Ég fékk sáralitla tónlistarkennslu þegar ég var í barnaskóla að Brúarlandi í Mosfellssveit. Aðalkennarinn okkar sem var nýútskrifaður úr Kennaraskólanum var enn ekki uppgötvaður sem tónlistarsnillingur og áhugamaður um hljóðfæri og að auki á fullu í að setja sig inn í kennsluna og að þroska sig í háttum fullorðinna, sjálfur rétt kominn yfir tvítugt er hann hóf að kenna. Því fór ekkert fyrir tónlistarkennslu af hálfu Birgis Sveinssonar að sinni þótt seinni tíma nemendur ættu eftir að njóta hæfileika hans í ríkum mæli sbr. Þorkel Jóelsson og síðar drengina í SigurRós.
Miðaldra maður sem kallaður var Óli fiðla kenndi okkur söng um tíma en fórst kennslan fremur illa úr hendi, ekki vegna áhugaleysis, fremur vegna þess hve erfitt honum reyndist að halda uppi aga í kennslustundum. Því átti hann það til að missa stjórn á skapi sínu og þetta nýttu eldri krakkarnir sér út í ystu æsar og er það miður. Því fór svo að þegar ég fór til Reykjavíkur og settist í tólf ára bekk haustið 1963, kunni ég ekkert í tónlistarfræðum, gat hvorki lesið nótur né spilað á hljóðfæri. Ekki bætti úr að ég var og er enn alveg hræðilega laglaus.
Þegar ég kom í skólann í Reykjavík, lenti ég í bekk með krökkum sem öll höfðu iðkað tónlistarnám árum saman hjá sama kennaranum. Þau kunnu sitt af hverju í músíkölskum fræðum, öll nema ég. Það var því ljóst að ég myndi eiga mjög erfitt tónlistarnám fyrir höndum þótt önnur fræði í tólf ára bekk væru mér tiltölulega auðveld viðureignar. Ég lenti í skyndiprófi eða miðsvetrarprófi í tónlistinni og ég fékk minnir mig 2.0 í einkunn og þá fyrir viðleitni. Ákaflega uppbyggjandi einkunn eða hitt þó heldur, en ég átti víst ekkert betra skilið.
Þegar neyðin er stærst er hjálpin næst. Skömmu eftir þetta skelfilega skyndipróf varð kennslukonan í tónlistinni að hætta kennslu sökum þess að hún var komin langt á leið, ólétt að fyrsta barni sínu. Með þessu lauk öllum frekari tilraunum til uppfræðslu minnar í tónlist og mér varð naumlega bjargað frá því að vera send í verri bekkjardeild þegar komið var í Gagnfræðaskólann.
Í vikunni var ég að skoða fermingarmyndir á bloggsíðu einni, kannaðist við afann sem fyrrum samstarfsmann hjá Orkuveitunni og fór að skoða myndina af afanum og ömmunni aðeins betur. Í framhaldi af því fór ég að skoða ættartölur og hnýsast um góða bloggvini og niðurstaðan varð þessi:
TAKK Hildigunnurr fyrir að bjarga mér frá slæmum einkunnum veturinn 1963-1964 :)
laugardagur, apríl 22, 2006
22. apríl 2006 - Um tónlistarnám
Birt af Anna Kristjánsdóttir kl. 03:28
Gerast áskrifandi að:
Comment Feed (RSS)
0 ummæli:
Skrifa ummæli