föstudagur, apríl 07, 2006

7. apríl 2006 - Af Hæstaréttardómi

Nú hefur Hæstiréttur dæmt í máli tóbaksverslunarinnar Bjarkar gegn íslenska ríkinu og hafði verslunin betur að hluta. Mér finnst þetta hið besta mál, bæði er að síðasta útgáfa tóbaksvarnalaganna gekk mun lengra í að hefta frelsi fólks en dæmi voru um áður og gekk aðallega út á að binda fyrir augun á fólki, en einnig var um að ræða brot á atvinnufrelsi fólks sem vinnur í verslunarstörfum af þessu tagi.

Ég reykti mikið í þrjátíu ár. Þótt ég sé hætt fyrir nærri sex árum síðan, breytir það engu um að ég er lítt hrifin af núverandi tóbaksvarnarlögum og enn minna af því frumvarpi til tóbaksvarnarlaga sem nú er fyrir Alþingi. Sú hugmynd að banna alfarið reykingar á krám og skemmtistöðum tel ég að eigi að vera í höndum kráareigenda sjálfra frekar en að banna alveg reykingar inni á sama tíma og bargestir og starfsfólk norpa úti fyrir dyrum í smók á meðan einn eða tveir leiðinlegir kráargestir sitja einmana innandyra. Sjálf þekki ég til á einum stað í Reykjavík þar sem er leyfilegt að reykja í hliðarherbergi, en aðalsalurinn er reyklaus. Það er jafnan fullt inni í litla herberginu, en vart hræða í stóra salnum.

Ég skal viðurkenna að af sumu reykingafólki leggur súra reyklykt, en þá lykt leggur af þeim hvort heldur það er með sígarettu í munninum eður ei. Svo leggur stöðugt vonda fýlu af sumu fólki hvort heldur það reykir eða ekki. Fýlan er þeim eðlislæg og hefur ekkert með reykingar að gera.

-----oOo-----

Nýlega kom í ljós einkennilegur lungnasjúkdómur hjá sjúklingum sem sendir voru til röntgenskoðunar á sjúkrahúsinu í Trollhättan í Svíþjóð. Allir virtust þeir vera með dökkan blett í lunganu og á svipuðum stað og olli þetta læknum og öðru starfsfólki miklum heilabrotum. Nú hefur komið í ljós að þessi lungnafaraldur sem einungis virtist herja á íbúa Trollhättan stafaði af krónupeningi sem lent hafði undir dýnunni sem sjúklingarnir lágu á meðan þeir voru í röntgenskoðun. Að sögn Dagens nyheter hefur krónupeningurinn nú verið fjarlægður og þar með lauk þessum einkennilega faraldri.

http://www.dn.se/DNet/jsp/polopoly.jsp?d=147&a=535310&previousRenderType=6


0 ummæli:







Skrifa ummæli