mánudagur, apríl 24, 2006

24. apríl 2006 - Göngutúrar með meiru


Á göngu minni um Elliðaárdalinn á sunnudagskvöldið rak ég augun í skilti þar sem fólk er hvatt til að sýna viðkvæmu lífríki Elliðaánna tillitssemi. Þetta finnst mér gott skilti og nauðsynlegt.

Í árhundruð hafa hinir ýmsu fiskadráparar, kóngar, borgarstjórar og limir í Stangaveiðifélagi Reykjavíkur gert ítrekaðar tilraunir til að útrýma laxinum úr Elliðaánum og ekki hefur ástandið lagast með stóraukinni bílaumferð yfir Elliðaárnar, en mér skilst að nú séu yfir hundrað þúsund bifreiðar á dag sem spýja útblæstrinum niður í árfarveginn og menga vatnið fyrir fiskinum. Starfsfólk Elliðaárstöðvar hefur reynt að spyrna á móti með margvíslegum ráðstöfunum svo sem með vatnsmiðlun allt árið niður árnar og eftirliti með þeim 365 daga á ári.

Fyrir rúmu ári síðan reyndi ónefndur borgarfulltrúi R-listans að banna kajakæfingar í straumvatni Elliðaárstöðvar sem og að takmarka umferð gangandi fólks meðfram árbökkunum, en uppskar athlægi fyrir bragðið, enda vitum við sem er, að gangandi fólk og kajakræðarar eru fólkið sem veldur minnstu tjóni fyrir lífríkið í Elliðaánum.

Það er ekki nema tvennt sem hægt er að gera til að bæta lífríki Elliðaánna frá því sem nú er. Það er annars vegar að banna akstur bifreiða í námunda við Elliðaárnar eða banna laxveiðar í ánum. Ég sé í anda atkvæðamissir þess stjórnmálaflokks sem reynir að banna bílaumferð yfir Elliðaárnar og þá er bara eitt eftir.

-----oOo-----

Erindi mitt með sunnudagsgöngutúrnum var það að fara með bílinn á verkstæði til að yfirfara bremsukerfið fyrir aðalskoðun og gekk ég heim eftir að hafa skilið bílinn eftir við verkstæðisdyrnar. Gangan reyndist mér öllu erfiðari en ég hafði ætlað því ég kom lafmóð heim eftir 40 mínútna labb í gegnum Elliðaárdalinn. Það hafði mátt ætla að ég hefði unnið kappaksturinn á Formúlu saumavél, en ekki heimsmethafinn geðþekki. Sjálfur sté hann úr bílnum með saumavélarmótorinn án þess að að blása úr nös og er hann sennilega í betra ásigkomulagi líkamlega en ég. Hafði hann þó bætt tvö eigin heimsmet með kappakstrinum á sunnudeginum auk þess sem að hann sló gamalt heimsmet í ráspólafjölda á laugardeginum. Ég ætti kannski að bjóða mig fram í kappakstur á mínum vinstrigræna Subaru.

-----oOo-----

Það ríkti sorg á ritstjórnarskrifstofum Morgunblaðsins eftir að heimsmethafinn geðþekki vann keppnina á Imola brautinni í gær og leyndu vonbrigðin sér ekki í skrifum íþróttafréttaritara Morgunblaðsins, Ágústs Ásgeirssonar. Eftir að hafa grátið hvern heimsmeistaratitil Michaels Schumacher ár eftir ár, sá hann loks fram á betri tíð í fyrra er allt gekk á afturfótunum hjá þáverandi heimsmeistara. Þótt hans manni tækist einungis að lenda í öðru sæti í stigakeppni ársins, gerði Ágúst sér samt vonir um heimsmeistaratitil í ár.

Með því að Michael virðist loksins að koma til baka, verður titilsókn hins syfjaða uppáhalds Ágústs öllu erfiðari og verulega minni líkur fyrir ísklumpinn að vinna titil að sinni.

-----oOo-----

Loks ætla ég að óska sjálfri mér til hamingju með daginn, en mánudagurinn 24. apríl 1995 verður mér minnisstæður til æviloka vegna eigin reynslu, en auk þess minnir dagurinn mig á góða vinkonu sem á afmæli þennan dag og einnig á stef úr velþekktu tónverki Pink Floyd.


0 ummæli:







Skrifa ummæli