laugardagur, apríl 15, 2006

15. apríl 2006 - 2. kafli - Kvörtunarpistill

Það er kvartað yfir blogginu mínu. Það er því ljóst að það ríkir gúrkutíð í bloggmálum mínum þessa dagana sem sést best á minnkandi aðsókn og fáum athugasemdum og því greinilegt að fólk á það til að sofna yfir pistlum mínum. Það var alls ekki ætlunin, en til að bæta ykkur þetta upp, ætla ég að setja aftur inn vel valda kafla úr gömlum pistlum. Ég hefi aftur fengið aðgang að gömlu bloggfærslunum mínum á blog.central.is og get því sótt færslurnar og endurbirt þær hér.

Til þess að þreyta lesendur mína ekki um of með endurtekningum mun ég að sjálfsögðu taka fram ef um endurtekið efni er að ræða. Færsla morgundagsins verður að sjálfsögðu endurtekin páskahugvekja ársins 2005, því rétt eins og að Júdas hengir sig á ári hverju, rígheld ég líka í hefðirnar og vek gamla bloggið til lífsins aftur á hverjum páskum um leið og ég krossfesti lesendur mína með grobbi og sjálfshóli í pistlum mínum.

-----oOo-----

Ill tíðindi berast mér úr ensku kvenfélagsdeildinni. Gránufélagið sem átti að komast uppfyrir hetjurnar okkar í Halifaxhreppi með stórsigri á botnliðinu, Ræningjunum í Grænaskógi, og tryggja þannig áframhaldandi stöðu þeirra í kvenfélagsdeildinni, náði einungis lélegu jafntefli og því munu hetjurnar okkar þurfa að lifa áfram í óttanum um að enda í langneðstu deild í haust.


0 ummæli:







Skrifa ummæli