Það var einhverju sinni í gamla daga að skipið sem ég var á lá í höfn í Portsmouth skammt frá Norfolk í Virginíufylki í Bandaríkjunum. Ég var jafnan með bíl til umráða þegar höfð var viðkoma í Portsmouth og nokkrum skipverjum á Bakkafossi hugkvæmdist að skreppa í bæinn og kíkja ofan í eina eða tvær ölkrúsir. Meðal þeirra var matsveinninn um borð, maður á miðjum aldri. Vandamálið við hann var bara að hann var svo skelfilegur aftursætisbílstjóri. Á leiðinni í bæinn glumdu sífellt á mér skammirnar úr aftursætinu: “Þú keyrir of hratt, þú átt að vera á hinni akreininni, það er rautt ljós framundan”.
Við fórum og versluðum lítilsháttar í bænum og svo var litið inn á krár við Little Creek Road í Norfolk. Það var komið nokkuð framyfir miðnætti þegar við lögðum af stað um borð. Þótt matsveinninn væri búinn að fá eitthvað í annan fótinn eða báða, breyttist hann í hvæsandi óargadýr um leið og hann settist í aftursætið og skammirnar byrjuðu að dynja á mér um leið og ekið var af stað. Það var engin umferð úti á Hampton Boulevard og ég var í góðu skapi þrátt fyrir skammirnar úr aftursætinu. Er ég heyrði þann gamla vara mig við rauðum umferðarljósum framundan, ákvað ég að prófa viðbrögðin, leit vel eftir umferð á hliðargötum og ók svo yfir á rauðu.
Í baksýnisspeglinum sá ég kokkinn lyppast niður í sætinu og hann þagnaði. Kyrrð komst á í bílnum og sökum þess að ég hafði farið yfir á rauðu varð ég að stoppa á næstu gatnamótum sökum samhæfingar umferðarljósa. Svo kom grænt og ég ók af stað. Þá birtist allt í einu lögreglubíll fyrir aftan mig með blikkandi ljósum og var mér gefin bending um að stoppa sem ég gerði.
Í lögreglubílnum voru tveir lögregluþjónar, hvítur karl og svört kona. Ég var beðin að koma úr bílnum og á meðan karlmaðurinn yfirheyrði mig, stóð konan allan tímann vel til hliðar með hönd á byssuskeftinu. Það var greinilega fáum að treysta í þessu aðalvígi bandaríska flotans.
Lögregluþjónninn vildi sjá ökuskírteinið mitt og pappíra fyrir bílnum. Ég sýndi honum mitt rammíslenska ökuskírteini auk annarra pappíra. Ekki leist honum sérlega vel á ökuskírteinið mitt og byrjaði að véfengja gildi þess. Ég benti honum á að tryggingafélögin væru búin að samþykkja það sem hann gat séð á öðrum gögnum. Loksins samsinnti hann rökum mínum, en bætti svo við:
“Þú ókst yfir á rauðu ljósi áðan”
“Já það er rétt.”
“Af hverju?”
Ég útskýrði fyrir lögreglumanninum að ég væri með aftursætisbílstjóra afturí hjá mér og að ég hefði farið yfir á rauðu ljósi til að þagga niður í honum. Þetta þótti lögreglumanninum mjög gott ráð og hló mikið, en bannaði mér að gera þetta aftur á meðan ég væri í þeirra umdæmi, en reyna frekar að komast hjá að ferðast með kokkinn. Enga fékk ég sektina og við kvöddumst og þau fóru á brott.
Ég fór að ráðum þeirra, fór um borð í snatri og losaði mig við matsveininn og hefi ekki boðið honum far aftur. En nóttin var rétt byrjuð.....
Þegar komið var að varðhliðinu við höfnina í Portsmouth, bað vörðurinn mig að koma aðeins inn í varðskýlið sem ég gerði. Inni sat skipstjórinn okkar og þurfti að komast upp upp í aðalstöðvar lögreglunnar í Norfolk og hvort ég gæti ekki farið með honum þangað þar sem ég væri edrú og á bíl. Það var sjálfsagt því vart taldist skipstjórinn hæfur til aksturs, vel hreyfur af öli. Ég skutlaði strákunum og aftursætisbílstjóranum um borð og hélt svo aftur í bæinn með skipstjórann meðferðis.
Á leiðinni útskýrði hann fyrir mér hvað væri í gangi. Fjórir ungir áhafnarmeðlimir hefðu verið handteknir og settir í steininn vegna ósæmilegrar hegðunar nærri miðborg Norfolk, en sá fimmti, messaguttinn væri undir lögaldri. Samkvæmt lögum í Virginíufylki mætti ekki hneppa hann í varðhald ef næðist í lögráðamann hans sem þyrfti að sækja hann. Skipstjórinn taldist vera lögráðamaður í þessu tilfelli og því þurfti að sækja drenginn í tukthúsið.
Það gekk fljótt og vel að finna aðalstöðvar lögreglunnar í Norfolk og þóttist ég vera með öll völd þarna og lagði bílnum mínum í bílastæði sem var merkt lögreglubílum og þóttist vita að lögreglan færi ekki að sekta fólk á heimavelli. Síðan fórum ég og skipstjórinn og með hjálp vakthafandi lögregluþjóna, fundum við réttu deildina í þessari risastóru lögreglustöð þar sem við hittum fyrir varðstjóra.
Eftir að hafa heilsað varðstjóranum, byrjaði okkar maður, mjög ákveðinn í bragði, að tilkynna að hann væri hingað kominn til að sækja fimm unga stráka frá sér sem lögreglan hefði í haldi. Varðstjórinn mótmælti og neitaði að láta fleiri af hendi en messaguttann nema ef skipstjorinn vildi reiða fram tryggingarfé til að fá þá lausa. Hinir fjórir þyrftu að mæta fyrir dómara um morguninn. Ekki man ég hvert tryggingaféð átti að vera, en það var of hátt til að skipstjórinn væri með það handbært. Hann reyndi samt hvað hann gat að fá þá lausa án tryggingar og stríddi varðstjóranum góðlátlega í leiðinni. Við fengum þó að heyra að brot strákanna hefði verið heimsókn á ólöglegt hóruhús: “Þú verður þá að sjá til þess að þeir fái lista yfir löglegu hóruhúsin þegar við komum hingað næst!”
Við fengum messaguttann afhentan, sextán ára peyja sem var í sinni fyrstu ferð til sjós. Hinir fjórir fengu að dúsa í dýflissunni um nóttina. Eftir að hafa labbað til baka sömu rangalana sem við höfðum komið, komum við aftur út á bílastæðið. Er þangað var komið mættum við tveimur lögregluþjónum sem voru að koma úr eftirlitsferð, hvítum karli og svartri konu og úr svip konunnar mátti lesa hugsanir hennar: “Það hafa einhverjir verið harðari við þig heldur en við!”
Á leiðinni til skips reyndi skipstjórinn að ræða við messaguttann. Hvað voruð þið að gera af ykkur? Hvað voruð þið að þvælast inn í mitt svertingjahverfi um miðja nótt? Er ekki til nóg af stelpum á Íslandi? Spurningarnar dundu á stráknum sem hummaði allar spurningar fram af sér og svaraði litlu og fálega. “Og mundu það að ef þú segir mér ekki hvað skeði, þá rek ég þig!” Alveg sama sagan. Strákurinn svaraði jafnlitlu og áður. Við komum um borð. “Og hunskastu svo niður að sofa. Ég tala betur við þig í fyrramálið” sagði yfirvaldið og snéri sér svo að mér þegar peyinn var farinn niður í herbergið sitt: “Komdu og fáðu þér einn öl, ekki veitir af eftir þetta næturævintýri”. Við settumst niður og opnuðum öl og þá fór skipstjórinn að hlæja eins og asni:”Mikið djöfull var þetta flott hjá drengnum, hann á eftir að spjara sig í lífinu. Að segja ekki orð um félaga sína á svona stundu. Ég skal sko segja þér það, að ef hann hefði byrjað að romsa upp úr sér öllu um hina, þá hefði ég rekið hann!”
Um morguninn lenti ég aftur í því að fara með skipstjórann til Norfolk, en í þetta sinn var loftskeytamaðurinn með í för til að túlka yfirheyrslu fyrir dómi. Þrír hásetar og smyrjari voru dæmdir í 37$ sekt hver fyrir heimsókn á ólöglegt hóruhús og mótþróa við handtöku. Við réttarhöldin kom fram að lögreglan hafði lengi vitað um starfsemina í húsinu, en sökum þess að dæmi voru um að menn hefðu farið þangað og aldrei spurst til þeirra aftur var vandlega fylgst með því úr næsta húsi. Þegar fimm bláeygðir Íslendingar fóru inn í húsið til að seðja þörfum sínum, ákvað lögreglan að gera áhlaup á húsið fremur en að sitja hjá ef eitthvað blóðbað ætti sér stað.
Messaguttinn sigldi með okkur í nokkra mánuði eftir þetta og var í miklu uppáhaldi hjá skipstjóranum eftir að hann sannaði þagmælsku sína með óvægnum hætti nóttina forðum. Hann hætti þó fljótlega til sjós og hóf að starfa í landi þar sem hann lést ári síðar í vinnuslysi. Skipstjórinn var lengstum vinsælasti skipstjórinn hjá Eimskip og er enn hinn hressasti á miðjum áttræðisaldri.
-----oOo-----
Með þessu óska ég öllum gleðilegra páska.
sunnudagur, apríl 16, 2006
16. apríl 2006 - Af rauðu ljósi og tugthúslimum - endurtekið
Birt af Anna Kristjánsdóttir kl. 00:04
Gerast áskrifandi að:
Comment Feed (RSS)
0 ummæli:
Skrifa ummæli