sunnudagur, apríl 30, 2006

30. apríl 2006 - Fjallganga

Í gær var hrópað til veisluhalda því nú skyldi fagnað. Í viðurvist starfsfólks Orkuveitunnar, ráðherra og alþingismanna auk vors ástkæra veraldlega leiðtoga á Bæjarhálsi, var lagður hornsteinn að stöðvarhúsi hinnar nýju virkjunar á Hellisheiði. Þar var vel veitt og undu allir glaðir við sitt, kneifuðu öl og tróðu í sig góðgæti undir ræðuhöldum og söng.

Undir sæng í Reykjavík lá undirrituð með boðskortið á koddanum, svaf á sitt græna eyra og vissi ekkert hvað var í gangi, örþreytt eftir erfiði næturvaktarinnar.

Slík fásinna sem að sofa af sér veisluhöldin er ófyrirgefanleg. Því var skotið á ráðstefnu í starfsmannaklúbbnum þar sem harður dómur féll yfir ykkar einlægri fyrir svik þau sem fólust í því að sofa yfir sig.

Suður í Hafnarfirði svaf húsfreyja ein yfir sig eftir að hafa staðið í skúringum og þvottum langt fram á nóttina á undan. Þótt hún hafi þegar verið örþreytt eftir þrældóm dagsins á ónefndri ritstjórnarskrifstofu í Reykjavík er hún hóf tiltektirnar á heimilinu, dæmdist hún einnig til þyngstu refsingar. Báðum þessum konum var gerð sú refsing að klífa hæstu tinda og skila sér aftur niður fyrir fréttir og veður.

Undirbúningur fjallgöngunnar gekk vel. Beitt var tækniþekkingu hinnar fyrrnefndu og samningalipurð hinnar síðarnefndu og leigðir tuttugu serpar til að bera farangurinn í átt að efstu búðum neðan við jökulröndina, en þeir urðu fljótt örmagna og voru því skildir eftir í næstefstu búðum, en konurnar tvær tóku súrefnisbirgðirnar á bakið, tróðu nestisbirgðum í vasana, vopnuðust reipum, ísöxum og gaddaskóm og hófu að klífa bergstálið. Þetta gekk vonum framar þrátt fyrir að öskrandi villidýr af sömu ætt og tígrisdýr yrðu á leið þeirra. Þrætt var framhjá jökulsprungum og svellalögum og klifið hærra og hærra og í gegnum hugann fóru ljóðlínurnar fögru:

Klífa skriður.
Skríða kletta.Velta niður.
Vera að detta.
Hrufla sig á hverjum steini.
Halda að sárið nái að beini

Rétt eins og í ljóðinu eftir Tómas, styrktist trúin við hverja raun og loks var staðið á efsta tindi. Nístingskuldi lék um okkur, regnið hamaðist á andlitum okkar og maskarinn lak niður kinnarnar. Þrátt fyrir þetta fylltumst við stolti og hamingju eftir að hafa náð þessum mikilvæga áfanga í lífinu, eða eins og segir í næsta versi:

Hreykja sér á hæsta steininn.
Hvíla beinin.
Ná í sína nestistösku.
Nafn sitt leggja í tóma flösku.
Standa aftur upp og rápa.
Glápa.

Eftir að hafa staðið um stund á efsta toppi var haldið niður að nýju. Enn var mætt hinum verstu erfiðleikum, skriðið niður urðina, farið gegnum djúpa dali og vaðin hin verstu kviksyndi, en niður komumst við. Að lokum gátum með stolti snúið okkur við og sagt hverjum sem heyra vildi:

Sjáið tindinn! Þarna fór ég.

Loks náðum við til byggða, þreyttar, sárar og hamingjusamar eftir miklar raunir. Stoltar gátum við sagt hverjum sem heyra vildi að nú hefði Ásfjallið í Hafnarfirði, hvorki meira né minna en 127 metra hátt yfir sjávarmáli, verið lagt að velli.

-----oOo-----


Fjallganga
eftir Tómas Guðmundsson

Urð og grjót.
Upp í mót.
Ekkert nema urð og grjót.
Klífa skriður.
Skríða kletta.
Velta niður.
Vera að detta.
Hrufla sig á hverjum steini.
Halda, að sárið nái beini.
Finna, hvernig hjartað berst,
holdið merstog tungan skerst.
Ráma allt í einu í Drottinn:
„Elsku Drottinn,núna var ég nærri dottinn!
Þér ég lofa því að faraþvílíkt aldrei framar,
baraef þú heldur í mig núna!
“Öðlast lítinn styrk við trúna.
Vera að missa vit og ráð,
þegar hæsta hjalla er náð.

Hreykja sér á hæsta steininn.
Hvíla beinin.
Ná í sína nestistösku.
Nafn sitt leggja í tóma flösku.
Standa aftur upp og rápa.
Glápa.
Rifja uppog reyna að munafjallanöfnin:
náttúruna.
Leita og finnaeitt og eitt.
Landslag yrði lítils virði,
ef það héti ekki neitt.

Verða kalt,
er kvöldar að
Halda seint og hægt af stað.
Mjakast eftir mosatónum.
Missa hælinn undan skónum.
Finna sig öllu taki tapa:
Hrapa!
Velta eftir urð og grjóti
aftur á bak og niðr í móti.
Leggjast flatur.
Líta við.
Horfa beint í hyldýpið.
Hugsa sér, að höndin sleppi.
Hugsa sér,að steinninn skreppi.
Vita urðir við sér taka.
Heyra í sínum beinum braka.
Deyja, áður en dagur rynni.
Finnast ekki einu sinni.

Koma heim og heita því
að leggja aldrei upp á ný.
Dreyma margar næstu nætur
hrap í björgum, brotna fætur.
Segja löngu seinna frá því:
„Sjáið tindinn, þarna fór ég!
Fjöllunum ungur eiða sór ég,
enda gat ei farið hjá því,
að ég kæmist upp á tindinn.
Leiðin er að vísu varla
vogandi nema hraustum taugum,
en mér fannst bara
bezt að fara
beint af augum,
því hversu mjög sem mönnum finnast
fjöllin há,
ber hins að minnast,
sem vitur maður mælti forðum
og mótaði í þessum orðum,
að eiginlega er ekkert bratt,
aðeins mismunandi flatt.“


0 ummæli:







Skrifa ummæli