Það hefur löngum þótt góður siður að elda fuglakjöt þannig að það verði gegnsteikt eða gegnsoðið áður en þess er neytt. Af ævagamalli reynslu hefur þetta verið stundað mann fram af manni í hundruðir ára til þess að koma í veg fyrir að ýmsir fuglasjúkdómar berist í mannfólkið og valdi magakveisu, niðurgangi og í versta tilfelli, dauða. Hver kannast ekki við að hafa heyrt talað um salmonellu og kamfýlóbakteríur? Á sama hátt og gegnsoðið fuglakjöt drepur slíkar sýkingar áður en þess er neytt, drepur suðan einnig aðrar fuglasýkingar sem borist geta í menn.
Nú hefur ný fuglavá borist í menn og enn þarf að beita svipuðum varúðarráðstöfunum, þ.e. að gegnsjóða matinn til að hindra smit. Þessi nýi smitsjúkdómur hefur valdið dauða um hundrað manna og kvenna víða um heim, sennilega oftast eða alltaf vegna þess að það var verið að káfa á smituðum fuglum með berum höndum, slátra þeim með berum höndum eða þá að þeirra var neytt án þess að þess væri gætt að þeir yrðu nægilega soðnir fyrir átu. Því fór sem fór.
Á undanförnum vikum hafa nokkrar kviksögur borist okkur um fluglauppstoppara sem hafa ákveðið að hætta að stoppa upp fugla vegna fuglaflensu og af gæsabóndanum sem slátraði öllum gæsunum sínum og ætlar næst að myrða köttinn sinn af sömu ástæðu. Kannski er hann búinn að slátra kettinum sínum. Hvaðan skyldi svo þessi ofsahræðsla berast í fólk? Ekki kemur hún frá héraðsdýralækni eða frá öðrum þeim aðilum sem vit hafa á fuglaflensu. Þar er allt með ró og spekt og fólk er jafnvel varað við því að láta óttann taka völdin. Nei, kviksögurnar koma frá öðrum aðilum.
Ég held að fuglaflensa hafi hreiðrað um sig á fréttastofu Ríkissjónvarpsins.
-----oOo-----
Það er farið að syrta í álinn fyrir stjörnunum okkar í Halifaxhreppi þegar einungis fimm leikir eru eftir af deildakeppninni í kvenfélagsdeildinni og þær hanga enn í þriðja sæti eftir sigur á Suðurhliði í gær. Einungis sjö lið virðast enn hafa möguleika á að komast úr kvenfélagsdeildinni í vor, þar af er eitt þegar búið að tryggja sér sæti í langneðstu deild, en fjögur næstu lið munu berjast um tvö önnur sæti í skussadeildinni á hausti komanda.
Af þessum fimm leikjum sem eftir eru, eru þrír á heimavelli, en annar útileikurinn er við Kröflubæ sem hefur naumlega tekist að víkja úr fallsæti úr kvenfélagsdeildinni. Kannski verður heimaleikurinn næstkomandi föstudag sá úrslitaleikur sem skilur á milli feigs og ófeigs, hverjir hafa ólympíuhugsunina að leiðarljósi og hverjir láta markagræðgina ráða yfir sér.
-----oOo-----
Svo fær örverpið hamingjuóskir með 24 ára afmælið í dag.
sunnudagur, apríl 09, 2006
9. apríl 2006 - Af fuglaflensu ofl.
Birt af Anna Kristjánsdóttir kl. 00:03
Gerast áskrifandi að:
Comment Feed (RSS)
0 ummæli:
Skrifa ummæli