útleiðinni. Eitthvað fannst áhöfninni þetta furðuleg ráðstöfun, ekki síst í ljósi þess að maðurinn var sárþjáður, en lét sér samt segjast og var síðan haldið úr höfn.
Eftir um það bil klukkustundar siglingu, var kallað í skipið frá Ísafjarðarradíó og þess óskað að skipið snéri við hið bráðasta og skilaði sjúklingnum aftur til Ísafjarðar. Hafði yfirlæknirinn á spítalanum farið að skoða röntgenmyndirnar af vesalings stýrimanninum eftir að hann mætti til vinnu um morguninn og fundið að flest eða öll rifbein öðru megin væru brotin og lunga fallið saman auk viðbeinsbrots og fleiri áverka, ekkert ósvipuð lýsing og nú heyrist af Steingrími.
Stýrimanninum var skilað í land og síðan héldum við áfram til Danmerkur. Tveimur vikum síðar losnaði karlkvölin af spítalanum og þá til þess eins að fara beint heim til Þýskalands í áframhaldandi veikindaleyfi og kom hann ekki um borð aftur. Nokkru síðar tók íslensk áhöfn við skipinu og var skipið síðan í eigu Eimskipafélagsins í mörg ár eftir þetta og reyndist það vel.
-----o-----
Mig langar til að kasta fram örlítilli spurningu til þessara örfáu lesenda minna sem enn hafa þá þolinmæði að nenna að lesa bloggið mitt. Spurningin er hvort þeir þekki til kvikmyndarinnar Transamerica sem fékk GoldenGlobe verðlaun um daginn og þá fyrir besta dramatíska leik í kvenhlutverki, en þau hlaut Felicity Huffman fyrir leik sinn sem hin transsexuella Stanley 'Bree' Osbourne.
Mig langar til að vita hvort og þá hvenær standi til að sýna umrædda kvikmynd á Íslandi, en ég hefi ekki farið í bíó síðan ég sá hina ágætu þýsku kvikmynd Goodbye Lenin í Háskólabíó haustið 2004. Kominn tími til að kíkja í bíó.
-----o-----
Þær slæmu fregnir voru svo að berast, að burtflognu Albínóarnir hafi tapað fyrir smáliðinu Sameinuðum Mannshestum á Old Trafford með fimm mörkum gegn engu. Hvernig fara þeir að þegar þeir mæta alvöru stórliði þriðjudaginn 24. janúar, sjálfum Halifaxhreppi í kvenfélagsdeildinni?
18. janúar 2006 - Af alþingismönnum ofl.
Steingrímur J. Sigfússon alþingismaður lenti í alvarlegu bílslysi í fyrrinótt og liggur nú illa slasaður á sjúkrahúsi. Í fréttum Stöðvar 2 í gærkvöldi var þess getið að bæði Guðjón Arnar Kristjánsson og Kristján L. Möller hefðu sloppið með skrekkinn er þeir lentu í svipuðum atvikum og Steingrímur. Þá hefur heyrst að tveir alþingismenn hafi misst ökuskírteinið á kjörtímabilinu sökum ölvunar undir stýri.
Þegar ég heyri slíkar fréttir af alþingismönnum, þá fer ég að velta fyrir mér hvort alþingismenn séu yfirleitt hæfir til að aka bifreiðum? Allavega myndi ég hugsa mig tvisvar um áður en ég myndi lána alþingismanni bílinn minn.
Með þessum orðum óska ég Steingrími fljóts og góðs bata.
---o---
Konur í Sjálfstæðisflokknum hafa komið saman og ályktað um framboðsmál vegna þeirrar stöðu sem komin er upp í framboðsmálum til bæjarstjórnar í Garðabæ þar sem fjórir efstu frambjóðendur flokksins eru karlmenn. Sýnt var frá þessum fundi í sjónvarpinu og sá ég ekki betur en að ein fundarkvenna hafi verið Helga Guðrún Jónasdóttir sem látin var víkja af lista Sjálfstæðisflokksins fyrir síðustu alþingiskosningar til að rýma sæti fyrir Bjarna Benediktssyni sem taldist vera vonarprins flokksins í Suðvesturkjördæmi. Af hverju? Ég er viss um að Helga hefði sinnt þingmennsku ekki síður en Bjarni og jafnvel betur, enda löngu þekkt fyrir skeleggan baráttuanda og skemmtilega framkomu.
---o---
Eins og allir vita sem lesið hafa pistla mína, er ég áköf stuðningsmanneskja virkjanaframkvæmda á hálendinu og uppbyggingu stóriðnaðar. Á Alþingi í gær heyrði ég í öðrum virkjanasinna, sjálfri prestsmaddömunni á Mosfelli sem ekki einungis vill útrýma rjúpunni, heldur og virkja allt sem hægt er að virkja, en síðast en ekki síst var hún fylgjandi innrás Bandaríkjanna og leppríkja þeirra í Írak.
Er manneskjan hæf í jafn mikilvægt embætti sem að stjórna umhverfismálum?
---o---
Loks fær elsti bróðir minn samúðaróskir með 65 ára afmælið.
þriðjudagur, janúar 17, 2006
17. janúar 2006 - Vetrarfærð
Á sunnudag var ég að fylgjast með bílum úti á bílastæði á milli húsa hér í Árbænum og hafði gaman af. Ég sá eldri hjón fara út í nýlega smábílinn sinn og reyna að bakka úr stæði. Það var ekki mikill snjór á bílastæðunum, en hann var nokkuð laus í sér og gat valdið erfiðleikum fyrir smábíla á sumardekkjum og klaufa. Þetta gekk fremur illa því maðurinn steig bensíngjöfina í botn og svo spólaði hann og spólaði. Eftir hátt í hálftíma spól hafði honum tekist að mjaka bílnum aftur um eina og hálfa bíllengd, nóg til að geta beygt og spólað af stað með miklum tilþrifum. Mér datt ekki til hugar að fara út til að hjálpa. Ljóst var að maðurinn kunni ekki að aka bíl í vetrarfærð og bíllinn vanbúinn til vetraraksturs í tiltölulega litlum snjó og betra væri fyrir slíkt fólk að nýta sér þjónustu almenningsfarartækja.
Mitt ofan í fréttir af fjöldaárekstrum og árekstrahrinum, berast fréttir af tillögum starfshóps um vandamál tengd nagladekkjum í Reykjavík. Þar er reynt að fara pyngjuleiðina að fólki og láta greiða gjald fyrir notkun nagladekkja. Hrædd er ég um að þá fjölgi talsvert klaufum í umferðinni á borð við þann sem var að spóla á stæðinu fyrir framan húsið heima hjá mér. Væri kannski betra að banna notkun smábíla með framhjóladrifi og bíla með afturhjóladrifi?
Þegar ég gekk til vinnu á mánudagsmorguninn, leið mér óskaplega vel að þurfa ekki að moka snjó af fjórhjóladrifna vinstrigræna bílnum mínum um leið og ég horfði vorkunnaraugum á einn nágrannann spólandi á bílastæðinu. Mér datt ekki til hugar að bjóða honum aðstoð.
Ég vorkenni nágrönnum mínum að eiga svona nágranna eins og mig.
-----oOo-----
Svo er auðvitað sjálfsagt að óska Davíð til hamingju með 58 ára afmælið sitt.
sunnudagur, janúar 15, 2006
16. janúar 2006 - Sr. Hjálmar Jónsson dómkirkjuprestur...
Það hlaut að vera. Skelfing hefi ég verið vitlaus að trúa svona bókstaflega á orð biskups. Ég hlýt að vera orðin svona bókstafstrúar. Auðvitað meinti biskup allt annað en hann sagði. Ég fagna þessu mjög og trúi því og treysti að biskup reyni ekki að hafa áhrif á löggjafarvaldið og styðji framkomið frumvarp á Alþingi með þeirri breytingartillögu sem Guðrún Ögmundsdóttir hefur lagt fram.
Það er svo spurning hvort ekki þurfi að gefa út sérstaka orðabók svo þau ummæli sem biskupinn lætur frá sér fara skiljist rétt í framtíðinni?
-----oOo-----
Ég fylgdist með nýja sakamálaflokknum í sjónvarpinu í gærkvöldi og fannst byrjunin lofa góðu, mörg lítt þekkt andlit á skjánum og áhugaverð atburðarás. Þó var tvennt sem mér fannst athugavert við þessa mynd. Einhverjir eldri leikaranna léku eins og væru þeir á leiksviði, en ekki í kvikmynd og urðu þeir því óraunverulegir. Þá voru senur frá lögfræðiskrifstofu Ara teknar í ljótasta húsi Reykjavíkur, Ístakshúsinu við Engjateig, en veggir þar eru ýmist úr berum ómáluðum steini, glæru gleri eða ryðguðum járnplötum.
Ég man er ég kom þar inn í fyrsta sinn og spurði mann sem var að vinna þar í afgreiðslunni, af hverju hefði verið flutt inn í fokhelt húsið? “Það á að vera svona,” svaraði maðurinn hálfámáttlega.
15. janúar 2006 - Málið er, að....
Ég fékk heimsókn í gærkvöldi. Frá fyrri tíð minntist ég þess er ég hvatti tvo irkara til að kíkja til mín í whiskýlögg, en kláraði flöskuna sjálf án neinnar aðstoðar. Því rann mér blóðið til skyldunnar og ég bauð þessum tveimur irkfélögum í whiskýtár.
Þegar kvöldið rann upp upp hringdi ég í annan þeirra. “Varstu ekki að gera grín?” spurði hann og tilkynnti forföll. Hinn mætti, en til þess að sitja ekki ein af bokkunni, hringdi ég í góðan ættfræðifélaga sem ekki komst til drykkjunnar. Því sáum við tvö ein að drykkju allt kvöldið og fram eftir nóttu og reyndum að leysa lífsgátuna.
“Málið er,” sagði ég og félaginn svaraði samstundis. “Hvaða mál”, svaraði félaginn. Þú tönnlast sínkt og heilagt á orðunum “Málið er”, viltu gjöra svo vel að hætta þessu rugli.”
Loks urðum við sammála um að ég hætti að nota orðin Málið er, gegn því skilyrði að hann hætti að nota SilvíuNæturheilkennið og að segja hve allt væri ógisslega flott.
Ekki tókst okkur að leysa lífsgátuna þótt við færum langa leið að henni. Þó er ljóst að 21 árs gamall Glenninn rann ljúflega í kverkar okkar. Þegar félaginn var farinn, skreið ég í rúmið mitt, þetta rúm á heimili mínu sem ég hafði keypt fyrir tæpu ári og ætlað sjálfri mér. Af einhverjum ástæðum komst aldrei í verk að sofa í rúminu því tveir “leigjendur” sváfu þar í samtals sjö mánuði. Nú ætlum við, ég, Hrafnhildur og Tárhildur að eigna okkur rúmið og njóta þess að sofa án þess að traðka hver ofan á annarri.
laugardagur, janúar 14, 2006
14. janúar 2006 - Eiturnöðrur?
Í gær bárust þær fregnir um allt landið og miðin, að Jónas Kristjánsson og Mikael Torfason væru hættir störfum á DV. Mikið var það nú gott. En er það nóg?
Í fjölda ára hefur Eiríkur Jónsson fyrirsagnahöfundur DV og einn helsti boðberi siðleysisstefnu DV setið þar á stól sínum, og situr enn. Talstöðinni stjórnar nú fyrrverandi ritstjóri DV, Illugi Jökulsson sem er einn helsti hugmyndafræðingur siðlausu stefnunnar á blaðinu. Yfir batteríinu trónir svo Gunnar Smári Egilsson yfirritstjóri og dæmdur mannorðsmorðingi sem þó neitar því að hann sé yfirritstjóri, þrætir eins og sprúttsali og svarar engu og vísar á ritstjón DV.
Þvílíkur hópur.
Ég heyrði viðtal við Reyni Traustason í útvarpinu í gær þar sem hann talaði alltaf um mistök ritstjóra DV í fréttinni síðastliðinn þriðjudag og sem kostaði mannslíf. Þrátt fyrir hrifningu mína á heiðarleika og baráttu Reynis fyrir lítilmagann, get ég ekki litið á þessa frétt sem mistök og að ritstjórarnir hafi gengið of langt í þetta eina sinn. Þvert á móti hafa ritstjórarnir hvað eftir annað stigið á fingurna á þjóðinni og í hvert sinn sem þjóðin hefur æmt af sársauka hafa þeir svarað með því að ganga ennþá lengra. Því var forsíða DV síðastliðinn þriðjudag ásetningsbrot stjórnað af einbeittum brotavilja. Því á að refsa þessum mönnum.
Ég er hinsvegar ekki viss um að brottför og hugsanleg refsing Mikaels og Jónasar sé nóg. Sá sem stjórnar stefnunni á DV er Gunnar Smári Egilsson og hans hægri hönd og leiðbeinandi í mannorðsmorðum er Eiríkur Jónsson samanber viðtal við Gunnar Smára sem flutt var á Aðalstöðinni sálugu sumarið 1996. Illugi Jökulsson þótti mjög aðsópsmikill er hann var með pistla á Rás 1 og einnig um tíma á Stöð 2 skömmu eftir að hún byrjaði með morgunsjónvarp. Þar vóg hann á báðar hendur, en rétt eins og öðrum kjöftugum mönnum, þá fór svo að hann fletti ofan af ónefndum manni sem hafði verið sýknaður í Hæstarétti fyrir kynferðsbrot gegn dóttur sinni. Þetta varð til þess að þessi ónefndi maður varð að segja opinberri stöðu sinni lausri og flúði land. Þegar DV fór seinna á hausinn og endurreist aftur í stíl Gunnars og Eiríks, þótti sjálfsagt að slíkur afburðauppljóstrari yrði gerður að ritstjóra. Þótt Illugi sé nú löngu orðinn útvarpsstjóri á Talstöðinni, situr hann enn með refsidóma á bakinu fyrir meiðyrði eftir ritstjórnarferilinn á DV.
Þjóðfélagið hefur vart talað um annað síðustu þrjá dagana en Ísafjarðarmálið og æsifréttamennsku DV. Tveggja sólarhringa undirskriftasöfnun á netinu sló öll met og söfnuðust 32044 undirskriftir á þessum tíma. Þær hefðu sennilega orðið mun fleiri ef tölvukerfið hjá aðstandendum undirskriftasöfnunarinnar hefði ekki hrunið vegna mikils álags eftir nokkra klukkutíma. Sjálf hefi ég heyrt í mörgum sem hafa lýst viðurstyggð sinni á skrifum DV, en ég hefi einnig heyrt í tveimur mönnum sem hafa stutt við ritstjórnarstefnu DV án þess að vera tengdir blaðinu. Annar þeirra mótmælti veitingu fálkaorðunnar til “kynvilllings” á spjallrásum (innherjum) vísis.is eftir að Þorvaldur Kristinsson hafði hlotið hana sumarið 2004. Svo langt gekk hann í hommahatrinu að rásarstjórnin varð að loka á hann. Hinum manninum þótti verst að missa af slúðrinu í DV (því hinu sama sem Jónas kallar sannleika).
Með þessum þungu orðum mínum vil ég taka skýrt fram að orðum mínum er ekki beint að öðrum blaðamönnum á Íslandi. Ég hefi kynnst mörgum ágætum blaða og fréttamönnum og langflestir vinna störf sín af kostgæfni, hógværð og tillitssemi við þá sem talað er við og fjallað um. Undantekningin er þó þessi:
Ritstjórn DV sem hafði þjóðina að fíflum, en jafnvel mestu fíflum getur sárnað og barið til baka og þá verður ekkert gefið eftir.
föstudagur, janúar 13, 2006
13. janúar 2006 - 2. kafli - Að taka pokann sinn
Ég er að velta fyrir mér hvort sumir (með fínan ritsjóratitil) verði ekki látnir taka pokann sinn í dag. Ef svo fer, þá hefur farið fé betra.
13. janúar 2006 - Um biskup Íslands
Ég hefi einu sinni lent í hjónabandi. Hjónabandið reyndist byggt á sandi og eftir tæpan áratug var því kastað á ruslahaugana. Þó var það flokkað sem gagnkynhneigt hjónaband og blessað af Drottins þjóni (sá olli reyndar hneykslun innan prestastéttarinnar er hann skildi við konu sína og náði sér í sænskan sjúkraþjálfara), enda var til þess stofnað á tímum þegar samkynhneigt fólk var enn fordæmt af almenningi á Íslandi. Þegar ljóst var að skilnaður væri óumflýjanlegur, var haldið til prests sem staðfesti fyrir Guði og mönnum að hjónabandið væri best komið á ruslahaugunum. Umræddur prestur var séra Karl Sigurbjörnsson, núverandi biskup Íslands.
Einhverjum áratugum síðar lýsti þessi sami prestur því hvernig hjónabandið færi á ruslahaugana ef samkynhneigðir nytu sömu blessunar kirkjunnar og gagnkynhneigðir. Nokkur reiði varð út í biskup vegna þessara orða hans í nýársprédikun og urðu nokkur blaðaskrif vegna þessa. Sjálfur greip biskup til varnar og dró ekkert í land frá fyrri orðum sínum sbr frétt í Rikisútvarpinu 12. janúar.
Ég hefi aldrei talið mig heittrúaða. Ég trúi á eitthvert Almætti sem ég kalla Guð, en ég trúi ekki á Hann, þ.e. einhvern gamlan síðskeggjaðan karl í hvítum kjól á himnum. Fyrir mér er Almættið kynlaust, hið góða í okkur öllum, kærleikurinn og fyrirgefningin. Þá hafna ég einhverjum leiðarvísi í orðum sem einhverjir skrifuðu fyrir þúsundum ára síðan og eru uppfull af mótsetningum og fordæmingum og notað miskunnarlaust til fordæmingar, en hika ekki við að velja það sem er gott og uppbyggilegt í Nýja testamentinu til blessunar mannkyni öllu.
Þessar skoðanir mínar gera mér það ómögulegt að yfirgefa barnatrú mína fyrir einhvern sértrúarsöfnuð sem trúir bókstaflega á allt ritað í Biblíunni þótt það hafi hugsanlega tekið kúvendingum í tímanna rás. Á sama hátt get ég einnig hafnað einhverju embættismannavaldi sem afneitar kærleikanum fyrir fordómafullar kreddur í garð þeirra sem hafa kosið að njóta samvista og ástar án tillits til kynferðis.
Hingað til hefur mér ekki dottið til hugar að ganga úr þjóðkirkjunni. Ef biskup tekst að hindra að samkynhneigðir fái sömu réttindi og gagnkynhneigðir til hjónabands og kirkjulegrar blessunar, verð ég hinsvegar að endurskoða afstöðu mína til kirkjunnar sem opinberrar stofnunar.
fimmtudagur, janúar 12, 2006
12. janúar 2006 - Jónas Kristjánsson ...
... kann ekki að skammast sín. Það er miður. Því er ekki nema eitt að gera og vona ég að það verði gert, að Jónas Kristjánsson og félagar verði dregnir fyrir dómara þar sem þeir fái makleg málagjöld.
Arna Schram formaður Blaðamannafélagsins benti á það í útvarpsviðtali í dag að ætlunin væri ekki að reka Jónas og félaga úr Blaðamannafélaginu að sinni, enda gætu þeir þá farið sínu fram án afskipta siðnefndar Blaðamannafélagsins. Þetta er alveg rétt hjá henni. Jónas Kristjánsson myndi örugglega fara sínu fram þótt hann yrði rekinn úr Blaðamannafélaginu. Hann hefur reyndar lýst því yfir að hann ætli að fara sínu fram þótt hann sé í Blaðamannafélaginu. Hið einasta sem Blaðamannafélaginu ber því að gera, er að stuðla að því að draga Jónas og Mikael og félaga fyrir dómara, þótt ekki sé það til annars en að hreinþvo aðra blaðamenn af þeim sora sem umlykur DV í dag.
Nokkrum sinnum hafa blaðamenn DV hringt í mig á undanförnum árum til að leita álits á einstöku málum þar sem ég er talin hafa eitthvert vit á. Ég hefi svarað þeim og reynt að útskýra þau vandkvæði sem uppi voru, án þess þó að um viðtöl væri að ræða. Í dag spyr ég mig þess hvort ekki hefði verið betra að skella á þá þegar þeir hringdu, þá eftir að DV var endurreist eftir gjaldþrotið.
Mikið skelfing hefur þetta blað óg stjórnendur þess sokkið djúpt frá þeim tíma sem liðinn er frá þeim tíma er Jónas Kristjánsson var rekinn frá Vísi árið 1975 og tók þátt í að stofna Dagblaðið.
miðvikudagur, janúar 11, 2006
11. janúar 2006 - Hvenær drepur maður mann ...
...og hvenær drepur maður ekki mann? Það er full ástæða til að spyrja sig þessarar spurningar eftir síðustu “uppljóstranir” DV, sem leiddu til þess að maður á sextugsaldri svipti sig lífi.
Hvað eftir annað hafa ritstjórar DV gengið lengra í ærumeiðandi ummælum sínum um menn og málefni en þekkist annarsstaðar. Undanfarin misseri hafa hrúgast upp kærur á hendur ritstjórum blaðsins, þeim Jónasi Kristjánssyni, Mikael Torfasyni og Illuga Jökulssyni fyrrverandi ritstjóra fyrir ærumeiðingar og mannorðsmorð. Nú er ekki lengur um að það ræða að svipta fólk ærunni, heldur hafa orð þeirra nú kostað líf fórnarlambs ritstjóranna, kannski fleiri en eitt. Ekki veit ég.
Um sekt eða sakleysi mannsins sem svipti sig lífi eftir fréttaflutning DV er óþarfi að fjölyrða. Með fréttaflutningi sínum hefur ritstjórum DV ekki aðeins tekist að svipta manninn helgasta rétti sérhverrar manneskju, sjálfu lífinu, heldur hafa þeir einnig hindrað framgang réttvísinnar í rannsókn á hendur umræddum manni fyrir meint kynferðisafbrot. Þá þekkti ég manninn ekki persónulega og veit fátt um hagi hans annað en að hann var talinn frábær og skemmtilegur rithöfundur samanber bækur sem komið hafa út á undanförnum árum og skráðar af honum.
Jónas Kristjánsson segist ekki vera beinn málsaðili að þessu máli í viðtali. Það er rangt. Hann er besta falli samsekur um að stuðla að mannsláti, í versta falli jafnsekur um manndráp og sá sem fremur verknaðinn. Ég vona það svo sannarlega að fjölskylda mannsins sem lést eftir fréttaflutning DV leggi fram kæru á hendur ritstjórum DV ásamt og þeim blaðamönnum sem unnu að greininni svo að þeir hljóti réttláta refsingu fyrir glæpi sína.
Um leið skora ég á eigendur DV að hlutast til þess þegar í stað að ritstjórum DV, þeim Jónasi Kristjánssyni og Mikael Torfasyni ásamt yfirritstjóranum Gunnari Smára Egilssyni, verði þegar í stað vikið úr störfum sínum á meðan rannsókn fer fram í refsimáli á hendur þeim.
Með þessum orðum vil ég votta ástvinum hins látna samúð mína
þriðjudagur, janúar 10, 2006
10. janúar 2006 - 300.000
Í gærmorgun urðu Íslendingar 300.000 samkvæmt bráðabirgðatölum Hagstofunnar. Það er stórt stökk frá fyrsta heildarmanntali sem gert var í heiminum árið 1703, en þá voru Íslendingar taldir vera 50358. Síðar kom í ljós að vantalið var um nokkra einstaklinga og hafa fundist gögn um nokkra einstaklinga sem ekki voru með í umræddu manntali en voru sannanlega á lífi á þessum tíma.
Þess má geta að erindisbréf um manntal var sent Árna Magnússyni árið 1702 og mun hann sjálfur hafa sent erindisbréfið áfram til íslenskra embættismanna og þá mun nákvæmara en það bréf sem hann fékk sjálfur í hendur. Má því þakka Árna persónulega fyrir þetta fyrsta nákvæma manntal sem gert var í heiminum. Þess verður þó að geta, að umræddur Árni er ekki sá sem nú gegnir stöðu félagsmálaráðherra.
Tæpum hundrað árum síðar, í kjölfar móðurharðinda og mannfellis 1783-1784, hafði íbúum Íslands fækkað nokkuð, en voru þó taldir vera 47227 árið 1801. Þar vantar einnig nokkra einstaklinga og hefi ég eftir ættfróðum mönnum, að í manntalið vanti á annað hundrað einstaklinga. Þeirra á meðal er fjölskyldan og áar mínir sem settist að í Kýrholti í Viðvíkursveit í Skagafirði árið 1801, Einar Illugason frá Arnarhóli í Reykjavík, kona hans Guðrún Gunnlaugsdóttir frá Hróarsdal í Hegranesi og ellefu ára sonur þeirra Eyjólfur síðar bóndi í Saltvík á Kjalarnesi og víðar, síðast á Akranesi.
Upp úr þessu fer íbúum Íslands að fjölga nokkuð, voru taldir vera 56035 árið 1835 og 61603 árið 1845. Árið 1901 voru íbúar Íslands komnir upp í 78470, tíu árum síðar í 85183 og munu svo hafa skriðið upp yfir hundrað þúsund snemma á þriðja áratugnum en voru 108861 árið 1930. Þeir náðu svo 200000 árið 1968 og nú í gær 300000.
Ég held að það sé ljóst að langan tíma tekur að fjölga íslensku þjóðinni um næstu hundrað þúsund. Það hefur dregið mjög úr barnsfæðingum á síðustu 30 árum og mun draga enn frekar úr þeim á næstu áratugum. Því mun þróunin á Íslandi smám saman færast í þá átt að aðfluttir íbúar munu bera uppi hitann og þungann af fjölgun þjóðarinnar rétt eins og hefur verið að gerast í Evrópu.
Það eykur ekki á vonina um að þjóðin fjölgi sér sjálf án utanaðkomandi aðstoðar, þegar brúnaþungur Halldór Ásgrímsson mætir í dag á fæðingardeildina til að taka í hendina á foreldrum barns númer 300000 um leið og hann mun væntanlega gera sitt til að hræða líftóruna úr blessuðu barninu sem hefur ekkert til sakar unnið.
mánudagur, janúar 09, 2006
9. janúar 2006 - Af jarðgangnagerð
Þær Krúnka og Pollýanna ásamt Chief Security Officer Þórði hafa talið sig hafa ráðið í drauma mína og telja draum minn um göng vera dæmi um andstöðu mína við göng. Það er rangt. Ég er mjög fylgjandi þessum göngum sem mig dreymdi í nótt og mörgum öðrum framkvæmdum.
Ég sé fyrir göng sem ná frá Ártúnsbrekkunni og undir miðjan Hofsjökul. Þar verður staðsett risastórt hringtorg og í miðju hringtorgsins verði lyfta sem nái upp á topp jökulsins þar sem komið verði fyrir útsýnispalli. Frá hringtorginu liggi svo göng til allra átta, Ísafjarðar, Akureyrar, Egilsstaða, Hornafjarðar, Vestmannaeyja. Til þess að greiða fyrir þessar miklu framkvæmdir, verði nokkkrir dalir stíflaðir, stíflan við Steingrímsstöð verði hækkuð í 160 metra, gerð risastífla við vesturenda Skorradals, Bárðardalur við Goðafoss í 400 metra hæð og byggðar stíflur í mynni nokkurra fjarða og reist raforkuver sem mögulegt er. Raforkan verði svo notuð til byggingar nýrra álvera og hagnaðurinn notaður í að ljúka fyrsttalda verkinu, en auk þess nokkur minni göng, t.d. beint frá Ísafirði til Reykjavíkur með pissustoppi í Búðardal....
Í alvöru. Ég hefi ekkert á móti nytsömum jarðgöngum. Ég viðurkenni fúslega að mjög vafasamt er hvort Héðinsfjarðargöng muni nokkru sinni borga sig, en er sannfærð um að göng til Vestmannaeyja eru þvættingur. Ég er hinsvegar mjög hlynnt göngum og öðrum vegabótum á Vestfjörðum og Austfjörðum, undir Vaðlaheiði og víðar þar sem slík framkvæmd er þjóðhagslega hagkvæm.
Þá get ég alveg séð fyrir mér göng frá Norðurárdal í Skagafirði yfir í Eyjafjarðardali til að losna við Öxnadalsheiðina auk vegabóta þar sem hreppapólitíkin er til trafala og ræður mestu um heimskulega vegamálapólitík í dag eins og á sér stað í Húnavatnssýslu.
Ég hefi margsinnis lýst því yfir að ég er fylgjandi framkvæmdum við Kárahnjúkastíflu og byggingu orkuvers í Fljótsdal auk álvers á Reyðarfirði. Stærstur hluti Austfirðinga er fylgjandi þessum framkvæmdum og þeir munu þurfa að standa eða falla með þessum framkvæmdum og afleiðingum þeirra. Það er staðreynd að talsverð fólksfækkun var víðast um Austfirði síðustu árin áður en ákveðið var að ráðast í þessar framkvæmdir. Nú hefur það snúist við og nú ríkir bjartsýni þarna. Ímyndum okkur að meirihluti Eyfirðinga ákveði að verða á móti virkjanaframkvæmdum og álveri í Eyjafirði. Þá myndi ég standa með þeim á sama hátt og ég stend núna með Austfirðingum og tala gegn álveri í Eyjafirði.
Ég get ekki annað en fylgst með Austfirðingum með aðdáun þessa mánuðina. Ef þið haldið að þetta hafi einhver áhrif á pólitískar skoðnir mínar, þá get ég alveg fengið mér vínrauðan Subaru í stað þess flöskugræna (vinstrigræna). Og hananú.
-----oOo-----
Svo er sennilega óhætt að óska Íslendingum til hamingju með að ná íbúa númer 300.000 í dag, mánudag, en íbúarnir voru 299.995 á miðnætti.
sunnudagur, janúar 08, 2006
8. janúar 2006 - Að gera göng
Ísfirðingar voru búnir að finna út að núverandi flugvöllur væri ómögulegur og að betra flugvallarstæði væri hinum megin í Ísafjarðardjúpi. Þangað er löng leið og til að geta flutt fólk á milli var ákveðið að bora göng undir Djúpið og til nýja flugvallarins.
Það var byrjað að bora. Til að stjórna verkinu var fenginn skólafélagi minn úr Vélskólanum sem nú er stöðvarstjóri hinnar nýju Hellisheiðarvirkjunar og honum til aðstoðar voru fengnir nokkrir vélfræðingar frá Orkuveitunni þar á meðal ég. Allur aðbúnaður í göngunum var fremur slæmur, en þó tók yfir allan þjófabálk er Kidda hugkvæmdist að nýta göngin til virkjanaframkvæmda auk akbrauta að flugvellinum og byggja þar stórt raforkuver.
Ekki tók nú betra við. Við vorum rekin áfram af hinni mestu hörku og enginn griður gefinn. Það var dimmt niðri í göngunum og víða lak vatnið inn í göngin og allskyns hindranir í veginum. Verkinu miðaði þó vel áfram, en vonlaust að biðja um miskunn hjá Kidda. Þá skyndilega sá Tárhildur kisa ástæðu til að hoppa upp á sængina mína og vekja mig. Þetta hafði þá bara verið draumur. (Draumurinn var miklu lengri en þetta, en þetta man ég úr draumnum).
Draumráðning óskast.
----oOo----
Í gær var hélt Alfreð Þorsteinsson boð fyrir mig og aðra starfsmenn OR í aðalstöðvum Orkuveitunnar. Þar var veitt eins og Alfreð einum er lagið, einkaþjónar á hverju strái og veitt eins og hver vildi. Sem ég hefi alltaf sagt. Það verður missir að Alfreð er hann yfirgefur skútuna.
----oOo----
Svo fær forsöngvarinn í stóru englahljómsveitinni, sjálfur Elvis afmæliskveðjur.
laugardagur, janúar 07, 2006
7. janúar 2006 - Veðrið ofl.
Skelfing er ég búin að fá mikinn leið á þessum umhleypingum. Annan hvern dag þarf að byrja á að brjóta klakann af bílrúðunum áður en ekið er af stað, en hinn daginn er slíkt úrhelli að vart er stætt á götunum í roki og rigningu.
Þetta byrjaði svona á aðfangadag og hefur verið stöðugt síðan þá. Ýmist snjóar eða rignir og erfitt að henda reiður á veðurspána því það skiptir svo oft um veður. Ég er búin að fá hundleið á þessu því einasta skiptið sem ég hefi komist út í labbitúr til að ná af mér jólasteikinni eftir jól, var þurrt þegar ég lagði að heiman, en kom holdvot heim klukkutíma síðar
----o----
Í dag verður árlegt nýársboð hjá Don Alfredo, væntanlega hið síðasta áður en hann yfirgefur okkur og heldur á ný mið. Mér líst mjög illa á þessi skipti og hefði viljað hafa hann áfram í starfi hjá Orkuveitunni. Þá er ekki til að bæta úr að ég er ekkert yfir mig hrifin af þessu hrikalega bákni sem á að reisa við Hringbrautina og kallast “hátæknisjúkrahús”.
Á Íslandi eru núna þrjú sjúkrahús sem má kalla hátæknisjúkrahús, Landspítalinn við Hringbraut, Landsspítalinn/Borgarspítalinn í Fossvogi og loks Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri. Það mætti ætla að það væri nóg. Það er ekki til að bæta úr að vart er úthlutað nægu fjármagni til að reka núverandi heilbrigðisþjónustu og þá að byggja risastóran monsterspítala fyrir milljón manns þótt hræðurnar á Íslandi séu aðeins 300.000. Að auki er staðarvalið hið vitlausasta sem hægt er að hugsa sér, nánast í útjaðri Reykjavíkur með stöðugri þróun byggðar til austurs og suðurs.
Nenni vart að æsa mig að sinni og ekkert að frétta af mér.
föstudagur, janúar 06, 2006
6. janúar 2006 - Hjartaáfall eða heilablóðfall?
Einhverntímann endur fyrir löngu stóð ég í þeirri trú að ég vissi nokkurn veginn muninn á heilablóðfalli og hjartaáfalli, að hjartaáfall ætti upptök sín í hjartanu eða æðum sem liggja að því, en heilablóðfall stafaði af bilun í æðum sem liggja í heila. Nú hefi ég komist að því að ég veit ekkert um þessi mál.
Fyrir jólin fékk einhver gamall og akfeitur karl suður í Ísrael vægt hjartaáfall eða var það vægt heilablóðfall? Fréttirnar voru mjög misvísandi, sumstaðar að hann hefði fengið hjartaáfall, en aðrar fréttir hermdu að sá gamli hefði fengið heilablóðfall. Svo var kallinn settur í rannsókn og talið var að smurolíudælan væri farin að leka, að komið væri gat á stærð við títuprjónshaus á hjartað. Ég næ því samt ekki, af hverju á að setja karlinn í hjartaþræðingu ef hann er með gat á hjartanu. Sjálf fer ég ekki að bora út frárennslispípuna frá smurolíudælunni ef það er gat á dæluhúsinu, heldur fer ég og loka gatinu.
Svo fékk sá gamli sannanlega heilablóðfall í fyrradag og talið að það stafaði af blóðþynningarlyfjunum. Samt fæ ég stöðugt að heyra að þetta sé heilablóðfall númer tvö. Hitt hafi verið heilablóðfall. Þá hætti ég að botna í þessu. Gangráðurinn á aðalvélinni fer að vinna skrykkjótt og þá kemur gat á smurolíudæluna???
Ef ég gæfi upp þessa bilanalýsingu til sjós, yrði keyrt með mig beint í land þar sem stórvaxnir menn í hvítum sloppum tækju á móti mér og fyndu mér viðeigandi samastað. Þegar haft er í huga, að ég veit mun minna um heilablóðfall en ég taldi mig vita fyrir mánuði síðan, þá ætla ég þeim fréttamönnum sem færa mér fréttirnar af heilsufari umrædds gamalmennis að þeir gefi mér skýringar á þessu misræmi fréttanna.
Nema auðvitað að refsing Guðs hafi verið bæði heilablóðfall og hjartaáfall.
Þeim sem skömmuðu mig fyrir smásálarháttinn í gær til hughreystingar, skal ég líka biðja fyrir hinum vondu í nótt, að þeir megi bæta sig, ef ekki nú, þá á næsta tilverustigi.
fimmtudagur, janúar 05, 2006
5. janúar 2006 - Enn af Konráð Alfreðssyni
Fyrir viku sá Konráð Alfreðsson formaður Sjómannafélags Eyjafjarðar ástæðu til að lýsa yfir áhyggjum sínum vegna grunsemda sinna þess efnis að aðkomumaðurinn Guðmundur Kristjánsson ætlaði að flytja landvinnslu Brims í burtu frá Akureyri. Ég gat með góðri samvisku deilt þessum áhyggjum með Konráð, enda illt í efni þegar einustu atvinnutækifærin hverfa á braut. Daginn eftir kom í ljós að ótti okkar reyndist ástæðulaus og Guðmundur hafði ekki í huga að flytja landvinnslu Brims á brott.
Óttinn við brottflutning landvinnslunnar reyndist þó byggður á raunhæfum ástæðum. Það var samt ekki Guðmundur Kristjánsson sem vildi hverfa á brott með fiskinn, heldur fyrirtæki sjálfra Akureyringanna, Samherji sem hefur nú ákveðið að flytja hluta landvinnslu sinnar úr landi. Þá skyndilega heyrist ekki múkk í formanni Sjómannafélags Eyjafjarðar. Ég mun hinsvegar halda áfram að hafa áhyggjur af atvinnu verkafólks við Eyjafjörð og þykir þetta vera hið versta mál. Um þögn Konráðs Alfreðssonar vil ég bara segja eitt: Sveiattan.
----o----
Seint í gærkvöldi bárust mér þær fréttir að hryðjuverkamaðurinn Ariel Sharon lægi alvarlega sjúkur og hugsanlega á banabeði. Ég ætla ekki að biðja fyrir honum. Hinsvegar ætla ég að biðja fyrir andstæðu hans, friði í heiminum.
miðvikudagur, janúar 04, 2006
4. janúar 2006 - Jóhanna Sigurðardóttir ...
...hefur séð ástæðu til að vanda um við þá ráðamenn sem hafa samið við Flugleiðir, öðru nafni FL-grúpp (skrifað FJ-group) og gefur í skyn að hún vilji hætta viðskiptum við þá vegna þeirra starfslokasamninga sem nú hafa verið gerðir opinberir.
Flugleiðir, öðru nafni FL-grúpp (skrifað FJ-group) hafa löngum verið í miklu uppáhaldi hjá íslenskum ráðamönnum, Alþingi og ríkisstjórn, þar á meðal Jóhönnu sem er fyrrum flugfreyja hjá forvera félagsins og síðar alþingismaður og ráðherra í ríkisstjórnum sem hafa stutt við einokunarstefnu fyrirtækisins, lagt stein í götu fyrirtækja sem reynt hafa að koma á samkeppni við það og veitt því margskyns og óeðlilega fyrirgreiðslu í gegnum tíðina og minnst einu sinni bjargað því frá gjaldþroti. Það er kannski eðlilegt að Jóhanna sé sár, en laun heimsins eru vanþakklæti og hún getur sjálfri sér um kennt að svona skuli komið fyrir þessu draumafyrirtæki hennar og íslenskra ráðamanna.
Mér koma ekkert við þau kjör sem ráðamenn í Flugleiðum, öðru nafni FL-grúpp (skrifað FJ-group) veita sjálfum sér, ekki frekar en þau kjör sem Baugur-grúpp veitir Bónusfeðgum eða Fons-grúpp veitir sínu fólki eða KB-banki eða hvað allar þessar grúppur nú heita. Það eru hluthafarnir sem velja þá stjórn sem semur við þessa forstjóra sína, ekki Alþingi eða ríkisstjórn sem eru löngu búin að gefa í burtu eignarhald sitt á þessum fyrirtækjum sem og fiskinn í sjónum umhverfis landið. Hlutverk Jóhönnu á að vera að setja starfsreglur fyrir fyrirtækin í landinu, tryggja velferðarkerfið, að ekki séu fleiri fyrirtæki gefin í burtu sem og að ekki sé búið til nýtt tröllaukið bákn í kringum heilbrigði þessara 300.000 hræða sem lifa í þessu landi. Ekki að blanda sér í þá hagsmuni sem henni koma ekki lengur við.
Ég er ekki hrifin af þessum ofurlaunum íslenskra forstjóra í dag. Þetta er talandi dæmi um græðgi og spillingu sem þrífst hér á landi. Flugfargjöld á milli Íslands og annarra landa eru einnig slíks eðlis og bera þess merki að við búum ennþá við þá háðung sem kennd er við vistarböndin illræmdu. Þar er við ríkisstjórn og Alþingi að sakast sem létu það viðgangast að tryggja Flugleiðum einokun á flugi milli Íslands og annarra landa svo áratugum skipti og sem Æsland Express nýtir sér í dag með sínu ótrúlega háa verði á svokölluðum lággjaldaferðum.
Það er ennþá pláss á milli sætanna í flugvélum Flugleiða, öðru nafni FL-grúpp (skrifað FJ-group). Sama er ekki hægt að segja um flugvélarnar hjá Æsland Express.
þriðjudagur, janúar 03, 2006
3. janúar 2006 - Völva bloggsins
Eins og lesendur mínir hafa séð, hefi ég þegar birt annál ársins 2005. Því er nú komið að völvuspá fyrir árið 2006. Ég hefi starað í mína fínu kristalskúlu síðustu dagana og séð þar ýmislegt, en þetta þó helst:
Árið 2006 verður gjöfult ár fyrir marga bloggara, þó ekki alla. Það verða erfiðir dagar í lok janúar og byrjun febrúar vegna jólavísareikningsins. Þetta mun allt lagast í apríl með þrotlausum vöktum alla páskana. Ég sé fram á betri daga fjárhagslega á sumri komanda, aðallega vegna greiðslu orlofsfjár í maí og vaxtabóta í ágúst. Þá sé ég fyrir mér nýja fataskápa í stóra herberginu og hugsanlega einnig nýjan fataskáp í forstofunni á flísalagt gólfið. Ég get þó ekki séð hver ætlar að leggja flísarnar þegar búið verður að fjarlægja parketið.
Einhver fjölgun verður í stórfjölskyldunni á árinu, en á móti kemur eitt dauðsfall. Ég sé ekki að það verði meðal nánustu ættingja, en gæti verið meðal hóps annarra ættingja, nær en í fimmta ættlið. Að auki mun ég þurfa að mæta í þrjár aðrar jarðarfarir og eitt brúðkaup á árinu. Ég gæti þurft að mæta í eitt stórafmæli á árinu, en þó ekki víst. Heilsan verður að mestu leyti góð. Ég mun fá eina kvefpest, en enga slæma flensu. Þá mun ég glata rúmum tíu kílóum af þyngd minni vegna tilgangslausra labbitúra um Elliðaárdalinn.
Ég sé fyrir mér þrjár utanlandsferðir á árinu, ein í mars, önnur í júlí og loks hin þriðja þegar nær dregur hausti. Allar verða ferðir þessar fremur stuttar og til Evrópu. Þá verður farin ein ferð austur að Kárahnjúkum og önnur norður til Eyjafjarðar, jafnvel austur í Þingeyjasýslur. Þá verða farnar nokkrar stuttar ferðir um nágrannasveitafélög, jafnvel alla leið til Selfoss. Ég mun ekki skipta um bíl á árinu, en gæti þurft að skipta um olíu tvisvar og einu sinni um bremsuklossa á bílnum. Þá verður hann þveginn og bónaður nokkrum sinnum.
Ég verð ekki rekin úr stjórn Ættfræðifélagsins á árinu, en mun þurfa að hella þar á könnuna að minnsta kosti átta sinnum. Ég mun eignast fáar bækur tileinkaðar hugðarefninu, en þó einhverjar.
Veðrið verður eins og venjulega, umhleypingar, kuldi og víxlverkanir rigningar og snjóa fram á vorið, hlýrra með roki og rigningu yfir sumarið og loks aftur víxl snjóa og rigningar að hausti. Það gæti orðið eitt eldgos á Íslandi, en þó ekki víst. Skipt verður um borgarstjóra og stóran hluta borgarstjórnar, en ríkisstjórnin mun sitja eins lengi og henni er stætt, flestum til ama og leiðinda. Hún mun reyna að hlýða kalli forsætisráðherrans og herja á aldraða og öryrkja eins og Halldór boðaði á gamlárskvöld, en óvíst hvort henni takist það. Hér ætlaði ég að bæta við að biskupinn muni gera sig að fífli á árinu 2006, en sú spá hefur þegar ræst og óþarfi að segja frá því nú.
Af íþróttum óttast ég mest að heimsmethafinn sé hættur að berjast til sigurs og muni hætta þátttöku í kappakstri sökum aldurs á hausti komanda saddur íþróttadaga. Þá mun Halifaxhreppur gera mér þann óleik að komast upp um deild í vor og spila í langneðstu deild næsta haust við álíka óvinsældir og ríkisstjórnin.
Læt ég þetta duga af spádómum fyrir árið 2006, en óska hinum aldurshnigna heimsmethafa Michael Schumacher til hamingju með 37 ára afmælið.
mánudagur, janúar 02, 2006
2. janúar 2006 - Halldór Ásgrímsson ...
...flutti áramótakveðju sína til þjóðarinnar á gamlárskvöld. Þar viðraði hann skoðanir sínar á mönnum og málefnum, þar á meðal öldruðum og öryrkjum. Megnið af ræðu hans var marklaust hjal sett fram til að slá ryki í augu almennings, en öllu verri var sú stefna gegn öldruðum og öryrkjum sem hann boðaði:
"Við megum aldrei gleyma því að aldraðir hafa átt stóran þátt í að skapa þá velsæld sem nú ríkir og þeir eiga að geta notið ævikvöldsins með reisn. Helst sem lengst á eigin heimili og meðan heilsan leyfir úti í atvinnulífinu þar sem reynsla og viska þeirra getur komið að góðum notum."
Það hefur löngum verið farið illa með aldraða í þessu landi, en orð Halldórs benda til þess að nú eigi að hætta að greiða öldruðum með lélegan lífeyrissjóð tekjutryggingu sem er þó ekki hærri en svo vart er hægt að skrimta af henni. Einfaldasta ráðið til þess er að reka öll vinnufær gamalmenni í að kafa eftir dósum og flöskum í ruslatunnum, allavega að halda þeim úti á vinnumarkaði uns heilsan þrýtur og dauðinn bíður handan við hornið.
"Ríkisstjórnin hefur í samráði við aðila vinnumarkaðarins ákveðið að gera sérstakt átak í málefnum þeirra (þ.e. öryrkja) og leggja áherslu á starfsendurhæfingu og gera þær ráðstafanir sem auðvelda mega öryrkjum að fara aftur út á vinnumarkaðinn. Þeir, eins og aldraðir, eru ekki einsleitur hópur og sömu úrræði henta ekki öllum. Margir búa við slík örkuml að engin von er um atvinnuþátttöku og verður að hlúa vel að þessum hópi. Aðrir geta fundið störf við sitt hæfi með aðstoð og þjálfun. Mikilvægt er að hverjum og einum sé gert kleift að leita sér lífsfyllingar og nýta þá möguleika sem bjóðast til hins ítrasta."
Ef þetta er stefna ríkisstjórnarinnar í málum öryrkja, skil ég vel því öryrkjar fengu ekki að vera með í upphaflegri nefnd sem ríkisstjórnin skipaði í málefnum öryrkja. Þetta virðist hljóma við fyrstu sýn sem ómengaður Thatcherismi í stíl Hannesar Hólmsteins og máltækisins “Neyðin kennir naktri konu að spinna”. Sjálfri datt mér fyrst í hug að nú ætti að láta sverfa til stáls gegn öryrkjum og afnema allar bætur til þeirra sem geta hreyft sig að einhverju leyti, en loka hina inni á hæli. Slíkt hefur sosum verið framkvæmt áður og er mjög í anda þeirra afturhaldsafla sem vilja brjóta niður velferðarkerfið.
Ég ætla að vona að hugsun Halldórs hafi verið önnur en sú sem gjörla má lesa úr orðum hans, en aðgerðir hans gegn öryrkjum á undanförnum mánuðum gefa ekki tilefni til bjartsýni á þessu sviði.
Einfaldasta ráðið er auðvitað að gefa þessari ríkisstjórn hvíldina góðu sem hún virðist eiga skilið, þá sérstaklega Framsóknarflokkurinn, en gefa Halldóri kost á embætti sendiherra við sendiráð Íslands í Kabúl í Afganistan þegar hann verður endanlega búinn að kála flokknum sínum með góðvild sinni.
Ég er svo hjartanlega sammála Þórði hér til hliðar hvað biskupinn varðar. Loksins erum við Þórður sammála.