Daginn sem ég flutti í Árbæinn fyrir rúmlega ári síðan, rakst ég á útlending í stigaganginum þar sem ég var á fullu að bera kassa og öfugt við þá Íslendinga sem ég hafði mætt í húsinu fram að því, þá tók hann í hendina á mér og bauð mig velkomna í húsið. Síðar komst ég að því að útlendingurinn er ættaður frá Austurlöndum nær, en hafði verið búsettur í Þýskalandi er hann kynntist íslenskri konu sinni sem var þar í námi og þau höfðu síðan sest að á Íslandi eftir nám þeirra.
Ég veit ekkert hverrar trúar nágranni minn er, né heldur hefi ég fullvissu fyrir þjóðerni hans og það kemur mér ekkert við. Nafn hans, útlit og hreimur í rödd er ekki nóg fyrir mig að ganga á torg og fordæma manninn. Þvert á móti hefur hann á einfaldan hátt sannað sig fyrir mér og það nægir mér.
Fellahverfið er að breytast í hverfi innflytjenda. Langavitleysan sem svo hefur verið kölluð er orðin sem Rinkeby eða Rosengård og er það miður. Innflytjendur eru farnir að safnast saman þarna í stað þess að dreifa sér um borgina. Ég fagna því þegar okkur auðnast að kynnast nýjum viðmiðum og öðruvísi trúarbrögðum, framandi þjóðum, en ég vil sjá þetta fólk á meðal okkar einfaldra sálanna sem höfum húkt hér á Klakaskerinu um aldir alda, en vil ekki sjá það búa í einangruðum samfélögum í Fellahverfinu. Ég er búin að sjá nóg af slíku, rótleysi unglinga sem eiga sér enga fósturjörð og leiðast út allskyns vafasama starfsemi. Því vil ég sjá þessar þjóðir dreifa sér á meðal okkar.
Maðurinn á hæðinni fyrir ofan mig er sönnun þess að þjóðirnar geta búið saman í sátt og samlyndi.
miðvikudagur, apríl 19, 2006
19. apríl 2006 - Innflytjendur
Birt af Anna Kristjánsdóttir kl. 00:04
Gerast áskrifandi að:
Comment Feed (RSS)
0 ummæli:
Skrifa ummæli