Í gær var hrópað til veisluhalda því nú skyldi fagnað. Í viðurvist starfsfólks Orkuveitunnar, ráðherra og alþingismanna auk vors ástkæra veraldlega leiðtoga á Bæjarhálsi, var lagður hornsteinn að stöðvarhúsi hinnar nýju virkjunar á Hellisheiði. Þar var vel veitt og undu allir glaðir við sitt, kneifuðu öl og tróðu í sig góðgæti undir ræðuhöldum og söng.
Undir sæng í Reykjavík lá undirrituð með boðskortið á koddanum, svaf á sitt græna eyra og vissi ekkert hvað var í gangi, örþreytt eftir erfiði næturvaktarinnar.
Slík fásinna sem að sofa af sér veisluhöldin er ófyrirgefanleg. Því var skotið á ráðstefnu í starfsmannaklúbbnum þar sem harður dómur féll yfir ykkar einlægri fyrir svik þau sem fólust í því að sofa yfir sig.
Suður í Hafnarfirði svaf húsfreyja ein yfir sig eftir að hafa staðið í skúringum og þvottum langt fram á nóttina á undan. Þótt hún hafi þegar verið örþreytt eftir þrældóm dagsins á ónefndri ritstjórnarskrifstofu í Reykjavík er hún hóf tiltektirnar á heimilinu, dæmdist hún einnig til þyngstu refsingar. Báðum þessum konum var gerð sú refsing að klífa hæstu tinda og skila sér aftur niður fyrir fréttir og veður.
Undirbúningur fjallgöngunnar gekk vel. Beitt var tækniþekkingu hinnar fyrrnefndu og samningalipurð hinnar síðarnefndu og leigðir tuttugu serpar til að bera farangurinn í átt að efstu búðum neðan við jökulröndina, en þeir urðu fljótt örmagna og voru því skildir eftir í næstefstu búðum, en konurnar tvær tóku súrefnisbirgðirnar á bakið, tróðu nestisbirgðum í vasana, vopnuðust reipum, ísöxum og gaddaskóm og hófu að klífa bergstálið. Þetta gekk vonum framar þrátt fyrir að öskrandi villidýr af sömu ætt og tígrisdýr yrðu á leið þeirra. Þrætt var framhjá jökulsprungum og svellalögum og klifið hærra og hærra og í gegnum hugann fóru ljóðlínurnar fögru:
Klífa skriður.
Skríða kletta.Velta niður.
Vera að detta.
Hrufla sig á hverjum steini.
Halda að sárið nái að beini
Rétt eins og í ljóðinu eftir Tómas, styrktist trúin við hverja raun og loks var staðið á efsta tindi. Nístingskuldi lék um okkur, regnið hamaðist á andlitum okkar og maskarinn lak niður kinnarnar. Þrátt fyrir þetta fylltumst við stolti og hamingju eftir að hafa náð þessum mikilvæga áfanga í lífinu, eða eins og segir í næsta versi:
Hreykja sér á hæsta steininn.
Hvíla beinin.
Ná í sína nestistösku.
Nafn sitt leggja í tóma flösku.
Standa aftur upp og rápa.
Glápa.
Eftir að hafa staðið um stund á efsta toppi var haldið niður að nýju. Enn var mætt hinum verstu erfiðleikum, skriðið niður urðina, farið gegnum djúpa dali og vaðin hin verstu kviksyndi, en niður komumst við. Að lokum gátum með stolti snúið okkur við og sagt hverjum sem heyra vildi:
Sjáið tindinn! Þarna fór ég.
Loks náðum við til byggða, þreyttar, sárar og hamingjusamar eftir miklar raunir. Stoltar gátum við sagt hverjum sem heyra vildi að nú hefði Ásfjallið í Hafnarfirði, hvorki meira né minna en 127 metra hátt yfir sjávarmáli, verið lagt að velli.
-----oOo-----
Fjallganga
eftir Tómas Guðmundsson
Urð og grjót.
Upp í mót.
Ekkert nema urð og grjót.
Klífa skriður.
Skríða kletta.
Velta niður.
Vera að detta.
Hrufla sig á hverjum steini.
Halda, að sárið nái beini.
Finna, hvernig hjartað berst,
holdið merstog tungan skerst.
Ráma allt í einu í Drottinn:
„Elsku Drottinn,núna var ég nærri dottinn!
Þér ég lofa því að faraþvílíkt aldrei framar,
baraef þú heldur í mig núna!
“Öðlast lítinn styrk við trúna.
Vera að missa vit og ráð,
þegar hæsta hjalla er náð.
Hreykja sér á hæsta steininn.
Hvíla beinin.
Ná í sína nestistösku.
Nafn sitt leggja í tóma flösku.
Standa aftur upp og rápa.
Glápa.
Rifja uppog reyna að munafjallanöfnin:
náttúruna.
Leita og finnaeitt og eitt.
Landslag yrði lítils virði,
ef það héti ekki neitt.
Verða kalt,
er kvöldar að
Halda seint og hægt af stað.
Mjakast eftir mosatónum.
Missa hælinn undan skónum.
Finna sig öllu taki tapa:
Hrapa!
Velta eftir urð og grjóti
aftur á bak og niðr í móti.
Leggjast flatur.
Líta við.
Horfa beint í hyldýpið.
Hugsa sér, að höndin sleppi.
Hugsa sér,að steinninn skreppi.
Vita urðir við sér taka.
Heyra í sínum beinum braka.
Deyja, áður en dagur rynni.
Finnast ekki einu sinni.
Koma heim og heita því
að leggja aldrei upp á ný.
Dreyma margar næstu nætur
hrap í björgum, brotna fætur.
Segja löngu seinna frá því:
„Sjáið tindinn, þarna fór ég!
Fjöllunum ungur eiða sór ég,
enda gat ei farið hjá því,
að ég kæmist upp á tindinn.
Leiðin er að vísu varla
vogandi nema hraustum taugum,
en mér fannst bara
bezt að fara
beint af augum,
því hversu mjög sem mönnum finnast
fjöllin há,
ber hins að minnast,
sem vitur maður mælti forðum
og mótaði í þessum orðum,
að eiginlega er ekkert bratt,
aðeins mismunandi flatt.“
sunnudagur, apríl 30, 2006
30. apríl 2006 - Fjallganga
laugardagur, apríl 29, 2006
29. apríl 2006 - Eru Íslendingar þá klikk?
Um daginn komst Sigmar Guðmundsson fréttamaður að því að Svíar og Norðmenn eru klikk og að sjálfsögðu var Rassenal aðdáandinn Polly sammála honum. Féllust þau svo í andlega faðma í hrifningu á hinum klikkaða Rassenal leikmanni Fredrik Ljungberg. En upp komast svik um síðir. Það voru Íslendingar sem stoppuðu af uppsetningu skiltisins í Stokkhólmi ef marka má nærbrókaumboðsmanninn Hans Lindeblad hjá Calvin Klein.
Þegar símaskráin er skoðuð kemur í ljós að útibú KB-banka í Stokkhólmi er að Stureplan 19, í skugganum af umræddum auglýsingarstað. Að sögn margumrædds umboðsmanns voru það forráðamenn KB-banka í Stokkhólmi sem óskuðu eftir umræddu skiltabanni. Það er því ljóst að ekki einungis Svíar hafa þurft að líða fyrir orð Sigmars Guðmundssonar. Úr því Svíar eru klikk vegna þessa skiltabanns, þá hljóta Íslendingar sem báðust þess að skiltið yrði ekki sett upp að vera enn frekar klikk. Svo vitnað sé enn frekar í Sigmar átaldi hann Svía fyrir forræðishyggju vegna skiltisins. Hann hlýtur þá að álíta Íslendinga vera enn frekar klikk og enn meiri forræðishyggjuþjóð og þar með sjálfan sig. Svo dregin sé ályktun af orðum Sigmars Guðmundssonar: Sigmar er klikk!
-----oOo-----
Þá hefur DV tekist að grafa sína eigin gröf. Með siðleysisstefnu Jónasar Kristjánssonar þar sem leyfilegt var að birta allt og enginn griður gefinn, fékk fólkið í landinu nóg og hætti að kaupa DV. Eftir það nægði ekki lengur að sparka ritstjórunum. Skaðinn var skeður og blaðið hætti að seljast.
Á undanförnum vikum hafði ég veitt athygli nokkurri breytingu til hins betra hjá blaðinu, t.d. vildu þeir ekki birta viðtal við mig sem tekið var um miðjan mars og er það merki um betri og mun ábyrgari ritstjórnarstefnu en áður hafði verið við lýði. Þetta þóttu bæði mér og öðrum skýrt dæmi um að DV vildi bæta sig og komast í hóp jákvæðra og menningarlegra fjölmiðla sem aldrei fyrr.
Ég ætla ekki að tjá mig frekar um stöðvun útgáfunnar að sinni. Hinsvegar á nýlega ráðinn og nú brottrækur menningarritstjórinn, Þórunn Hrefna Sigurjónsdóttir, samúð mína alla vegna þessa máls. Um leið vona ég að hún fái nýtt starf og nýja ábyrgð sem fyrst aftur.
föstudagur, apríl 28, 2006
28. apríl 2006 - Er Zygmarr eitthvað klikk?
Er Zygmarr eitthvað klikk?
Þessi orð mín má ekki túlka bókstaflega á þann hátt að ég telji Sigmar Guðmundsson fréttamann klikkaðan þótt fuglaflensan hafi hrjáð Kastljós sjónvarpsins um tíma, heldur er þetta svar mitt við orðum hans gagnvart sænsku þjóðinni á miðvikudaginn, en þar skildi Sigmar ekkert í því af hverju borgaryfirvöld í Stokkhólmi höfnuðu beiðni um risaauglýsingu á Stureplan á Östermalm. Pistill hans á blogginu undir fyrirsögninni Nærbuxnaklám hófst nefnilega með þessum orðum: Svíar eru klikk. Jafnvel meira klikk en Norðmenn.
Ég fór að kynna mér málið. Morgunblaðið las það úr viðtali við umboðsmann nærbrókaframleiðandans Calvin Klein í Svíþjóð að borgaryfirvöld vildu ekki svona klámfengna útiauglýsingu, en sjálfir héldu starfsmenn Stokkhólmsborgar því fram við Dagens nyheter að auglýsingunni hefði verið hafnað sökum stærðar hennar og staðsetningar.
Hugmynd nærbrókaframleiðandans var sú að reisa 360 fermetra auglýsingu á Stureplan í hjarta Östermalm í Stokkhólmi, auglýsingu sem myndi bera allt umhverfi sitt ofurliði sökum stærðar sinnar. Höfnun þessarar auglýsingar þóttu umboðsmanni Calvin Klein, Morgunblaðinu (íþróttafréttaritaranum?) og Sigmari Guðmundssyni hið versta mál sem endurspeglast í orðum hans um að Svíar séu klikk.
Ég fór að leika mér að tölum um stærð þessa skiltis. 360 fermetrar eru ekkert smáræði og sést vel hve það er mikið í andstöðu við umhverfið á tilbúinni mynd frá Aftonbladet í Stokkhólmi. Ef umræddum nærbrókaframleiðanda dytti í hug að setja viðlíka skilti upp í Reykjavík, þá myndi það þekja fjórar efstu hæðirnar á Morgunblaðshöllinni og Tryggingamiðstöðinni til samans. Ég er hrædd um að ef slíkt skilti yrði heimilað, yrðu borgaryfirvöld sögð vera klikk, jafnvel þótt á skiltinu væri uppáhaldsíþróttamaður Sigmars Guðmundssonar, Fredrik Ljungberg leikmaður enska fótboltafélagsins Rassenal. (Að mati Sigmars er umræddur Ljungberg klikk, því hann er sænskur og Svíar eru klikk samkvæmt orðum hans) Prófum að skipta um mann á skiltinu og setjum í staðinn Eið Smára Guðjohnsen varamann í ensk-rússneska liðinu Seltjörn og setjum það upp á sama stað. Þá yrði ég hrædd um að Sigmar Guðmundsson myndi telja einhverja vera klikk. Sjálf myndi ég aldrei samþykkja slíkt skilti ef ég mætti ráða, jafnvel þótt hinn sókndjarfi og glæsilegi markaskorari Fótboltafélags Halifaxhrepps, sjálfur Ryan Sugden beraði sig á nærhaldinu einu á skiltinu.
Nei, skipulagsyfirvöld í Stokkhólmi (Stadsbygnadskontoret) eru ekkert klikk, ekki fremur en sænska þjóðin. Það er hinsvegar álitamál hvort yfirmenn nærbrókaframleiðandans Calvin Klein og þeir sem eru fylgjandi slíku brjálæðislegu auglýsingafári, þar með talinn sá sem kallar helstu vinaþjóðir Íslands klikk, séu eitthvað klikk!
-----oOo-----
Eftir að ég las pistil Sigmars frá fimmtudeginum þar sem hann heldur enn uppi uppi látlausri skothríð á sænska velferðarkerfið, þá sá ég að hann er enn illa haldinn af fuglaflensunni og kominn með bæði lungnabólgu og kvef í ofanálag. Ég óska honum því góðs bata og að hann muni lagast í skapi með söng lóunnar og hlýrra veðri. Ég á svo í fórum mínum glansandi fínan og íslausan varmaorkufrisbídisk frá Orkuveitunni sem ég skal afhenda honum við fyrsta tækifæri þegar honum batnar Svíagrýlan.
-----oOo-----
Svo er Rassenal aðdáandi númer 2 á Íslandi orðin sármóðguð út í Sigmar Guðmundsson.
fimmtudagur, apríl 27, 2006
27. apríl 2006 - Ein hinna fremstu ofl.
Á ILGA-ráðstefnunni í Genf á dögunum um transgender málefni, fjallaði kona ein frá Venezuela um stöðu transgender fólks í Rómönsku Ameríku og kom þar margt merkilegt í ljós, en um leið voru helstu jákvæðu fréttirnar frá þeim heimshluta frá Kúbu. Konan frá Venezuela kunni að orða hlutina í réttu samhengi, dró miskunnarlaust fram hið neikvæða um leið og hún hrósaði hinu jákvæða, benti á grimmileg örlög fjölda transgender fólks í Rómönsku Ameríku og hvatti til aðgerða.
Á kvöldin var hún fremst allra að taka þátt í skemmtunum sem óhjákvæmilega fylgja slíkum ráðstefnum. Það var ekki hægt annað en að taka eftir henni, sífellt hlæjandi og geislaði af henni hvar sem hún fór. Við ræddum nokkrum sinnum saman í alvöruleysi á skemmtunum, en að öðru leyti vissi ég ekkert um hagi hennar annað en að hún hafði farið í gegnum aðgerðarferli á áttunda áratug síðustu aldar. Ég varð því að lesa mér til um hana eftir að heim var komið og tími vannst til að lesa gögn sem hún vísaði mér á.
Dr. Tamara Adrian reyndist vera hámenntuð í lögfræði, kennir við Háskólann í Caracas í Venezuela og stjórnar lögfræðistofu fjölskyldu sinnar sem hefur verið starfrækt í um 80 ár. Að auki hefur hún fengist við stjórnmál á síðustu misserum og verður hugsanlega fyrst í okkar hópi til að ná verulegum frama á þeim vettvangi. Eitt er öruggt, en það er að skemmtileg framkoma hennar og frábærir eiginleikar við að setja fram hugðarefni sín á prenti eða orðræðu mun ekki skemma fyrir henni.
Tamara er sú í gula bolnum á myndinni ásamt löndu sinni og samferðakonu.
-----oOo-----
Ég var að hugleiða þennan kappakstur ungmenna á götum Reykjavíkur og rifjaði í leiðinni upp þann tíma er ég fór sjálf í bílprófið, fjórum dögum áður en heimsmethafinn geðþekki fæddist. Um leið hafa gengismál Íslendinga verið mikið í umræðunni og smám saman rifjaðist upp fyrir mér eitt lítið atriði varðandi bílprófið.
Þegar elsti bróðir minn fór í bílprófið sitt í janúar 1958 gaf faðir minn honum 500 krónur sem dugðu að mestu fyrir ökutímunum og prófinu. Svo liðu árin með gengisfellingum og miklum hagsveiflum og í hvert sinn sem eitthvert systkina minna fór í bílpróf rétti faðir minn viðkomandi barni 500 krónur. Ég kom síðust í röðinni og þegar ég fékk mitt ökuskírteini í lok desember 1968 afhenti faðir minn mér 500 krónur sem dugðu fyrir einum ökutíma hjá ökukennara.
-----oOo-----
Ólafur Ragnar Grímsson forseti fór ásamt fríðu föruneyti austur á Hornafjörð á dögunum í opinbera heimsókn. Ekki velti ég þessari heimsókn mikið fyrir mér, enda ákaflega lítið hrifin af þessum manni þótt ég hafi greitt honum atkvæði mitt fyrir tveimur árum sem skásta kostsins af þremur slæmum. Það er bara eitt sem ég næ ekki alveg. Ólafur Ragnar Grímsson á að vera forseti allrar þjóðarinnar, einnig Skaftfellinga. Hvernig getur hann þá farið í opinbera heimsókn til sjálfs síns sem hlýtur því að vera allt ríkið Ísland? Hann má gjarnan ferðast um landið að vild og er það betur en þegar hann er að leika sér á skíðum í útlöndum á kostnað íslensku þjóðarinnar eða að ferðast með rússneska arðræningjanum Róman Abramóvits, en ég er bara óhress með að þetta skuli kallað “opinber heimsókn”.
miðvikudagur, apríl 26, 2006
26. apríl 2006 - Um Guðhræðslu og góða siði
Ég rak augun í frétt á visir.is þess efnis að búið væri að samþykkja frumættleiðingar samkynhneigðra í Belgíu. Þetta er hið besta mál og hafa Belgar staðið í fremstu röð þjóða þegar kemur að jafnrétti þegnanna. Þess má og geta að Belgar hafa fyrstir allra afnumið kröfuna um hjónaskilnað þegar kemur að því að transsexual persóna leggist undir hnífinn til leiðréttingar á kyni sínu. Þessi krafa er hvort eð er orðin úr takt við tímann með heimild í lögum margra ríkja um staðfestar samvistir eða hjónabönd samkynhneigðra.
Auðvitað komu andmæli við fréttinni á visir.is. Hvað annað? Sjálfur Jón Valur Jensson guðfræðingur sá ástæðu til að mótmæla þessum lögum í Belgíu og vonast jafnframt til þess að frumvarpið um frumættleiðingu samkynhneigðra á Íslandi verði fellt. Þess má geta að sá hinn sami Jón Valur Jensson var í hópi um tuttugu einstaklinga auk sértrúarsafnaða sem mótmæltu óskum samkynhneigðra um að fá kirkjulega hjónavígslu.
Fyrir nokkrum árum síðan heyrði ég hann lýsa hrifningu sinni á ríkismorðum (dauðarefsingum) í einhverjum útvarpsþætti. Ég hefi enn ekki heyrt hann lýsa yfir hrifningu sinni á George Dobbljú Bush eða pótentátum hans, Dick Cheney og Donald Rumsfeld. Ég vænti þess að heyra það fljótlega.
-----oOo-----
Hetjurnar hugprúðu í Halifaxhreppi tóku Grafarenda í nefið í næstsíðasta leik kvenfélagsdeildarinnar á heimavelli Halifaxhrepps í gærkvöldi og hafa þar með tryggt sér að lenda ekki neðar en í fjórða sæti að aflokinni deildarkeppninni og þar með leiki í umspili um sæti í langneðstu deild. Hérafordsteikurnar sem eru í öðru sæti eru þó einungis tveimur stigum ofar og Gránufjelagið einu stigi ofar. Því er ljóst að síðasta umferð á laugardaginn kemur, getur farið á hvern veg sem er. Því er ekkert hægt að segja um það á þessari stundu hver spilar á móti hverjum í umspilinu.
þriðjudagur, apríl 25, 2006
25. apríl 2006 - Nöldur á þriðjudagsmorgni
Í síðustu viku heyrði ég talað um þúsund krónu ávísun til bókakaupa. Þessi frétt um þúsund krónur eyrnamerktar góðri bók gladdi mig mjög og það verður ávallt pláss fyrir eina bók í viðbót í hillunum hjá mér. Ég hóf að kanna póstkassann hjá mér á þriðjudag eftir páska. Engin ávísun til bókakaupa lá þar. Bara reikningar. Á miðvikudag var heldur engin ávísun þar og enginn datt tékkinn inn um lúguna á föstudag. Ég fór að verða úrkula vonar. Mér tókst þó að lifa af helgina með drykkjuskap og gleði en án nýrrar bókar og á mánudagsmorguninn mætti ég á vaktina vongóð um að þúsund krónu ávísunin kæmi inn um lúguna þann daginn.
Svo kom ég heim og í póstkassanum var stórt og mikið bréf og án áritunar sendanda. Ég flýtti mér auðvitað að rífa það upp, en engin var þar ávísunin, en glæsilegt boðskort frá stjórnarformanninum sem bauð til samkvæmis til fjalla næstkomandi laugardag. Synd að hann skuli vera að hætta í pólitík.
Ég veit ósköp vel að ég er með gulan miða á póstkassanum mínum til að minna póstburðarfólk á að ég vilji engan ruslpóst. En ég skil ekki alveg hugsunarháttinn hjá póstburðarfólkinu er það flokkar póst í ruslpóst og annan póst. Þannig fæ ég Blaðið á hverjum degi, en Fréttablaðið fæ ég bara um helgar. Ég fæ allskyns auglýsingabæklinga, en engin Bókatíðindi og engan IKEA-bækling fæ ég frá Gunnubúð.
Enga bókaávísun fékk ég heldur frá bókaverslunum. Póstburðarfólkið telur kannski bækur með rusli. Það finnst mér synd.
-----oOo-----
Ég hefi verið að velta fyrir mér þessum fjölda ungra ökumanna sem hafa verið teknir fyrir ofsaakstur eða kappakstur að undanförnu svo ekki sé talað um stúlkuna sem lést í kappakstri fyrir nokkru síðan. Mér finnst þetta vera hið versta mál, en spyr þess um leið hvort ekki sé eitthvað að umferðarfræðslunni? Það er rekið Umferðarútvarp á Íslandi. Tvö þeirra sem stjórna þessu Umferðarútvarpi eru ágæt og gefa ökumönnum allskyns góð ráð auk allskyns almennra tilkynninga um umferðina sem mættu reyndar vera oftar, en þriðji aðilinn sem ég heyri oftast, hljómar alltaf eins og fýlupúki. Hann kvartar stöðugt yfir of miklum hraða. Flestir hans pistlar ganga út á að draga úr umferðarhraða og án þess að skýra þetta nánar, svona eins og dæmigerður nöldrari. Því fara bænir hans fyrir ofan garð og neðan hjá flestum ökumönnum og hann missir marks. ... (segir ein sem var sektuð fyrir 61 km hraða árið 1985 þar sem hámarkshraðinn var 50 km þótt það væru tvær akreinar í hvora átt).
mánudagur, apríl 24, 2006
24. apríl 2006 - Göngutúrar með meiru
Á göngu minni um Elliðaárdalinn á sunnudagskvöldið rak ég augun í skilti þar sem fólk er hvatt til að sýna viðkvæmu lífríki Elliðaánna tillitssemi. Þetta finnst mér gott skilti og nauðsynlegt.
Í árhundruð hafa hinir ýmsu fiskadráparar, kóngar, borgarstjórar og limir í Stangaveiðifélagi Reykjavíkur gert ítrekaðar tilraunir til að útrýma laxinum úr Elliðaánum og ekki hefur ástandið lagast með stóraukinni bílaumferð yfir Elliðaárnar, en mér skilst að nú séu yfir hundrað þúsund bifreiðar á dag sem spýja útblæstrinum niður í árfarveginn og menga vatnið fyrir fiskinum. Starfsfólk Elliðaárstöðvar hefur reynt að spyrna á móti með margvíslegum ráðstöfunum svo sem með vatnsmiðlun allt árið niður árnar og eftirliti með þeim 365 daga á ári.
Fyrir rúmu ári síðan reyndi ónefndur borgarfulltrúi R-listans að banna kajakæfingar í straumvatni Elliðaárstöðvar sem og að takmarka umferð gangandi fólks meðfram árbökkunum, en uppskar athlægi fyrir bragðið, enda vitum við sem er, að gangandi fólk og kajakræðarar eru fólkið sem veldur minnstu tjóni fyrir lífríkið í Elliðaánum.
Það er ekki nema tvennt sem hægt er að gera til að bæta lífríki Elliðaánna frá því sem nú er. Það er annars vegar að banna akstur bifreiða í námunda við Elliðaárnar eða banna laxveiðar í ánum. Ég sé í anda atkvæðamissir þess stjórnmálaflokks sem reynir að banna bílaumferð yfir Elliðaárnar og þá er bara eitt eftir.
-----oOo-----
Erindi mitt með sunnudagsgöngutúrnum var það að fara með bílinn á verkstæði til að yfirfara bremsukerfið fyrir aðalskoðun og gekk ég heim eftir að hafa skilið bílinn eftir við verkstæðisdyrnar. Gangan reyndist mér öllu erfiðari en ég hafði ætlað því ég kom lafmóð heim eftir 40 mínútna labb í gegnum Elliðaárdalinn. Það hafði mátt ætla að ég hefði unnið kappaksturinn á Formúlu saumavél, en ekki heimsmethafinn geðþekki. Sjálfur sté hann úr bílnum með saumavélarmótorinn án þess að að blása úr nös og er hann sennilega í betra ásigkomulagi líkamlega en ég. Hafði hann þó bætt tvö eigin heimsmet með kappakstrinum á sunnudeginum auk þess sem að hann sló gamalt heimsmet í ráspólafjölda á laugardeginum. Ég ætti kannski að bjóða mig fram í kappakstur á mínum vinstrigræna Subaru.
-----oOo-----
Það ríkti sorg á ritstjórnarskrifstofum Morgunblaðsins eftir að heimsmethafinn geðþekki vann keppnina á Imola brautinni í gær og leyndu vonbrigðin sér ekki í skrifum íþróttafréttaritara Morgunblaðsins, Ágústs Ásgeirssonar. Eftir að hafa grátið hvern heimsmeistaratitil Michaels Schumacher ár eftir ár, sá hann loks fram á betri tíð í fyrra er allt gekk á afturfótunum hjá þáverandi heimsmeistara. Þótt hans manni tækist einungis að lenda í öðru sæti í stigakeppni ársins, gerði Ágúst sér samt vonir um heimsmeistaratitil í ár.
Með því að Michael virðist loksins að koma til baka, verður titilsókn hins syfjaða uppáhalds Ágústs öllu erfiðari og verulega minni líkur fyrir ísklumpinn að vinna titil að sinni.
-----oOo-----
Loks ætla ég að óska sjálfri mér til hamingju með daginn, en mánudagurinn 24. apríl 1995 verður mér minnisstæður til æviloka vegna eigin reynslu, en auk þess minnir dagurinn mig á góða vinkonu sem á afmæli þennan dag og einnig á stef úr velþekktu tónverki Pink Floyd.
sunnudagur, apríl 23, 2006
23. apríl 2006 - Lögguleikur - endurtekið
Það var eldsnemma á laugardagsmorgni, kannski tveimur árum eftir að ég flutti til Svíþjóðar. Blíðskaparveður. Ég átti vakt klukkan hálfsjö í orkuverinu í Hässelby í úthverfi Stokkhólms og þurfti því að ná strætisvagninum sem fór frá Jakobsberg Centrum klukkan hálfsex um morguninn. Það ferðast fátt fólk með strætisvagni klukkan hálfsex á laugardagsmorgni, einnig í Svíþjóð.
Þegar ég sté upp í þennan fyrsta strætisvagn morgunsins var ég eini farþeginn auk bílstjórans og gat því teygt vel úr mér þaðan sem ég sat aftast í vagninum. Vagninn hélt áfram og þræddi ætlaða leið sína um Veddesta og kom eftir skamma stund að brautarstöðinni í Barkarby. (Barkarby station) Þar beið vagninn smástund eftir klukkunni áður en hann lagði af stað í átt til Hässelby.
Skammt frá brautarstöðinni er örstuttur kafli þar sem aðeins er leyfður 30 km hámarkshraði. Ég veitti því eftirtekt að fullmönnuð lögreglubifreið var kyrrstæð við þennan vegarkafla. “Jæja, á nú að reyna að nappa einhvern fyrir að keyra yfir 30?” hugsaði ég. Áfram hélt vagninn eftir Skälbyvägen. Þegar vagninn fór framhjá gatnamótunum við Byleden þar sem einnig er 30 km hámarkshraði, veitti ég því athygli að það beið önnur fullmönnuð lögreglubifreið á gatnamótunum. “Fífl þessar löggur, að vera að eltast við einhvern sem keyrir aðeins yfir hámarkshraða klukkan sex að morgni.”
Vagninn hélt áfram eftir Skälbyvägen, en er hann endaði var beygt inn á Växthusvägen samkvæmt áætlun vagnsins. Þá skyndilega varð hann að stöðva því lögreglubifreið hafði verið lagt þversum á veginn framundan og í skjóli við lögreglubifreiðina voru menn með byssur á lofti og beindu að strætisvagninum. Ég fór að kíkja í kringum mig og það var ekki um að villast. Strætisvagninn var umkringdur lögreglubílum og byssur á lofti hvar sem litið var og ég var einasti farþeginn. “Úff, hvað hefi ég nú gert af mér?” Ég veitti því athygli að einhverjar löggur hlupu í hnipri meðfram hlið vagnsins og að inngangnum að framan sem hafði verið opnaður.
Einn lögregluþjónn kom hálfur inn í vagninn og kallaði eitthvað afturí vagninn. Ég stóð upp og labbaði framar í vagninn. “Varstu að kalla í mig?” spurði ég móti. Þá stóð lögreglumaðurinn upp og bað mig um að sýna sér skilríkin mín til öryggis. Ég gerði það og þá fór hann að segja mér að stórhættulegur og síðhærður strokufangi hefði sést síðla nætur í Jakobsberg og þessvegna hefðu þeir verið með þennan mikla viðbúnað er þeir sáu álengdar síðhærða manneskju í strætisvagninum. Hann bað mig svo margfaldlega afsökunar á ónæðinu en bætti svo við: “Mundu samt eftir að rétta upp hendurnar og sýna opna lófana ef þú lendir í svona aðstæðum aftur og þér er sagt að koma fram með uppréttar hendur”. Að svo búnu héldu lögreglumenn og bifreiðar í burtu.
Ég hélt hinsvegar áfram með strætisvagninum að Hässelby Strand og náði að mæta í vinnuna á réttum tíma og áleitinni hugsun sló niður í höfuðið á mér: “Fífl þessar löggur að halda að strokufangar taki sér far með strætisvagni á flótta undan löggunni!”
Birtist áður 27. febrúar 2005.
-----oOo-----
Það blæs ekkert byrlega fyrir hetjunum í Halifaxhreppi sem gerðu lélegt jafntefli við Kröflubæ í gær. Þær eiga tvo leiki eftir, en til að komast hjá umspili um sæti í langneðstu deild þurfa þær að tapa báðum leikjunum sem eftir eru, en auk þess verða strákarnir í Stefánsborg að vinna eina leikinn sem þeir eiga eftir.
Þetta verða erfiðir leikir hjá hetjunum okkar því þeir eru báðir á heimavelli gegn liðum sem eru neðan við miðja deild, annar við Grafarenda og hinn við Könnueyju.
Af öðrum íþróttafréttum er þess helst að geta að ég get glatt Þórð sjóara og Gunnu í Gunnubúð með því að heimsmethafinn geðþekki setti enn eitt heimsmetið í gær með sínum 66. ráspól og því ber að sjálfsögðu að fagna rétt eins og öllum hinum heimsmetunum hans. Heimsmethafinn hefur tekið þátt í 235 mótum í Formúlunni og unnið 84 þeirra sem er að sjálfsögðu heimsmet.
Þess má geta að til er skýring á fýlunni í finnska ísklumpnum sem Gunna og félagar halda með, en eftirfarandi skýringu fann ég á Wikipedia:
Räikkönen was asleep 20 minutes before his first F1 GP (He loves to sleep - so much so that he needs to be woken up before qualifying and races. Þess má geta að sá drengur hefur tekið þátt í 90 mótum og unnið níu þeirra sem er alveg prýðilegur árangur.
laugardagur, apríl 22, 2006
22. apríl 2006 - Um tónlistarnám
Ég fékk sáralitla tónlistarkennslu þegar ég var í barnaskóla að Brúarlandi í Mosfellssveit. Aðalkennarinn okkar sem var nýútskrifaður úr Kennaraskólanum var enn ekki uppgötvaður sem tónlistarsnillingur og áhugamaður um hljóðfæri og að auki á fullu í að setja sig inn í kennsluna og að þroska sig í háttum fullorðinna, sjálfur rétt kominn yfir tvítugt er hann hóf að kenna. Því fór ekkert fyrir tónlistarkennslu af hálfu Birgis Sveinssonar að sinni þótt seinni tíma nemendur ættu eftir að njóta hæfileika hans í ríkum mæli sbr. Þorkel Jóelsson og síðar drengina í SigurRós.
Miðaldra maður sem kallaður var Óli fiðla kenndi okkur söng um tíma en fórst kennslan fremur illa úr hendi, ekki vegna áhugaleysis, fremur vegna þess hve erfitt honum reyndist að halda uppi aga í kennslustundum. Því átti hann það til að missa stjórn á skapi sínu og þetta nýttu eldri krakkarnir sér út í ystu æsar og er það miður. Því fór svo að þegar ég fór til Reykjavíkur og settist í tólf ára bekk haustið 1963, kunni ég ekkert í tónlistarfræðum, gat hvorki lesið nótur né spilað á hljóðfæri. Ekki bætti úr að ég var og er enn alveg hræðilega laglaus.
Þegar ég kom í skólann í Reykjavík, lenti ég í bekk með krökkum sem öll höfðu iðkað tónlistarnám árum saman hjá sama kennaranum. Þau kunnu sitt af hverju í músíkölskum fræðum, öll nema ég. Það var því ljóst að ég myndi eiga mjög erfitt tónlistarnám fyrir höndum þótt önnur fræði í tólf ára bekk væru mér tiltölulega auðveld viðureignar. Ég lenti í skyndiprófi eða miðsvetrarprófi í tónlistinni og ég fékk minnir mig 2.0 í einkunn og þá fyrir viðleitni. Ákaflega uppbyggjandi einkunn eða hitt þó heldur, en ég átti víst ekkert betra skilið.
Þegar neyðin er stærst er hjálpin næst. Skömmu eftir þetta skelfilega skyndipróf varð kennslukonan í tónlistinni að hætta kennslu sökum þess að hún var komin langt á leið, ólétt að fyrsta barni sínu. Með þessu lauk öllum frekari tilraunum til uppfræðslu minnar í tónlist og mér varð naumlega bjargað frá því að vera send í verri bekkjardeild þegar komið var í Gagnfræðaskólann.
Í vikunni var ég að skoða fermingarmyndir á bloggsíðu einni, kannaðist við afann sem fyrrum samstarfsmann hjá Orkuveitunni og fór að skoða myndina af afanum og ömmunni aðeins betur. Í framhaldi af því fór ég að skoða ættartölur og hnýsast um góða bloggvini og niðurstaðan varð þessi:
TAKK Hildigunnurr fyrir að bjarga mér frá slæmum einkunnum veturinn 1963-1964 :)
föstudagur, apríl 21, 2006
21. apríl 2006 - Hvað um útflytjendur?
Ónefndur pulsusali hefur verið áberandi í umræðunni undanfarna daga vegna álits síns á innflytjendum. Hann hefur sérstaklega látið í ljós hræðslu sína við það sem mun ske 1. maí næstkomandi. Ekki veit ég til hvers.
1. maí næstkomandi munu íbúar frá tíu ríkjum Austur-Evrópu fá aðgang að Íslandi án sérstaks atvinnuleyfis. Ekki veit ég hvaða réttindi við fáum á móti í ríkjum þeirra, en mig grunar að þetta gefi okkur um leið heimild til að setjast að og starfa í ríkjunum tíu rétt eins og þeir mega setjast að hér á landi. Þá þykist ég vita að þetta gefi Íslendingum einnig rétt til að stofnsetja fyrirtæki í viðkomandi ríkjum, kaupa jarðir og húseignir í þessum löndum án sérstakra leyfa sem áður var krafa. Vinafólk mitt frá Finnlandi keypti jörð í Eistlandi fyrir lítinn pening fyrir nokkrum árum og getur búið þar að vild. Því ekki Íslendingar í Slóvakíu eða Ungverjalandi? Ég get vel ímyndað mér að hægt sé að komast yfir ódýrt sumarbústaðaland þar fyrir brot af því verði sem Íslendingar eru að leggja í jarðir á Spáni.
Af hverju ekki að sjá kostina við sameinaða Evrópu í stað þess að rýna í gallana?
Ég skal viðurkenna það að þegar ég kom til Slóvakíu síðastliðið haust og kom útúr flugstöðinni í Bratislava, fannst mér lyktin fyrir utan minna mig á gamla Sovétið á áttunda áratug tuttugustu aldar og ég fékk bullandi heimþrá. Sovéttilfinningin hvarf þó um leið og stigið var upp í hópferðabílinn sem flutti okkur frá flugvellinum og trúi ég ekki öðru en að þessi ríki séu langt komin með að aðlagast fjárhagskerfi Vestur-Evrópu svo það er bara að drífa sig í að kaupa jarðarpartinn.
-----oOo-----
Svo ætla ég að gera tilraun til að setja inn mynd af gömlu góðu kaffivélinni sem gaf upp öndina, rétt eins og þegar Þórður setti inn myndina af Ésúskónum sínum á bloggið þótt þeir hefðu átt betur heima á Þjóðminjasafninu.
-----oOo-----
Loks fær Siggi E. vinnufélagi minn hamingjuóskir með sjötugsafmælið.
fimmtudagur, apríl 20, 2006
20. apríl 2006 - Söknuður
Þarfasti þjónninn minn gaf upp öndina í gær eftir 22 ára dygga þjónustu við mig og mína. Hann var reyndar hún og fylgdi mér í gegnum súrt og sætt og fékk stundum óblíða meðferð hjá mér, en ávallt þjónaði hún mér og gestum mínum af alúð og tryggð.
Á síðustu árum var ljóst að það styttist í endalokin hjá henni. Hún hélt illa vatni þótt ávallt gætti hún þess að veita mér þann yl sem var nauðsynlegur í þrengingum hversdagsins. Í fyrradag var ljóst að meinið var farið að breiðast út er ég veitti því athygli að það var kominn stærðar vatnspollur í kringum hana. Lekinn var farinn að ágerast og ljóst að ekki gæti hún sinnt hlutverki sínu lengur án hættu á skaða fyrir umhverfi sitt. Því kvaddi ég gömlu góðu Philips kaffivélina mína með virktum, þessa góðu græju sem hafði fylgt mér allt frá því viku eftir hjónaskilnað fyrir 22 árum og aldrei kvartað yfir meðferðinni á sér.
Nú er komin ný kaffivél í eldhúsið hjá mér sem sögð er hafa sömu eiginleika og gamla Philips kaffivélin mín og hellir uppá úrvalskaffi beint í hitabrúsann eins og sú gamla gerði, en bara með helmingi öflugra hitaldi fyrir hraða uppáhellingu. Ég á þó ekki von á að hún endist jafnlengi og sú gamla þótt hún sé af þýsku gæðamerki.
-----oOo-----
Mér barst kveðja í gær norðan úr landi frá konu einni sem var mér sammála um orð mín í garð brandarakarls þess sem reytti af sér brandara yfir landslýð á páskadagsmorgun. Kveðjan var svohljóðandi:
Biskup sagði brandara
býsna gamla og lúna,
á leið í "uppistandara"
ætlar að "dissa" trúna.
-----oOo-----
Í gærkvöldi tókst Gránufélaginu að ýta hetjum vorum í Halifaxhreppi niður um eitt sæti í ensku kvenfélagsdeildinni með því að sigra Skarnaborg með sjö mörkum gegn tveimur. Betur má ef duga skal því ég óttast að þetta verði endanleg úrslit í deildinni í ár og þýðir það væntanlega að Halifaxhreppur mun lenda í umspili um sæti í langneðstu deild við þetta sama Gránufélag.
-----oOo-----
Með þessum orðum vil ég óska öllum nær og fjær gleðilegs sumars með þökkum fyrir veturinn.
miðvikudagur, apríl 19, 2006
19. apríl 2006 - Innflytjendur
Daginn sem ég flutti í Árbæinn fyrir rúmlega ári síðan, rakst ég á útlending í stigaganginum þar sem ég var á fullu að bera kassa og öfugt við þá Íslendinga sem ég hafði mætt í húsinu fram að því, þá tók hann í hendina á mér og bauð mig velkomna í húsið. Síðar komst ég að því að útlendingurinn er ættaður frá Austurlöndum nær, en hafði verið búsettur í Þýskalandi er hann kynntist íslenskri konu sinni sem var þar í námi og þau höfðu síðan sest að á Íslandi eftir nám þeirra.
Ég veit ekkert hverrar trúar nágranni minn er, né heldur hefi ég fullvissu fyrir þjóðerni hans og það kemur mér ekkert við. Nafn hans, útlit og hreimur í rödd er ekki nóg fyrir mig að ganga á torg og fordæma manninn. Þvert á móti hefur hann á einfaldan hátt sannað sig fyrir mér og það nægir mér.
Fellahverfið er að breytast í hverfi innflytjenda. Langavitleysan sem svo hefur verið kölluð er orðin sem Rinkeby eða Rosengård og er það miður. Innflytjendur eru farnir að safnast saman þarna í stað þess að dreifa sér um borgina. Ég fagna því þegar okkur auðnast að kynnast nýjum viðmiðum og öðruvísi trúarbrögðum, framandi þjóðum, en ég vil sjá þetta fólk á meðal okkar einfaldra sálanna sem höfum húkt hér á Klakaskerinu um aldir alda, en vil ekki sjá það búa í einangruðum samfélögum í Fellahverfinu. Ég er búin að sjá nóg af slíku, rótleysi unglinga sem eiga sér enga fósturjörð og leiðast út allskyns vafasama starfsemi. Því vil ég sjá þessar þjóðir dreifa sér á meðal okkar.
Maðurinn á hæðinni fyrir ofan mig er sönnun þess að þjóðirnar geta búið saman í sátt og samlyndi.
þriðjudagur, apríl 18, 2006
18. apríl 2006 - Brandarar
Á páskadag messaði biskup Íslands í dómkirkjunni og reitti af sér brandarana að venju. Lét hann nokkrar vel valdar skrýtlur falla sem áttu uppruna sinn í Biblíunni. Þrátt fyrir brandara sína, virtist sem kirkjugestir væru ekki alveg sammála biskup, því enginn hló og ekki tók biskup bakföll eins og Ómar Ragnarsson.
Með bröndurum sínum hélt biskup uppteknum hætti frá því sem hann byrjaði með í nýjárspredikun sinni, en hann fagnaði nýju ári með nokkrum vel völdum hommabröndurum. Fáum kom þó hlátur í hug í það skiptið, ekki fremur en nú og er spurningin hvort biskup þurfi ekki að ráða sér ímyndarsmið og uppistandara til að kenna sér að segja brandara.
Annars má ég ekki við því að hallmæla biskup. Eins og áður hefur komið fram, átti hann góðan þátt í að kasta mínu gagnkynhneigða hjónabandi á ruslahaugana og skal það reiknast honum til tekna. Um það má þó deila hvort hjónaband það hafi verið gagnkynhneigt, en samkvæmt nýlegum kenningum um kyngerfi, má eiginlega telja hjónabandið umrædda sem samkynhneigt þótt annar aðilinn hafi aðrar skoðanir á málunum.
-----oOo-----
Enn hallar undan fæti hjá hetjunum fótfimu í Halifaxhreppi, en þær unnu Jórvíkurborg með tveimur mörkum gegn engu í kvenfélagsdeildinni í gær. Það er víst ekki í fyrsta sinn sem Jórvíkurborg lætur í minni pokann fyrir miklum hetjum, en það ku hafa verið alvanalegt á fyrri tímum. Með þessum sigri virðist fátt geta komið í veg fyrir að Halifaxhreppur lendi í umspili um sæti í langneðstu deild á hausti komanda. Við getum þó huggað okkur við að í umspilinu munu þær sennilega leika gegn Gránufélaginu um sætið í botndeildinni. Gránufélagið er eitt helsta spútnikliðið í kvenfélagsdeildinni, kom úr neðstu kvenfélagsdeild í fyrra og áður úr einhverri deild sem ég kann ekki að nefna, en í þeirri deild spila lið á borð við Billerycaihrepp, Töðubrú og Rauðubrú auk hins sigursæla og nýlega stofnaða Wimbledon sem er þó ekki hið sama sem hinn norski Kjell Inge Rökke keypti um árið og setti á hausinn og er nú kennt við Milton Keynes og stefnir hraðbyri niður í langneðstu deild. Ljóst er að ef Halifaxhreppur hverfur á braut, mun hið unga Wimbledon fá að njóta aðdáunar minnar á meðan.
mánudagur, apríl 17, 2006
17. apríl 2006 - Dauður köttur - endurtekið
Það var einhverju sinni, skömmu áður en skrýtnu mislægu gatnamótin voru tekin í notkun á mótum Miklubrautar og Skeiðarvogs og áður en veitustofnanir Reykjavíkurborgar sameinuðust í Orkuveitu Reykjavíkur, að það fréttist af dauðum ketti í lokahúsi Hitaveitunnar við Vesturlandsveg neðan við Grafarholtsstöð. Ég fór uppeftir til að athuga málin og sá hræið af kettinum liggjandi á gólfinu í hitanum inni í lokahúsinu. Kötturinn var greinilega búinn að vera þarna í nokkra daga og nályktin nánast óbærileg. Ég náði hræinu með gúmmívettlingum og með öndunargrímu fyrir vitum mér, setti í stóran svartan plastpoka og batt vel fyrir. Setti svo pokann í annan poka, batt líka fyrir hann og skellti aftur í vinnubílinn.
Þegar ég ók af stað hugsaði ég með mér að lítið þýddi fyrir mig að fara með pokann og setja í ruslageymsluna hjá Hitaveitunni og ekki nennti ég að keyra með hræið alla leið upp í Álfsnes til förgunar. Ég yrði sennilega að finna mér einhvern annan stað fyrir hræið vegna lyktarinnar. Er ég kom út að Vesturlandsveginum og var að bölva því að þurfa að fara með hræið alla leið að Álfsnesi, fór skyndilega vörubíll með ruslagám á pallinum framhjá á leið til Reykjavíkur. Aha, lausnin komin, hugsaði ég og ók af stað á eftir vörubílnum. Þessi er örugglega á leið að einhverjum söfnunarstað Sorpu. Er vörubíllinn kom að ljósunum á gatnamótum Miklubrautar og Skeiðarvogs skipti yfir í rautt ljós og hann stoppaði eins og lög gera ráð fyrir. Ég stoppaði fyrir aftan hann og eldsnögg skaust ég aftur í, náði í pokann með hræinu og kastaði yfir í ruslagáminn á vörubílnum. Síðan ók ég af stað er skipti yfir í grænt, fór framúr vörubílnum og beygði svo inn Grensásveginn í átt til Hitaveitunnar.
Ég sá að vörubíllinn kom á eftir mér inn Grensásveginn. Ég ók inn í portið hjá Hitaveitunni og lagði bílnum og sá fljótlega að vörubíllinn með gáminn kom líka inn í portið. Hvur andskotinn, hefur hann séð til mín er ég skutlaði pokanum með kattarhræinu yfir í ruslagáminn? Nei það virtist ekki vera. Hinsvegar bakkaði vörubíllinn að ruslageymslunni og slakaði gámnum inn í geymsluna. Hann hafði þá verið á leið til Hitaveitunnar með gáminn eftir allt saman.
Dagana á eftir lenti allskyns rusl ofan á kattarhræinu í gámnum og fljótlega gaus upp sterk nálykt í ruslageymslunni. Ég vissi auðvitað enga skýringu á lyktinni og kvartaði að minnsta kosti jafnmikið og annað starfsfólk yfir þessari óbærilegu lykt frá ruslagámnum sem síðan hvarf tveimur vikum síðar er gámurinn var tæmdur.
Meðfylgjandi mynd er af lokahúsinu við Vesturlandsveginn. Sagan birtist áður á gamla blogginu 25. ágúst 2004.
sunnudagur, apríl 16, 2006
16. apríl 2006 - Af rauðu ljósi og tugthúslimum - endurtekið
Það var einhverju sinni í gamla daga að skipið sem ég var á lá í höfn í Portsmouth skammt frá Norfolk í Virginíufylki í Bandaríkjunum. Ég var jafnan með bíl til umráða þegar höfð var viðkoma í Portsmouth og nokkrum skipverjum á Bakkafossi hugkvæmdist að skreppa í bæinn og kíkja ofan í eina eða tvær ölkrúsir. Meðal þeirra var matsveinninn um borð, maður á miðjum aldri. Vandamálið við hann var bara að hann var svo skelfilegur aftursætisbílstjóri. Á leiðinni í bæinn glumdu sífellt á mér skammirnar úr aftursætinu: “Þú keyrir of hratt, þú átt að vera á hinni akreininni, það er rautt ljós framundan”.
Við fórum og versluðum lítilsháttar í bænum og svo var litið inn á krár við Little Creek Road í Norfolk. Það var komið nokkuð framyfir miðnætti þegar við lögðum af stað um borð. Þótt matsveinninn væri búinn að fá eitthvað í annan fótinn eða báða, breyttist hann í hvæsandi óargadýr um leið og hann settist í aftursætið og skammirnar byrjuðu að dynja á mér um leið og ekið var af stað. Það var engin umferð úti á Hampton Boulevard og ég var í góðu skapi þrátt fyrir skammirnar úr aftursætinu. Er ég heyrði þann gamla vara mig við rauðum umferðarljósum framundan, ákvað ég að prófa viðbrögðin, leit vel eftir umferð á hliðargötum og ók svo yfir á rauðu.
Í baksýnisspeglinum sá ég kokkinn lyppast niður í sætinu og hann þagnaði. Kyrrð komst á í bílnum og sökum þess að ég hafði farið yfir á rauðu varð ég að stoppa á næstu gatnamótum sökum samhæfingar umferðarljósa. Svo kom grænt og ég ók af stað. Þá birtist allt í einu lögreglubíll fyrir aftan mig með blikkandi ljósum og var mér gefin bending um að stoppa sem ég gerði.
Í lögreglubílnum voru tveir lögregluþjónar, hvítur karl og svört kona. Ég var beðin að koma úr bílnum og á meðan karlmaðurinn yfirheyrði mig, stóð konan allan tímann vel til hliðar með hönd á byssuskeftinu. Það var greinilega fáum að treysta í þessu aðalvígi bandaríska flotans.
Lögregluþjónninn vildi sjá ökuskírteinið mitt og pappíra fyrir bílnum. Ég sýndi honum mitt rammíslenska ökuskírteini auk annarra pappíra. Ekki leist honum sérlega vel á ökuskírteinið mitt og byrjaði að véfengja gildi þess. Ég benti honum á að tryggingafélögin væru búin að samþykkja það sem hann gat séð á öðrum gögnum. Loksins samsinnti hann rökum mínum, en bætti svo við:
“Þú ókst yfir á rauðu ljósi áðan”
“Já það er rétt.”
“Af hverju?”
Ég útskýrði fyrir lögreglumanninum að ég væri með aftursætisbílstjóra afturí hjá mér og að ég hefði farið yfir á rauðu ljósi til að þagga niður í honum. Þetta þótti lögreglumanninum mjög gott ráð og hló mikið, en bannaði mér að gera þetta aftur á meðan ég væri í þeirra umdæmi, en reyna frekar að komast hjá að ferðast með kokkinn. Enga fékk ég sektina og við kvöddumst og þau fóru á brott.
Ég fór að ráðum þeirra, fór um borð í snatri og losaði mig við matsveininn og hefi ekki boðið honum far aftur. En nóttin var rétt byrjuð.....
Þegar komið var að varðhliðinu við höfnina í Portsmouth, bað vörðurinn mig að koma aðeins inn í varðskýlið sem ég gerði. Inni sat skipstjórinn okkar og þurfti að komast upp upp í aðalstöðvar lögreglunnar í Norfolk og hvort ég gæti ekki farið með honum þangað þar sem ég væri edrú og á bíl. Það var sjálfsagt því vart taldist skipstjórinn hæfur til aksturs, vel hreyfur af öli. Ég skutlaði strákunum og aftursætisbílstjóranum um borð og hélt svo aftur í bæinn með skipstjórann meðferðis.
Á leiðinni útskýrði hann fyrir mér hvað væri í gangi. Fjórir ungir áhafnarmeðlimir hefðu verið handteknir og settir í steininn vegna ósæmilegrar hegðunar nærri miðborg Norfolk, en sá fimmti, messaguttinn væri undir lögaldri. Samkvæmt lögum í Virginíufylki mætti ekki hneppa hann í varðhald ef næðist í lögráðamann hans sem þyrfti að sækja hann. Skipstjórinn taldist vera lögráðamaður í þessu tilfelli og því þurfti að sækja drenginn í tukthúsið.
Það gekk fljótt og vel að finna aðalstöðvar lögreglunnar í Norfolk og þóttist ég vera með öll völd þarna og lagði bílnum mínum í bílastæði sem var merkt lögreglubílum og þóttist vita að lögreglan færi ekki að sekta fólk á heimavelli. Síðan fórum ég og skipstjórinn og með hjálp vakthafandi lögregluþjóna, fundum við réttu deildina í þessari risastóru lögreglustöð þar sem við hittum fyrir varðstjóra.
Eftir að hafa heilsað varðstjóranum, byrjaði okkar maður, mjög ákveðinn í bragði, að tilkynna að hann væri hingað kominn til að sækja fimm unga stráka frá sér sem lögreglan hefði í haldi. Varðstjórinn mótmælti og neitaði að láta fleiri af hendi en messaguttann nema ef skipstjorinn vildi reiða fram tryggingarfé til að fá þá lausa. Hinir fjórir þyrftu að mæta fyrir dómara um morguninn. Ekki man ég hvert tryggingaféð átti að vera, en það var of hátt til að skipstjórinn væri með það handbært. Hann reyndi samt hvað hann gat að fá þá lausa án tryggingar og stríddi varðstjóranum góðlátlega í leiðinni. Við fengum þó að heyra að brot strákanna hefði verið heimsókn á ólöglegt hóruhús: “Þú verður þá að sjá til þess að þeir fái lista yfir löglegu hóruhúsin þegar við komum hingað næst!”
Við fengum messaguttann afhentan, sextán ára peyja sem var í sinni fyrstu ferð til sjós. Hinir fjórir fengu að dúsa í dýflissunni um nóttina. Eftir að hafa labbað til baka sömu rangalana sem við höfðum komið, komum við aftur út á bílastæðið. Er þangað var komið mættum við tveimur lögregluþjónum sem voru að koma úr eftirlitsferð, hvítum karli og svartri konu og úr svip konunnar mátti lesa hugsanir hennar: “Það hafa einhverjir verið harðari við þig heldur en við!”
Á leiðinni til skips reyndi skipstjórinn að ræða við messaguttann. Hvað voruð þið að gera af ykkur? Hvað voruð þið að þvælast inn í mitt svertingjahverfi um miðja nótt? Er ekki til nóg af stelpum á Íslandi? Spurningarnar dundu á stráknum sem hummaði allar spurningar fram af sér og svaraði litlu og fálega. “Og mundu það að ef þú segir mér ekki hvað skeði, þá rek ég þig!” Alveg sama sagan. Strákurinn svaraði jafnlitlu og áður. Við komum um borð. “Og hunskastu svo niður að sofa. Ég tala betur við þig í fyrramálið” sagði yfirvaldið og snéri sér svo að mér þegar peyinn var farinn niður í herbergið sitt: “Komdu og fáðu þér einn öl, ekki veitir af eftir þetta næturævintýri”. Við settumst niður og opnuðum öl og þá fór skipstjórinn að hlæja eins og asni:”Mikið djöfull var þetta flott hjá drengnum, hann á eftir að spjara sig í lífinu. Að segja ekki orð um félaga sína á svona stundu. Ég skal sko segja þér það, að ef hann hefði byrjað að romsa upp úr sér öllu um hina, þá hefði ég rekið hann!”
Um morguninn lenti ég aftur í því að fara með skipstjórann til Norfolk, en í þetta sinn var loftskeytamaðurinn með í för til að túlka yfirheyrslu fyrir dómi. Þrír hásetar og smyrjari voru dæmdir í 37$ sekt hver fyrir heimsókn á ólöglegt hóruhús og mótþróa við handtöku. Við réttarhöldin kom fram að lögreglan hafði lengi vitað um starfsemina í húsinu, en sökum þess að dæmi voru um að menn hefðu farið þangað og aldrei spurst til þeirra aftur var vandlega fylgst með því úr næsta húsi. Þegar fimm bláeygðir Íslendingar fóru inn í húsið til að seðja þörfum sínum, ákvað lögreglan að gera áhlaup á húsið fremur en að sitja hjá ef eitthvað blóðbað ætti sér stað.
Messaguttinn sigldi með okkur í nokkra mánuði eftir þetta og var í miklu uppáhaldi hjá skipstjóranum eftir að hann sannaði þagmælsku sína með óvægnum hætti nóttina forðum. Hann hætti þó fljótlega til sjós og hóf að starfa í landi þar sem hann lést ári síðar í vinnuslysi. Skipstjórinn var lengstum vinsælasti skipstjórinn hjá Eimskip og er enn hinn hressasti á miðjum áttræðisaldri.
-----oOo-----
Með þessu óska ég öllum gleðilegra páska.
laugardagur, apríl 15, 2006
15. apríl 2006 - 2. kafli - Kvörtunarpistill
Það er kvartað yfir blogginu mínu. Það er því ljóst að það ríkir gúrkutíð í bloggmálum mínum þessa dagana sem sést best á minnkandi aðsókn og fáum athugasemdum og því greinilegt að fólk á það til að sofna yfir pistlum mínum. Það var alls ekki ætlunin, en til að bæta ykkur þetta upp, ætla ég að setja aftur inn vel valda kafla úr gömlum pistlum. Ég hefi aftur fengið aðgang að gömlu bloggfærslunum mínum á blog.central.is og get því sótt færslurnar og endurbirt þær hér.
Til þess að þreyta lesendur mína ekki um of með endurtekningum mun ég að sjálfsögðu taka fram ef um endurtekið efni er að ræða. Færsla morgundagsins verður að sjálfsögðu endurtekin páskahugvekja ársins 2005, því rétt eins og að Júdas hengir sig á ári hverju, rígheld ég líka í hefðirnar og vek gamla bloggið til lífsins aftur á hverjum páskum um leið og ég krossfesti lesendur mína með grobbi og sjálfshóli í pistlum mínum.
-----oOo-----
Ill tíðindi berast mér úr ensku kvenfélagsdeildinni. Gránufélagið sem átti að komast uppfyrir hetjurnar okkar í Halifaxhreppi með stórsigri á botnliðinu, Ræningjunum í Grænaskógi, og tryggja þannig áframhaldandi stöðu þeirra í kvenfélagsdeildinni, náði einungis lélegu jafntefli og því munu hetjurnar okkar þurfa að lifa áfram í óttanum um að enda í langneðstu deild í haust.
15. apríl 2006 - Loksins, loksins
Loksins er þessum laaaanga föstudegi lokið. og laugardagur að renna upp bjartur og fagur. Einhvernveginn tókst mér að láta nefið í friði allan daginn, enda á vakt til klukkan 20.00. Ég er strax farin að horfa björtum augum til næstu hátíðar, enda bíður mín páskaegg númer 7 fyllt með konfekti inni í skáp. Fyrst verð ég þó að vinna fyrir því, en það geri ég á næturvaktinni, aðfararnótt páskadags.
Ég heyrði á viðtal fréttakonu Stöðvar 2 (eða NFS) við séra Jónu Hrönn Bolladóttur sóknarprest þar sem hún var beðin að gefa álit sitt á opnum verslunum á föstudaginn langa. Hún svaraði með því að benda réttilega á að það væri sitthvað, að halda tryggð við hefðirnar eða trúna. Hárrétt. Ég hefði ekki getað orðað þetta betur.
-----oOo-----
Það ríkir algjör gúrkutíð á fréttatofu Ríksútvarpsins. Fyrsta frétt seinnipart föstudagsins langa og margendurtekin, var um að Tsad hefði slitið stjórnmálasambandi við Súdan. Þetta er auðvitað mjög alvarlegt mál og gæti endað með því að einhverjir færu að slást í Sahara um einhver sandkorn þarna suðurfrá.
-----oOo-----
Hetjurnar okkar í Halifaxhreppi gerðu jafntefli við Stefánsborg í kvenfélagsdeildinni á föstudagskvöldið. Ég hafði reyndar komið þeim skilaboðum til þeirra að halda ólympíuhugsuninni í hávegum, en þar sem þær höfðu ekki tapað leik á heimavelli í kvenfélagsdeildinni í vetur, urðu þetta ásættanleg úrslit. Næstu tveir leikir munu fara fram á útivelli og þær eru til alls vísar í næstu leikjum. Það getur reyndar orðið erfitt að koma þeim niður í sjötta sæti úr því sem komið er, en það má vona hið besta. Línur fara að skýrast á mánudag.
-----oOo-----
Svo á Vigdís Finnbogadóttir afmæli í dag og sjálfsagður og góður siður að óska henni til hamingju með afmælið og að hún megi eiga mörg góð ár eftir.
fimmtudagur, apríl 13, 2006
14. apríl 2006 - Lengsti dagur ársins
Eins og allir vita er föstudagurinn langi einhver þægilegasti dagur ársins. Það er allsstaðar lokað og ekkert hægt að gera af sér nema liggja á meltunni og njóta letinnar. Ef mann langar í bíó, er það ekki hægt af því að einhver kall var hengdur eða krossfestur þennan dag fyrir um það bil 1973 árum síðan. Eins og allir vita eru 100% íslensku þjóðarinnar rammkaþólsk og því miklvægt að halda í þessar fornu og löngu úreltu hefðir. Sömu sögu er að segja af lönguninni að skreppa á ball eða bara að skreppa á krána. Einasta skemmtunin sem hægt er að veita sér þennan dag, er að fara á kojufyllirí eða bora í nefið. Þótt ég telji mig kristna manneskju, gef ég ekkert fyrir þessar kreddur eins og banni við öllu skemmtilegu.
Heppnin er með mér þetta árið. Ég er á vakt alla páskana og því einnig á tólf tíma vakt á föstudaginn langa. Fyrir bragðið fæ ég ágætlega greitt fyrir að dunda mér á vaktinni allan daginn í stað þess að sitja heima og plokka út úr nefinu á mér.
-----oOo-----
Framsóknarflokkurinn og hinn sparsami Frjálslyndi flokkur eru byrjaðir að birta heilsíðuauglýsingar í blöðum meira en sex vikum fyrir kosningar. Það er greinilegt að það ríkir mikill ótti í tvennum herbúðum fyrir kosningarnar í vor. Eins og gefur að skilja, nær stuðningur minn við Alfreð ekki til Björns Inga sem ég hefi að auki rekið úr ætt við mig og enn síður til Flugvallarvinanna í Frjálslynda flokknum. Að öðru leyti er eitt stykki atkvæði á lausu.
-----oOo-----
Ég heyrði ekkert minnst á fuglaflensu í sjónvarpinu á skírdag. Ég veit ekki hvort það var vegna þess að ég var ekki að hlusta af mikilli athygli, en eins getur verið að það sé vegna þess að starfsfólk Kastljóssins lá heima í fuglaflensu og því ekkert Kastljós.
13. apríl 2006 - Af fjármálum þjóðarinnar
Ég er farin að hafa áhyggjur af fjármálum íslensku þjóðarinnar. Ég hefi svo sem vitað lengi að fjármálakerfi íslensku þjóðarinnar er sem risi á brauðfótum eða réttara sagt að þjóðarskútan sé sem loftpúðaskip og ef loftpúðinn skaðast sekkur þjóðarskútan á botninn. Ég ætla samt að vona að það verði ekki svona slæmt, en um leið minnist ég þess er sænska þjóðarskútan sökk til botns um 1990 með skelfilegum afleiðingum fyrir allan þorra almennings í Svíþjóð þar sem skammtímavextir fóru upp í 500%.
Ég tel mig ekki vera í vondum málum þótt ég eigi ekki mikið í afgang. Ég þoli alvarlegt fjárhagslegt áfall í skamman tíma, en ekki mikið meira en það, bíllinn skuldlaus og auðvelt að beita einhverjum sparnaði. Ég hefi meiri áhyggjur af langtímasparnaði mínum. Hluti lífeyrissparnaðar míns er bundinn í verðbréfasjóðum og hlutabréfum. Það gæti farið illa ef allt fer á versta veg. Ég tók því þá ákvörðun í gær að flytja allt sem ég gæti á einfalda verðtryggingu. Það getur vel verið að ég sé að gera mistök, en það þykir góður siður að rifa segl ef óveðursský nálgast.
-----oOo-----
Vegna starfa minna innan Ættfræðifélagsins missti ég af sjónvarpsfréttum og Kastljósi. Því veit ég ekki um áhrif fuglaflensu dagsins á þessa stofnun. Um miðjan gærdaginn heyrði ég á fréttum útvarps að fuglaflensan ógurlega sé óhjákvæmilega að nálgast landið. Ég vorkenni fuglunum.
miðvikudagur, apríl 12, 2006
12. apríl 2006 - Af kisum ofl
Kisurnar mínar áttu ársafmæli í gær. Eins og gefur að skilja, gerðu þær sér dagamun í mat og drykk, átu rækjur og úrvals soðningu í öll mál og harðfisk og rjóma í eftirmat. Ekki voru þær einar um hituna því þær fengu gesti í afmælisveisluna sem nutu matarins ekki síður en þær sjálfar. Sjálf var ég á fullu allan daginn að elda meiri fisk og veita meiri rjóma og þær átu og drukku og voru glaðar.
Nú liggja þær afvelta í rúminu mínu og halda að framtíðin sé björt og fögur og svona verði allir dagar í framtíðinni. Ég held nú síður. Í dag verður bara tros í matinn.
-----oOo-----
Linda Blöndal er ein af uppáhalds útvarpsmanneskjunum sem ég heyri, meðal annars sökum einstakrar glettni sinnar og hvatvísi. Í gær var hún að ræða við ónefndan hljómlistarmann í tilefni af blúshátíð í Reykjavík. Sá hinn sami sagði frá því er hann þurfti einhverju sinni að bíða eftir að komast á sviðið og sagðist hafa talið 800 salerni á meðan hann beið.
“Þurftirðu að bíða svona lengi?” spurði Linda að bragði.
-----oOo-----
Enn virðist fuglaflensan hrjá þáttagerðarmenn Kastljóssins. Í gærkvöldi var rætt við heilbrigðisstarfsfólk og þá kom í ljós sú einfalda staðreynd að fuglaflensa af stofninum H5 hefur aldrei stökkbreyst eða smitast á milli manna og ekkert meiri hætta nú en endranær. Til hvers var eiginlega verið að hræða úr okkur líftóruna? Ég sem var orðin dauðhrædd og búin að panta mér tíma hjá dýralækninum því engir venjulegir læknar vildu vita af þessu.
þriðjudagur, apríl 11, 2006
11. apríl 2006 - mjá mjá
Ég hefi ákaflega lítið að skrifa um. Dagurinn hefur farið að miklu leyti í að skrifa skýrslu um ferðina góðu um daginn og því hefi ég vart farið úr húsi. Svo er engin ástæða til þess. Ég er með tvær kisur sem halda mér selskap.
Það er merkilegt til þess að hugsa að nú eru þær orðnar eins árs gamlar, feitar og pattaralegar. Þær voru ekki svona glæsilegar þegar þær voru nýfæddar, blindar og skjögrandi hjá henni Doppu móður sinni. Sjá mynd á myndasíðu.
-----oOo-----
Eins og ég sagði frá í gær, hefur Kastljós sjónvarpsins smitast af fuglaflensu. Ekki veit ég hvort fleiri hafi smitast af þessari vá, en Kastljósfólk gerði þó sitt til að hræða blessuð börnin á einhverjum leikskóla með fuglaflensutali. Ég veit ekki hvort þeim hafi tekist að hræða blessuð börnin.
mánudagur, apríl 10, 2006
10. apríl 2006 - Samsæriskenningar
Fyrir nokkru var ég stödd niður í bæ þegar sá ágæti maður Elías Davíðsson rétti að mér lítinn bækling þar sem á forsíðunni var mynd af árásinni á tvíburaturnana í New York og yfir myndinni var textinn:
“11. september 2001: Vorum við blekkt”
Mér þótti bæklingurinn forvitnilegur og tók hann með heim þar sem hann lenti í þykka ólesna pappírsbunkanum Nú þegar rúmlega þrjár vikur eru liðnar og ég búin að lesa bunkann ofan á bæklingnum, fór ég að blaðra í þessum bækling.
Margt finnst mér ákaflega athyglisvert í þessum bæklingi sem gefinn er út af 11. september hreyfingunni á Íslandi, en að henni virðast standa Elías Davíðsson og einhverjir óþekktir félagar hans. Þar er gefið í skyn, þótt ekki sé það sagt beinum orðum, að aðrir en Al Kaida hafi staðið að árásunum á New York og Pentagon og dettur manni það helst í hug eftir að hafa lesið bæklinginn, að George Dobbljú Bush og félagar hafi sjálfir staðið að þessum árásum.
Í bæklingnum er því haldið fram að fimm þeirra nítján skæruliða sem taldir voru hafa rænt flugvélunum fjórum 11. september 2001 hafi síðar gefið sig fram við vestræna fjölmiðla. Á móti spyr ég hvers vegna vestrænir fjölmiðlar þögðu yfir þessu? Nöfn þessara nítján einstaklinga voru rækilega kynnt í flestum vestrænum fjölmiðlum dagana eftir árásirnar og er ég þess fullviss að ef einhver þessara einstaklinga kæmi lifandi fram í dag, þá þætti slíkt heimsfrétt og slíkt láta vestrænir fjölmiðlar ekki framhjá sér fara. Nokkur önnur atriði varðandi tvíburaturnana eru tæknilegs eðlis og hirði ég ekki um að eltast við þau öll, en einhver þeirra eru þó sett fram þannig að samsærið virðist augljóst. Eftir stendur sú spurning hver sé svo vitlaus að fórna lífi sínu fyrir brjálæðing að nafni George Dobbljú Bush? Vart fær sá eilífa vist í himnaríki umkringdur 77 hreinum meyjum, frekar færi sá hinn sami beinustu leið til helvítis.
Svo kemur perlan í samsærisbæklingnum. “Okkur hefur verið sagt að reynslulaus flugnemi að nafni Hanjour hafi, 11. september, flogið 60 tonna farþegaflugvél af gerðinni Boeing 757, flugnúmer AA77, á bakhlið Varnarmálaráðuneytisins (Pentagon) í Washington, höfuðborg Bandaríkjanna án þess að snerta grasið.” Með þessum texta fylgir mynd þar sem merkt hefur verið inn vængbreidd Boeing 757 á byggingunni. Allt er þetta gott og blessað. Á myndinni sést hinsvegar greinilega að flugvélinni hefur verið flogið skáhalt niður í bygginguna en ekki skriðið eftir grasinu. Svo mættu höfundar bæklingsins kynna sér aðeins betur hið sérstaka byggingaform Pentagon og má minna þá á að allar fimm hliðar byggingarinnar eru jafn auðveldar viðfangs og því engin eiginleg bakhlið, nema þá ef vera skyldi miðjugarður fimmhyrningsins sem slapp alveg við tjónið.
Eftir lestur bæklingsins stendur einungis eftir að svara hinu dularfulla hruni WTC-7, sem var 47 hæða bygging og hrundi nokkrum klukkustundum á eftir tvíburaturnunum tveimur.
Ég hefi löngum haft mikið álit á Elíasi Davíðssyni og friðarkenningum hans sem og baráttu hans fyrir lausn Palestínu frá helsi því sem Ísrael hefur búið henni. Í þessum bæklingi finnst mér hinsvegar hann hafa skotið langt yfir markið. Það er miður.
-----oOo-----
Fuglaflensa sú sem herjað hefur á fréttastofu Ríkissjónvarpsins er nú farin að smitast víðar og hefur hún nú lagst þungt á þáttastjórnendur Kastljóss sjónvarpsins.
sunnudagur, apríl 09, 2006
9. apríl 2006 - Af fuglaflensu ofl.
Það hefur löngum þótt góður siður að elda fuglakjöt þannig að það verði gegnsteikt eða gegnsoðið áður en þess er neytt. Af ævagamalli reynslu hefur þetta verið stundað mann fram af manni í hundruðir ára til þess að koma í veg fyrir að ýmsir fuglasjúkdómar berist í mannfólkið og valdi magakveisu, niðurgangi og í versta tilfelli, dauða. Hver kannast ekki við að hafa heyrt talað um salmonellu og kamfýlóbakteríur? Á sama hátt og gegnsoðið fuglakjöt drepur slíkar sýkingar áður en þess er neytt, drepur suðan einnig aðrar fuglasýkingar sem borist geta í menn.
Nú hefur ný fuglavá borist í menn og enn þarf að beita svipuðum varúðarráðstöfunum, þ.e. að gegnsjóða matinn til að hindra smit. Þessi nýi smitsjúkdómur hefur valdið dauða um hundrað manna og kvenna víða um heim, sennilega oftast eða alltaf vegna þess að það var verið að káfa á smituðum fuglum með berum höndum, slátra þeim með berum höndum eða þá að þeirra var neytt án þess að þess væri gætt að þeir yrðu nægilega soðnir fyrir átu. Því fór sem fór.
Á undanförnum vikum hafa nokkrar kviksögur borist okkur um fluglauppstoppara sem hafa ákveðið að hætta að stoppa upp fugla vegna fuglaflensu og af gæsabóndanum sem slátraði öllum gæsunum sínum og ætlar næst að myrða köttinn sinn af sömu ástæðu. Kannski er hann búinn að slátra kettinum sínum. Hvaðan skyldi svo þessi ofsahræðsla berast í fólk? Ekki kemur hún frá héraðsdýralækni eða frá öðrum þeim aðilum sem vit hafa á fuglaflensu. Þar er allt með ró og spekt og fólk er jafnvel varað við því að láta óttann taka völdin. Nei, kviksögurnar koma frá öðrum aðilum.
Ég held að fuglaflensa hafi hreiðrað um sig á fréttastofu Ríkissjónvarpsins.
-----oOo-----
Það er farið að syrta í álinn fyrir stjörnunum okkar í Halifaxhreppi þegar einungis fimm leikir eru eftir af deildakeppninni í kvenfélagsdeildinni og þær hanga enn í þriðja sæti eftir sigur á Suðurhliði í gær. Einungis sjö lið virðast enn hafa möguleika á að komast úr kvenfélagsdeildinni í vor, þar af er eitt þegar búið að tryggja sér sæti í langneðstu deild, en fjögur næstu lið munu berjast um tvö önnur sæti í skussadeildinni á hausti komanda.
Af þessum fimm leikjum sem eftir eru, eru þrír á heimavelli, en annar útileikurinn er við Kröflubæ sem hefur naumlega tekist að víkja úr fallsæti úr kvenfélagsdeildinni. Kannski verður heimaleikurinn næstkomandi föstudag sá úrslitaleikur sem skilur á milli feigs og ófeigs, hverjir hafa ólympíuhugsunina að leiðarljósi og hverjir láta markagræðgina ráða yfir sér.
-----oOo-----
Svo fær örverpið hamingjuóskir með 24 ára afmælið í dag.
laugardagur, apríl 08, 2006
8. apríl 2006 - Aðstoðarmaður aðstoðarmanns ....
.... varautanríkisráðherra Bandaríkja Norður-Ameríku, ungur maður að nafni Mark Pekala er nú kominn með mál bandaríska herliðsins í Keflavík á sitt borð. Ekki veit ég hversu mjög má reikna með að honum takist að halda hernum hér áfram eftir að bæði George Dobbljú Bush vini Davíðs Oddssonar og CondóLessu Ræs vinkonu hans Geir Haarde mistókst að tryggja áframhaldandi veru hersins hérna. Að sögn fjölmiðla, telur herra Mark Pekala að hermálið á Íslandi sé afar flókið og viðkvæmt. Með því að búið er að blanda honum inn í málið er það búið að fara um allt stjórnkerfi Bandaríkjanna og er nú einungis eftir að kanna hug skúringarkonunnar á fjórðu hæðinni hvað henni finnist um veru hersins á Miðnesheiði. Álit hennar hefur hingað til verið talið fremur neikvætt því hún er af afrískum uppruna og er þess minnug er sonur hennar fékk ekki að taka þátt í vörnum Íslands á sjötta áratugnum sökum uppruna síns.
Ég fór að gúggla netheima í von um að finna mynd af Mark Pekala, en þrátt fyrir ítarlega leit fann ég einungis eina mynd af honum. Þar er hann staddur í Kraká í Póllandi, annar frá vinstri í hópi bandarískra sendimanna í Austur-Evrópu að undirbúa komu Guðrúnar Völu til borgarinnar fyrir skömmu. Sjá bloggsíðu hennar hér til hliðar.
-----oOo-----
Tveir ungir Nígeríumenn hafa nú verið ákærðir fyrir fjársvik, en þeir plötuðu fávísa Íslendinga til að leggja fram fé með því að þeir þóttust geta látið peningaseðla fjölga sér með því að setja þá í umslag með pappírssnifsi og smávegis af dufti. Að sögn fjölmiðla höfðu þeir um átta milljónir króna uppúr krafsinu.
Ekki veit ég af hverju verið er að ákæra þá. Þeir sýndu það svo ekki verði um villst að fórnarlömbin voru fífl og áttu það skilið að láta plata sig upp úr skónum.
föstudagur, apríl 07, 2006
7. apríl 2006 - Af Hæstaréttardómi
Nú hefur Hæstiréttur dæmt í máli tóbaksverslunarinnar Bjarkar gegn íslenska ríkinu og hafði verslunin betur að hluta. Mér finnst þetta hið besta mál, bæði er að síðasta útgáfa tóbaksvarnalaganna gekk mun lengra í að hefta frelsi fólks en dæmi voru um áður og gekk aðallega út á að binda fyrir augun á fólki, en einnig var um að ræða brot á atvinnufrelsi fólks sem vinnur í verslunarstörfum af þessu tagi.
Ég reykti mikið í þrjátíu ár. Þótt ég sé hætt fyrir nærri sex árum síðan, breytir það engu um að ég er lítt hrifin af núverandi tóbaksvarnarlögum og enn minna af því frumvarpi til tóbaksvarnarlaga sem nú er fyrir Alþingi. Sú hugmynd að banna alfarið reykingar á krám og skemmtistöðum tel ég að eigi að vera í höndum kráareigenda sjálfra frekar en að banna alveg reykingar inni á sama tíma og bargestir og starfsfólk norpa úti fyrir dyrum í smók á meðan einn eða tveir leiðinlegir kráargestir sitja einmana innandyra. Sjálf þekki ég til á einum stað í Reykjavík þar sem er leyfilegt að reykja í hliðarherbergi, en aðalsalurinn er reyklaus. Það er jafnan fullt inni í litla herberginu, en vart hræða í stóra salnum.
Ég skal viðurkenna að af sumu reykingafólki leggur súra reyklykt, en þá lykt leggur af þeim hvort heldur það er með sígarettu í munninum eður ei. Svo leggur stöðugt vonda fýlu af sumu fólki hvort heldur það reykir eða ekki. Fýlan er þeim eðlislæg og hefur ekkert með reykingar að gera.
-----oOo-----
Nýlega kom í ljós einkennilegur lungnasjúkdómur hjá sjúklingum sem sendir voru til röntgenskoðunar á sjúkrahúsinu í Trollhättan í Svíþjóð. Allir virtust þeir vera með dökkan blett í lunganu og á svipuðum stað og olli þetta læknum og öðru starfsfólki miklum heilabrotum. Nú hefur komið í ljós að þessi lungnafaraldur sem einungis virtist herja á íbúa Trollhättan stafaði af krónupeningi sem lent hafði undir dýnunni sem sjúklingarnir lágu á meðan þeir voru í röntgenskoðun. Að sögn Dagens nyheter hefur krónupeningurinn nú verið fjarlægður og þar með lauk þessum einkennilega faraldri.
http://www.dn.se/DNet/jsp/polopoly.jsp?d=147&a=535310&previousRenderType=6
miðvikudagur, apríl 05, 2006
5. apríl 2006 - Gúrkutíð
Helstu fréttirnar í íslenskum fjölmiðlum í gær voru um Baugsmál. Ekki voru þau einungis í þeim fjölmiðlum sem Baugur á stóran hluta í, heldur einnig í öðrum fjölmiðlum, Morgunblaðinu, sjónvarpi og útvarpi allra landsmanna. Þó eru flestir búnir að fá sig fullsadda af þessum málatilbúnaði og engin ný tíðindi eru í vændum af þessu margtuggða dómsmáli.
Í nærri fjögur ár hafa íslenskir fjallað um þetta mál sem mál málanna. Það hefur nákvæmlega verið farið ofan í sérhvern saum á því afturábak og áfram og og loks þegar einhver dómur féll, var ljóst að hér væri orðin pattstaða. Nú eru komnar fram nýjar ákærur í gömlu málinu, ný dómsmál vegna þess að hinu fyrra var klúðrað og svona mun þetta mál halda áfram í eitt til tvö ár í viðbót, jafnvel lengur.
Þetta minnir mig að sumu leyti á mál sem ég lenti í meðan ég bjó í Svíþjóð. Ég hafði lagt bílnum niðri í bæ þar sem ég taldi mig vera á frístæði, en þegar ég kom aftur að bílnum var komin stöðumælasekt á bílinn að upphæð 700 sænskar krónur (um 6500 íslenskar krónur). Eftir að heim var komið skrifaði ég rukkunarfyrirtækinu bréf þar sem ég mótmælti sektinni. Þeir héldu kröfunni samt til streitu og loks endaði málið fyrir Stockholms tingsrätt þar sem sektin var felld niður með dómi. Skömmu síðar fékk ég enn eina ítrekunina um að greiða sektina, en þá var ég orðin svo reið að ég tilkynnti rukkunarfyrirtækinu að ég myndi kæra þá fyrir fjárkúgun ef ég fengi eitt einasta bréf frá þeim aftur. Þá fyrst linnti hótunum af þeirra hálfu.
-----oOo-----
Það eru komnar nokkrar myndir inn á netið hjá mér
mánudagur, apríl 03, 2006
4. apríl 2006 - Letilíf
Ég veit að lesendur mínir ætlast til þess að ég skrifi hér fagra eftirskrift eftir för mína til Genfar um daginn og ég ætla líka að gera það, bara ekki strax. Ég hefi nóg annað að gera og svo bíða myndir þess að verða settar inn. Þar er full þörf þegar haft er í huga allt það ágæta fólk sem ég kynntist um daginn.
Ég mætti til vinnu einungis tíu tímum eftir að ég kom heim að utan og hefi enn ekki haft tíma til að skoða stöðu mála, hvað þá að færa myndir á milli tölva. Það mun ég væntanlega gera á morgun eða hinn daginn og um leið mun ég reyna að semja eitthvað nógu krassandi til að einhver nenni að lesa bloggið mitt. Bara ekki í kvöld. Að auki eru tvær kisur hér heima sem krefjast þess að ég sinni þeim meira en góðu hófi gegnir.
Ég bið því þessa þrjá lesendur mína að fyrirgefa mér leti mína.
3. apríl 2006 - Komin heim
Ég kom heim í kvöld eftir ellefu daga fjarveru. Þegar ég bar inn dótið mitt, horfðu kisurnar á mig stórum augum og létu sem þær þekktu mig ekki. Það var frekar eins og þær væru hræddar við mig.
Svo fór ég í bað og í framhaldinu útbjó ég næturmat fyrir kisurnar áður en ég fór að vinna í tölvunni. Eftir nokkra stund þar sem ég var að lesa póstinn minn, kom Hrafnhildur skyndilega og hoppaði upp í fangið á mér. Núna neitar hún að fara frá mér og vill bara sitja í fanginu á mér. Svona kelin hefur hún aldrei verið áður.
-----oOo-----
Ekki man ég fyrir hvern ég átti að kaupa þetta augnskuggasett frá Bobbi Brown. Ég er viss um að það var ekki fyrir Þórð, því að hann getur sjálfur keypt sér svona gæðaaugnskugga á leiðinni heim eftir páskana.
laugardagur, apríl 01, 2006
2. apríl 2006 - Enn í Málmhaugahjáleigu
Laugardeginum eyddi ég í rólegheitum hjá Eyfa frænda í Málmhaugahjáleigu, leit lítillega á ástand mála í bænum og komst að því að Skánverjar eru hættir að geta byggt hornrétt hús, rétt eins og hefðu þeir farið á námskeið hjá dönskum arkitektum eða þá íslenskum.
Það verður haldið heim á leið á sunnudagskvöldið og þá verður gaman hjá tveimur kisum sem hafa engna skilning á því að ég hafi verið í burtu í allan þennan tíma. Svo slapp ég við eina fermingarveislu.
-----oOo-----
Hetjurnar fótfráu í Halifaxhreppi hlýddu loks fyrirmælum mínum og sýndu af sér frábæra knattspyrnu á laugardag er þær töpuðu glæsilega fyrir Dægurhömstrunum á Rauðubrú með einu marki. Þrátt fyrir þetta tap eru þær enn í þriðja sæti kvenfélagsdeildarinnar þegar þær eiga sex leiki eftir á leiktímabilinu.