fimmtudagur, apríl 13, 2006

13. apríl 2006 - Af fjármálum þjóðarinnar

Ég er farin að hafa áhyggjur af fjármálum íslensku þjóðarinnar. Ég hefi svo sem vitað lengi að fjármálakerfi íslensku þjóðarinnar er sem risi á brauðfótum eða réttara sagt að þjóðarskútan sé sem loftpúðaskip og ef loftpúðinn skaðast sekkur þjóðarskútan á botninn. Ég ætla samt að vona að það verði ekki svona slæmt, en um leið minnist ég þess er sænska þjóðarskútan sökk til botns um 1990 með skelfilegum afleiðingum fyrir allan þorra almennings í Svíþjóð þar sem skammtímavextir fóru upp í 500%.

Ég tel mig ekki vera í vondum málum þótt ég eigi ekki mikið í afgang. Ég þoli alvarlegt fjárhagslegt áfall í skamman tíma, en ekki mikið meira en það, bíllinn skuldlaus og auðvelt að beita einhverjum sparnaði. Ég hefi meiri áhyggjur af langtímasparnaði mínum. Hluti lífeyrissparnaðar míns er bundinn í verðbréfasjóðum og hlutabréfum. Það gæti farið illa ef allt fer á versta veg. Ég tók því þá ákvörðun í gær að flytja allt sem ég gæti á einfalda verðtryggingu. Það getur vel verið að ég sé að gera mistök, en það þykir góður siður að rifa segl ef óveðursský nálgast.

-----oOo-----

Vegna starfa minna innan Ættfræðifélagsins missti ég af sjónvarpsfréttum og Kastljósi. Því veit ég ekki um áhrif fuglaflensu dagsins á þessa stofnun. Um miðjan gærdaginn heyrði ég á fréttum útvarps að fuglaflensan ógurlega sé óhjákvæmilega að nálgast landið. Ég vorkenni fuglunum.


0 ummæli:







Skrifa ummæli